12.05.1969
Efri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., sem hér talaði áðan, höfum við tveir nm. úr fjhn. þessarar hv. d. samið sérstakt nál. um það mál, sem hér liggur fyrir, ríkisreikninginn fyrir árið 1967. Þessu nál. hefur enn ekki verið útbýtt, það barst ekki fyrr en í morgun til skrifstofunnar, og hefur ekki unnizt tími til að prenta álitið. Ég mun þess vegna leyfa mér að gera munnlega grein fyrir því í örfáum orðum.

Það er eins ástatt með mig og hv. 12. þm. Reykv., að ég tel, að l. samkvæmt eigi að leggja ríkisreikning fyrir til samþ. á Alþ., en að vísu sé hér mestmegnis um formsatriði að ræða og enginn hafi fyrirgert neinum rétti til þess að gera athugasemdir við reikninginn á síðara stigi. Sérstaklega lýtur þetta nú að því, sem ég mun koma aðeins að síðar, að ríkisendurskoðunin hefur ekki nærri því lokið endurskoðun á öllum reikningum stofnana. Þess vegna er það, eins og hér hefur verið frá skýrt, að enda þótt ég og hv. 3. þm. Vestf. höfum skilað sérstöku nál., þá leggjum við þó til, að reikningurinn verði samþ.

En það eru nokkur atriði, sem okkur langaði til að vekja athygli á, áður en reikningurinn fer héðan, og ég mun reyna að gera grein fyrir þeim atriðum í stuttu máli.

Í fyrsta lagi höfum við það almennt við þetta mál að athuga, að samkvæmt upplýsingum yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins fyrir árið 1967 hefur þeim borizt skrá frá yfirendurskoðanda ríkisins yfir þá reikninga, sem enn hefur ekki unnizt tími til að endurskoða frá 1967 og sumir einnig frá eldri árum. Er hér um að ræða 24 ríkisstofnanir, sem þannig er ástatt um, og sumar þeirra áreiðanlega með mjög mikla veltu, og stórar fjárhæðir, sem þar er um fjallað. Í þessum hópi stofnana eru t.d. borgarfógeta- og borgardómaraskrifstofurnar, embættiskostnaður tollstjórans og tollgæzlan í Reykjavík. Allt hygg ég þetta vera nokkuð stóra liði. Kostnaður lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli er einnig óendurskoðaður 1967, sendiráðin 1967, Ríkisútvarpið 1967 og síðast en ekki sízt í þessari upptalningu Vegagerð ríkisins 1966 og 1967, en eins og allir hv. þdm. vita, þá er fjármagnsvelta Vegagerðar ríkisins mjög mikil, og því áreiðanlega rík ástæða til þess, alveg án þess að neinar aðdróttanir séu hafðar í frammi, að ríkisendurskoðunin yfirfari þá reikninga.

Ég veit það að vísu, bæði af þeirri reynslu, sem ég hef haft af því að fjalla um ríkisreikning í n. síðan ég kom á Alþ., sem ekki er nú langur tími, og auk þess af fyrri störfum, að hér er svo sem ekkert nýtt á ferðinni, og það er meira að segja gott, ef þetta yfirlit hefur ekki stundum verið lengra. Það mætti alveg segja mér, að svo hefði verið. Engu að síður álítum við, að hér ætti að breyta til og endurskoðun reikninganna ætti að fara fram jafnóðum og áður en ríkisreikningurinn er lagður fyrir Alþ. Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur áður svarað svipaðri aths., sem aðrir hafa gert við ríkisreikninginn að þessu sinni og fyrr og ber því við, sem vafalaust er rétt, að sérhæft starfslið endurskoðunardeildarinnar hafi ekki undan, það komist ekki yfir verkefnin. En mér þykir þó rétt að segja það sem mína skoðun, að ég teldi mjög æskilegt, að þessu yrði komið á réttan kjöl, og það er auðvitað ekkert minna verk að endurskoða þessa reikninga langt á eftir. Það væri í alla staði miklu heppilegra, ef hægt væri að koma því þannig fyrir, að hægt væri að gera það jafnóðum, en það kostar sjálfsagt nokkurt átak einu sinni, það skal ég viðurkenna. Mér þótti rétt og okkur, sem að nál. stöndum, að koma aths. um þetta á framfæri.

