08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

250. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er flutt samkv. till. fjvn. Fjvn., sem nú fjallar um vegáætlunina, var sammála um að leggja það til, að tekjur Vegasjóðs væru auknar og þá helzt með því að hækka benzíngjaldið um 1 kr., þannig að það verði nú 5.67 kr. á lítra í staðinn fyrir 4.67 kr., eins og það hefur áður verið. Breytingar á vegal. samkv. þessu frv. eru í 5 liðum:

Samkv. 1. gr. frv. er upptalning á undanþáguákvæðum um landsbrautir í 5. mgr. 12. gr. vegal. felld niður, þ.e. kirkjustaður, félagsheimili, opinber skóli. heilsuhæli, fullgerð raforkuver, kauptún með færri en 300 íbúa eða tengivegur milli aðalleiða, en í staðinn kemur: veg að kauptúni.

Samkv. 2. gr. frv. kemur ný gr. á eftir 1. mgr. 19. gr. um sýsluvegi, sbr. niðurfellinguna í 1. gr.

Samkv. 3. gr. er gerð sú breyting á síðasta málsl. 2. mgr. 28. gr., að hinir mörgu smávegir, 393 talsins, sem nú færast úr flokki þjóðvega í flokk sýsluvega, hafa ekki bein áhrif á skiptingu ríkisframlags til sýsluvega að svo miklu leyti sem sú skipting miðast við lengd sýsluvegakerfis hverrar sýslu, en í 2. mgr. 28. gr. vegal. segir, að mótframlag ríkisins til hverrar sýslu skuli aldrei vera lægra en helmingur þess, sem viðkomandi sýsla lagði sjálf í sýslusjóð sinn það ár, sem ríkisframlagið miðast við. Á þessu verður engin breyting, en ekki heldur ætlazt til, að viðbót sú við sýsluvegakerfið, sem hér um ræðir, hafi áhrif á skiptingu mótframlagsins, en heildarupphæð mótframlagsins nemur tvöfaldri heildarupphæð innheimtra sýsluvegagjalda næsta ár á undan. Með því að færa þannig til á milli vegaflokka og auka þannig sýsluvegakerfið um rúmlega 200 km má segja. að það væri gert erfiðara fyrir að halda við sýsluvegunum, nema þá að um leið væri aukið framlag til þeirra. Þess vegna er það í ráði að auka nokkuð framlag til sýsluveganna á árunum 1970, 1971 og 1972, t.d. um í millj. kr. á veg. Og miðað við það, að þessir vegir, sem hér er um að ræða, eru flestir uppbyggðir og þurfa ekki mikið fjármagn næstu árin, má ætla, að með þessu fyrirkomulagi verði hlutur sýsluveganna ekki verri en áður hefur verið.

Samkv. 4. gr. frv. er lagt til, að benzíngjald hækki um í kr. fyrir hvern lítra. Gjaldið er nú, eins og áður var sagt, 4.67 kr. lítrinn, en í aths. er greint frá, hver tekjuaukning Vegasjóðs mundi verða af þessari hækkun á áætlunartímabilinu, og eins og kemur fram í aths. er gert ráð fyrir, að á árinu 1969, frá 1. júní, verði tekjuaukning af hækkun benzíngjaldsins 29.1 millj. kr., 1970 72.1 millj. kr.. 1971 76.8 millj. kr., 1972 82.6 millj. kr. eða á áætlunartímabilinu 260.6 millj. kr. Þessum tekjum verður að sjálfsögðu ráðstafað af Alþ. í sambandi við afgreiðslu vegáætlunarinnar fyrir árið 1969 og 1972, sem nú er til meðferðar hér í hv. Alþ.

