08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

250. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér ástand í vegamálum, þó að það væri full ástæða til þess, m.a. vegna þess að í ræðu sem hæstv. ráðh. flutti, kom ýmislegt fram, sem virðist benda til þess, að hann, æðsti yfirmaður þessara mála, sé haldinn hættulegum misskilningi um ástand veganna. T.d. eins og það, sem kom fram hjá honum, að vegirnir væru hættir að detta niður á vorin, það vandamál væri leyst. Mér þótti leiðinlegt að heyra þetta hjá hæstv. ráðh., því að þetta á sér enga stoð í veruleikanum. Stórir landshlutar eiga einmitt við það að búa, að vegirnir detta niður á vorin og verða nálega ófærir, þegar mest á ríður, og þannig mætti lengi telja, hversu hörmulega ástatt er í vegamálum. Ég mun samt ekki þreyta kappræður við hæstv. ráðh. um þetta, en ég hlýt að taka þetta fram út af því, sem hann sagði. Ég mun ekki ræða mjög um framkvæmd vegamála á undanförnum árum, en minna þó á, að ástandið í þeim málum eins og það er nú stafar að okkar dómi í Framsfl. fyrst og fremst af því, að tekjurnar af umferðinni hafa ekki verið látnar renna til veganna eins og tíðkaðist áður. Ef það hefði verið gert, þá hefði mátt gera stór átök í vegamálum á undanförnum árum. En því hefur ekki verið að heilsa. M.a.s. verður að segja þá sorgarsögu eins og hún gekk, að þegar vegalöggjöfin var samþ., var samið um, að ríkið skyldi leggja til veganna 471/2 millj. á ári hverju af fjárlagafé, en við það loforð hefur ekki verið staðið af hæstv, vegamálarh., og mundi það þó hafa munað nokkru, ef staðið hefði verið við þá samninga, sem þá voru gerðir.

Það er skoðun okkar í Framsfl., að það væri hægt að gera mikið meiri átök en gert er ráð fyrir í vegáætluninni án þess að hækka benzínskattinn og þá með því, að ríkissjóður leggi til veganna verulegan hluta af því, sem hann nú hirðir af umferðinni. Ef þetta væri gert í samræmi við þá stefnu, sem Framsfl. hefur fylgt og fylgir, væri hægt að leysa þetta mál sómasamlega án þess að leggja á nýjan benzínskatt, og þó einkum ef þessu fylgdi, að ríkissjóður tæki að sér að greiða af vegalánum, sem tekin hafa verið á undanförnum árum, eins og réttmætt er, að hann geri, svo sem búið hefur verið að þessum málaflokki. Það hefur að vísu áunnizt nú, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir þeirri stefnu, að ríkissjóður skuli taka á sig að greiða af þeim lánum, sem tekin hafa verið til hraðbrauta, að mestu, og má segja, að það sé ávinningur og árangur af baráttu framsóknarmanna. að þetta skref hefur verið stigið. En það þarf að ganga lengra, það þarf að ganga það langt, að ríkissjóður taki að sér greiðslurnar af öllum vegalánum. Ef sú stefna kæmist í framkvæmd, sem við höfum barizt fyrir, sem sé sú, að Vegasjóður fengi tekjurnar af umferðinni og að lánin væru tekin yfir á ríkissjóð, væri hægt að gera miklu meiri átök í vegamálum en hugsanlegt er með þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið.

Nú stöndum við frammi fyrir því, að vegáætlunin, sem fram hefur verið lögð af hæstv. ríkisstj., gerir ráð fyrir að fella niður nálega allar nýlagningar vega, annarra en hraðbrauta, í næstu 4 ár. Frammi fyrir þessari geigvænlegu staðreynd standa hv. alþm. og hafa staðið undanfarnar vikur. Við í Framsfl. höfum gert miklar árangurslausar tilraunir til þess að fá hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka til þess að fallast á að leysa þennan vanda með því að láta meira af tekjum af umferðinni renna inn í Vegasjóðinn og komast þannig hjá því að leggja á nýjar álögur, en fá sæmilegar vegaframkvæmdir. En auðvitað er það geigvænlegast og voðalegast af öllu, ef það ætti að verða hlutskipti þessa Alþ. að afgreiða vegáætlunina eins og hæstv. ríkisstj. lagði hana fram, sem í reyndinni er í raun og veru ráðagerðir um að stöðva allar nýjar vegaframkvæmdir nema hraðbrautir. Nú þegar menn hafa staðið frammi fyrir þessu og ekki hefur verið hægt að fá meiri peninga til vegagerðarinnar og því um það tvennt að ræða að leggja einnar krónu nýjan skatt á benzínið eða að leggja niður nálega allar vegagerðir nema þjóðbrautir og landsbrautir í næstu fjögur ár, þá hef ég fyrir mitt leyti og mjög margir af mínum flokksbræðrum valið þann kost að lýsa því yfir og semja um að styðja þá hækkun á benzínskattinum, sem hér er ráðgerð í frv. Þess vegna lýsi ég hér með yfir, að ég styð hana ásamt æðimörgum öðrum framsóknarmönnum. Og það er gert með þeim rökstuðningi, sem ég nú þegar hef flutt. Við viljum frekar styðja þetta álag á benzínið og fá það, sem inn kemur, til nýlagningar landsbrauta og þjóðbrauta en horfa upp á það, að vegáætlunin verði afgreidd á eitthvað svipaðan hátt og hún hefur komið frá hæstv. ríkisstj.

Þess vegna munum við styðja þessar álögur, þó með því skilyrði, að það náist samkomulag um réttmæta og skynsamlega skiptingu á þessu vegafé og að ríkissjóður taki á sig þær lánagreiðslur, sem nú eru í vegáætluninni. Fáist þetta fram, sem við teljum, að muni verða, eins og nú er komið samningum, þá munum við, ég og þeir, sem hugsa svipað og ég í þessu máli, eindregið styðja þessa skattaálagningu, þó að okkur þyki það sárt að þurfa að hækka benzínið á þann hátt, sem hér er ráðgert. En þann kostinn viljum við þó heldur en hinn.