Þá hefur verið að því fundið hér við umr. í þessari d. og annars staðar, að samkvæmt upplýsingum ríkisendurskoðendanna eða yfirskoðunarmanna Alþ. við ríkisreikninginn, eru við áramótin 1967–1968 miklar fjárhæðir enn í vörzlu innheimtumanna, eða rúmar 200 millj. kr. Samkv. nýjum bókhaldslögum, sem samþ. voru hér á Alþ., að mig minnir í fyrra, þá er nú algjörlega óheimilt að hafa þessi vinnubrögð á. Við, sem stöndum að nál. minni hl., sáum ástæðu til þess að undirstrika það, að við væntum þess fastlega, að ekki verði framhald á svo slælegum skilum innheimtumanna. Það er, eins og ég sagði, samkv. bókhaldsl. bannað að halda reikningunum opnum fram yfir áramótin, en samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh. er skýring þess, að svo miklar ríkistekjur væru óinnheimtar, sú, að innheimtumennirnir freistuðust til þess að laga til hjá sér með því að geyma að færa innborganir eða færa þær á fyrra ár, sem þýddi það, að þeir gátu að sjálfsögðu ekki verið búnir að skila þeim um áranótin, og það kemur þannig út í reikningnum, eins og þessi aths. nr. 2 hjá yfirskoðunarmönnum lítur út. Ég vænti þess og veit raunar, að nýjar reglur hljóta að verða teknar upp í þessu, annað væri brot á nýju bókhaldslögunum.

Þá vil ég aðeins minna á það, að yfirskoðunarmenn hafa að þessu sinni sett fram 20 aths. við ríkisreikninginn og þar af tvær, sem þeir vísa nú til aðgerða Alþ. En slík málsmeðferð er ekki algeng. Ég fullyrði ekki, að hér sé um einsdæmi að ræða á síðari árum, það fullyrði ég ekki, en þetta er fremur óalgeng málsmeðferð. Þessar tvær aths., sem svo þungt vega hjá yfirskoðunarmönnum, að þeir sjá ástæðu til þess að vísa þeim frá sér og afgreiða þær ekki sjálfir, heldur láta Alþ. fjalla um þær, eru í fyrsta lagi um bókhaldsfyrirkomulag hjá Ríkisútvarpinu, en um það atriði segja yfirskoðunarmenn. að þeir telji, að það bókhald, sem þar er viðhaft. skýri rangt frá eignum Ríkisútvarpsins og brjóti í bága við almennar reglur og höfuðstefnu ríkisreikningsins sjálfs. Hér eru allþungar ásakanir á ferðinni og ástæða til þess að vekja athygli á þeim. Nú hefur því verið yfirlýst, að þarna muni verða breytt til, og við. sem stöndum að minnihlutaálitinu, verðum að treysta því, að svo verði gert, og tökum undir það, sem fjhn. hv. Nd. setti fram um þetta atriði og hv. 12. þm. Reykv. vitnaði til áðan.

Hin athugasemdin, sem vísað er til meðferðar Alþ., lýtur að greiðslum til stjórnarnm. Skipaútgerðar ríkisins, en yfirskoðunarmenn telja þessar greiðslur þannig vaxnar, að engar hliðstæður eigi sér stað um launagreiðslur fyrir slík störf hjá ríkinu. Það er ástæða til að taka eftir þessu. Hér hefur verið greitt meira í laun fyrir störf en áður hefur átt sér stað; svo notað sé orðalag yfirskoðunarmanna. Hæstv. fjmrh. hefur við meðferð þessa máls hér á Alþ. upplýst það, sem menn raunar hafa nú séð annars staðar, að þessu fyrirkomulagi með tvo fjármálasérfræðinga við hlið forstjórans hefur verið breytt og eftir því, sem ég bezt veit, einn maður settur yfir fjármálin. Ég man nú ekki, hvað hann er kallaður, það skiptir heldur ekki máli, en þá má gera ráð fyrir því, að engar slíkar greiðslur eigi sér framvegis stað til stjórnarnm., þaðan af síður þá þannig greiðslur, að þær eigi sér enga stoð í launagreiðslum fyrir slík störf hjá ríkinu. Ég ætla ekkert að fara að fjölyrða um þetta hér. það er búið að ræða þetta talsvert og er augljóst, að þarna hefur verið ofborgað fyrir störf. Það er ástæða til þess að allir, sem þar eiga hlut að máli, gæti þess, að slíkar greiðslur komi ekki fyrir í framtíðinni.