5. gr. frv. Samkv. a-lið 88. gr. vegalaga eru skólabifreiðar nú undanþegnar þungaskatti dieselbifreiða. Þetta ákvæði hefur valdið ýmsum erfiðleikum í framkvæmd, og þar sem hér er raunverulega um hluta skólakostnaðar að ræða, er lagt til, að undanþáguákvæðið verði fellt niður. Það, sem hér hefur verið sagt, er það, sem um er að ræða í þessu frv., breytingar frá gildandi vegal. Meginefnið er að færa til sýsluvega nokkra stutta vegi, sem áður tilheyrðu landsbrautum. og að hækka benzíngjaldið. Nú má vera, að sumum finnist, að benzínið sé nógu dýrt hér á landi, þótt ekki væri horfið að því ráði að hækka það. En sannleikurinn er sá, að benzín á Íslandi er ekki dýrt miðað við það, sem það er selt í okkar nágrannalöndum. Og vil ég til fróðleiks nefna hér, hvaða benzínverð er í helztu nágrannalöndum okkar.

Eins og allir vita, er benzínverðið á Íslandi í 1 kr., en verður eftir hækkunina ekki undir 12.10 kr. En benzíngjaldið hækkar um í kr., og það verður þá ekki minna en 10 aurar, sem bætast við, þ.e. söluskattur og álagning á benzínið. 12.10 kr. á Íslandi, ef þetta frv. verður lögfest. Í Noregi er benzínverðið 14.90 – 15.40 kr., það er ekki sama verð í Noregi á benzíni um land allt eins og hér. Í Danmörku 14.65 kr., í Svíþjóð 15.15 – 15.50 kr., í Þýzkalandi 13.45 kr., í Hollandi 12.45 – 12.90 kr., í Skotlandi 12.90 – 13.25 kr., í Englandi 12.60 – 12.80 kr. Ég held, að það sé ekki eðlilegt, að benzínverð á Íslandi sé miklu lægra heldur en í nágrannalöndunum, þéttbýlu löndunum, þar sem vegirnir eru góðir, og ég held, að þegar Íslendingar athuga benzínverðið út af fyrir sig, verði það ekki það, sem menn átelja, heldur er það miklu frekar, að menn kvarta undan, að bifreiðarnar sjálfar eru dýrar og varahlutir til þeirra. En út í það skal ekki farið. Við eigum eftir að gera mikið í okkar vegamálum, og því er það, að um leið og við heimtum, að stórátök séu gerð til þess að bæta vegina, verðum við að leggja fram féð. Það dugar ekki að segja, að það eigi að taka lán og gera þessar framkvæmdir að miklu leyti fyrir lánsfé. Við verðum auðvitað að taka lán til þess að gera hraðbrautir, ef það á að flýta því, en það eru takmörk fyrir því, hversu langt má ganga í því efni. Verði þetta frv. lögfest, er þetta allmikil tekjuaukning, sem hér kemur til greina. Eins og ég áðan sagði, gerir þessi í kr. á áætlunartímabilinu um 260 millj. kr. En auk þess er gert ráð fyrir, að á árunum 1970–1972 taki ríkissjóður að sér að greiða vexti og afborganir af lánum, sem hvíla á þjóðbrautum og landsbrautum, á árinu 1970 21.5 millj. kr., 1971 22 millj. kr., 1972 23.3 millj. kr., eða á áætlunartímabilinu 66.8 millj. kr. Að vísu hafði verið gert ráð fyrir því áður heldur en þetta frv. var flutt, að ríkissjóður tæki að sér að greiða vexti og afborganir af Siglufjarðarvegi, sem nemur samtals á áætlunartímabilinu 27 millj. kr., en viðbót við það eru þá 39.8 millj. kr., og þegar við bætum því við tekjuaukningu vegna hækkunar á benzíni, hækka tekjur Vegasjóðs með þessum ráðstöfunum á öllu tímabilinu um 300.4 millj. kr. Auk þess tekur ríkissjóður að sér, eða ríkið, að greiða vegna hraðbrauta á árinu 1969 39 millj. kr. Á árinu 1970 er gert ráð fyrir að greiða á sama hátt til hraðbrauta 32 millj. kr., og verður þá greiðsla ríkissjóðs 1970 vegna hraðbrauta og þjóðbrauta og landsbrauta 53.5 millj. kr., þannig að vaxta- og afborganagreiðslur af lánum, sem hafa að miklu leyti hvílt á Vegasjóði, færast nú yfir af Vegasjóði, og léttir það vitanlega mikið fyrir. Á áætlunartímabilinu má því gera ráð fyrir, að greiðslur annars staðar frá heldur en úr Vegasjóði verði vegna hraðbrauta 189 millj. og vegna þjóðbrauta og landsbrauta 66.8 millj. eða samtals 255.8 millj. Heildartekjur samkv. vegáætlun 1965–1968 voru 1487.4 millj. kr., en verða samkv. þessari áætlun, ef þetta frv. verður samþ., sem við erum nú að ræða um, 2480.6 millj. kr. Hækkunin er því 67%, og þegar tekið er tillit til þess, hvað vegagerðarvísitala hefur hækkað síðan síðast var fjallað um vegáætlun, má sjá, að það er veruleg aukning á vegafé, sem gert er ráð fyrir samkv. þeirri áætlun, sem nú liggur fyrir Alþ.. og er það vel, því að alls staðar er kallað eftir auknum framkvæmdum, eftir meiri nýbyggingu vega, eftir meira vegaviðhaldi og eftir byggingu hraðbrauta út frá Reykjavík og þar sem umferðin er mest. Þetta kallar allt saman að. Þetta er allt saman nauðsynlegt að gera, en þetta krefst mikils fjármagns, og því er það, sem ætlað er að hækka benzínið að þessu sinni, og þegar benzínverð hér er borið saman við það, sem annars staðar gildir, þá er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að það sé gert.