Eins og ég segi hefur meiri hl. fjhn. Nd., og þar með Nd., sem samþ. reikninginn, afgreitt þessar aths. annars vegar með því að undirstrika, að reikningsgerð Ríkisútvarpsins verði breytt og að ríkisendurskoðunin sjái til þess, að eftir öðrum reglum verði farið, og hins vegar, að felld hafi verið niður þau störf. sem svo mjög voru ofborguð hjá Skipaútgerð. Ég sé því ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð.

Í fjórða lagi viljum við svo taka undir þær ábendingar, sem komið hafa fram hér í umr., m.a. hér í hv. d., um það, að það væri æskilegt, að ýmsir liðir ríkisreikningsins væru meira sundurliðaðir en nú er gert, til glöggvunar fyrir alla þá, sem reikninginn skoða. Ein aths. yfirskoðunarmanna lýtur einmitt að svipuðu atriði. Það er 6. aths., en þar segja yfirskoðunarmenn, að á árinu 1967 hafi kostnaður við störf nefnda samkv. ríkisreikningi orðið 5 millj. 31 þús. kr. á móti 3 millj. og 72 þús. kr. á fyrra ári. Þarna er um talsverða aukningu að ræða, það er, sýnist mér, svona fljótt á litið um 60–65% hækkun á þessum gjaldalið að ræða milli ára. Um þetta segja yfirskoðunarmenn, að venjulega sé tilgreint á fylgiskjali, hvaða menn hafi tekið þátt í störfum viðkomandi n. og þá tilgreind greiðsla til hvers fyrir sig. Hins vegar séu nokkur brögð að því, að greitt sé einum manni eða stofnun vegna n. án þess að gera frekari grein fyrir því, og um þetta eru nefnd nokkur dæmi.

Það er t.d. sagt, að skuttogaranefnd hafi verið greiddar 545 þús. fyrir störf sín á umræddu ári 1967. Í ríkisreikningnum eru ekki neinar upplýsingar um það, hverjir þessar greiðslur hafi fengið. Þetta er allt á nafni Davíðs Ólafssonar form. n., en ekki dettur mér í hug að ætla það, að honum einum hafi verið greidd þessi fjárhæð. En ríkisreikningurinn veitir ekki upplýsingar um annað.

Það segir enn fremur í yfirlitinu, að launamálanefnd hafi á þessu ári verið greiddar 453 þús. kr. Það er ekki heldur hægt að sjá á ríkisreikningnum, hvaða menn hafi tekið þessi laun eða hvernig þau hafi skipzt. Þetta er allt á nafni Baldurs Möllers ráðuneytisstjóra, form. n.

Ég skal nefna þriðja dæmið. Það er byggingarkostnaðarnefnd. Hún hefur samtals fengið greiddar 324 þús. kr. á umræddu ári. Það er ekki hægt að sjá, hverjir hafa veitt þessum greiðslum viðtöku. Það er allt á nafni form. n.. Haralds Ásgeirssonar. Það eru fleiri dæmi, sem yfirskoðunarmenn nefna um þessi mál, en ég skal láta þetta nægja, þetta eru stærstu dæmin.

Nú segir hér í ríkisreikningnum, að framvegis muni þetta verða meira sundurliðað, þar sem fjmrn. hafi beitt sér fyrir gerð sérstakra launamiða og að það muni sjá um samræmingu á þessum málum. Það er vel. Ég vona þá, að í næsta ríkisreikningi, sem lagður verður fyrir hv. Alþ. til staðfestingar, verði minna um slíka hulduliði, ef svo mætti segja, heldur en er í þessum reikningi.