Það er oft að því fundið, að vegirnir séu slæmir hér á landi, og stundum taka menn stórt til orða og segja, að vegirnir fari alltaf versnandi, þetta er vitanlega alls ekki satt. Vegirnir fara ekki versnandi. Vegirnir hafa í seinni tíð farið batnandi. Það var lengi svo, að á vorin, þegar klakinn var að fara úr, urðu aðalvegirnir ófærir, þeir duttu niður eins og það var kallað, þeir voru ófærir í viku. hálfan mánuð og jafnvel 3 vikur vor hvert. En sem betur fer er þetta liðin saga, og vegirnir eru hættir að detta niður einfaldlega vegna þess, að það hefur verið borið meira ofan í þá í seinni tíð heldur en áður og þeir eru orðnir sterkari heldur en þeir áður voru. En þótt þetta megi fullyrða, geta allir verið sammála um, að það þarf að gera meira, það þarf að bæta vegina meira, það þarf að auka fjármagn til þeirra, því að mikið er ógert í vegamálum hér á landi. Og hvernig ætti annað að vera' Við erum aðeins 200 þús. í þessu stóra landi, sem er yfir 100 þús. km2 , það eru aðeins 2 íbúar á hvern km2 á Íslandi, þar sem eru 100 íbúar í mörgum nágrannalandanna, þéttbýlu landanna. Það hlýtur þess vegna að verða dálítið þyngra á hverjum einstaklingi hér það, sem þarf að leggja til vegamála, heldur en þar sem þéttbýlið er og þar sem vegalengdir eru miklu minni.

Ég geri ráð fyrir því, að það verði engar deilur um þetta frv. út af fyrir sig. Það standa að því allir flokkar hér á Alþ., það eru allir sammála um að afla Vegasjóði aukinna tekna, og þá með þessum hætti. Hitt má svo vera, að þegar farið verður að ræða vegáætlunina hér eftir fáa daga, lyfti menn sér upp og finni einhverja tilbreytingu í því að jagast um hana og segi, að framkvæmdin í vegamálunum í seinni tíð hefði nú mátt fara betur úr hendi. Og þótt svo kunni að verða, þá kann það að teljast eðlilegt miðað við málsmeðferð eins og oft er hér á Alþ.