Það kemur t.d. líka fram af ríkisreikningnum, þessum sem hér er til umr., að það hefur verið nokkuð algengt. a.m.k. hér áður fyrr, fyrir nokkrum árum, að starfsmenn ríkisstofnana hafi verið skuldugir þeim sömu stofnunum, það hafi farið fram lánsviðskipti milli stofnana og starfsmanna. Nokkrar aths. yfirskoðunarmanna lúta einmitt að þessu. Það segir t.d. í 15. aths. um Innkaupastofnun ríkisins: „Enn fremur viljum við undirstrika, að við teljum það fjarri öllu lagi, að lánsfjárviðskipti eigi sér stað við starfsmenn stofnunarinnar. Yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins leggja áherzlu á það, að festa og reglusemi eigi sér stað í starfsemi stofnunarinnar.“ Þetta er víðar, þetta er í fleiri aths. Það er t.d. í 11. aths. um innheimtu hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni. Yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins vilja sem fyrr vara við þeim viðskiptamáta og leggja áherzlu á það, að frá því verði horfið með öllu hjá þessari og öðrum ríkisstofnunum, að starfsfólk skuldi stofnuninni. Sams konar aths. er nr. 12 um Orkustofnun og nr. 13 um Flugmálastofnunina. Í svörum við þessum aths. er sagt, að þetta fyrirkomulag hafi verið afnumið, og ég) vonast þá til þess, eins og ég sagði áðan, að í næsta ríkisreikningi verði ekki slíkar aths. að finna. Það væri vel, ef verið er að laga þarna til. En það sýnir bara, að svo seint sem 1967 a.m.k. hafa svona viðskipti átt sér stað.

Ég tek t.d. eftir því líka, að í 15. aths. varpa yfirskoðunarmenn fram þeirri spurningu, hvort fyrir liggi samþykki rn. fyrir bifreiðastyrkjum starfsmanna þessarar stofnunar. Þessu er svarað á þá lund, að á árinu 1967 hafi ekki legið fyrir sérstakt samþykki rn. fyrir bifreiðastyrkjum starfsmanna, en þeir hafi þá verið ákveðnir af forstjóra, en samþykkt rn. liggur fyrir í dag í grundvallaratriðum samhljóða því, sem forstjóri ákvarðaði 1967. Hér tel ég alveg farið aftan að siðunum. Það er ekki forstjóri Innkaupastofnunarinnar, sem á að ákveða það, hvaða bifreiðastyrki starfsmenn þar hafa, hann og aðrir, rn. að samþykkja. Það á að fara hina leiðina. Rn. á að ákveða það eða sú n., sem fjallar um þessa bifreiðastyrkí, hvernig sem ákvarðanir um það koma út úr kerfinu. Innkaupastofnunin og aðrar ríkisstofnanir eiga að framkvæma það, sem fyrir þær er lagt í þessu.

Þó að ég hafi nefnt hér nokkur atriði, sem tekin eru upp úr ríkisreikningnum í sambandi við n. og bifreiðastyrki, þá eru vissulega miklu fleiri svipuð atriði, sem yfirskoðunarmenn hafa ekki gert aths. við, en ástæða væri til, að gerð væri nánari grein fyrir í ríkisreikningi. Ég tek alveg undir það, sem hér var sagt við 1. umr. — mig minnir að það væri hv. 5. landsk. þm., sem benti á það, — að æskilegt væri, að í þessum reikningi væru miklu nákvæmari upplýsingar en þar er að finna um slíkar greiðslur, greiðslur fyrir nefndarstörf, bifreiðastyrki, greiðslur fyrir aukavinnu og yfirvinnu og hvað það nú er, sem mönnum kann að detta í hug að óska upplýsinga um. Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri, ég vildi aðeins koma á framfæri nokkrum aths. um leið og við leggjum til, ég og hv. 3. þm. Vestf.. að frv. um samþykkt ríkisreikningsins verði samþ.