08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

250. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég varaði hæstv. ráðh. við því að líta til baka. Það var vegna þess, að ég taldi það hættulegt, því hann mundi hrasa, ef hann sneri andlitinu aftur, eins og ég tók fram. Þetta var nú sumpart af umhyggju fyrir honum og þeim störfum, sem honum er trúað fyrir. En það er líka að öðru leyti hættulegt fyrir hæstv. ráðh. að horfa til baka, eins og nú kemur fram af því, sem ég mun segja, þó að mér væri það nú ekki í huga áðan, þegar ég varaði hann við þessu. En þá kemur sú aðvörun í viðbót núna. Ég held nefnilega, að það sé hættulegt fyrir núv. ríkisstj. að horfa til baka af fleiri ástæðum en ég taldi. Við skulum taka, hvernig ástatt var í landinu 1958, þegar ég lét af stjórn fjármála og ég og mínir félagar fórum úr ríkisstj., og hvernig ástatt er núna. Þá var varið miklu meira af ríkistekjum til verklegra framkvæmda en nú er gert. Þá gekk verulegur hluti fjárlagaútgjaldanna til verklegra framkvæmda. En hvernig er það núna? Það er nálega búið að þurrka verklegar framkvæmdir út af fjárl. ríkisins, þó að þau séu komin á 7. milljarð. Þá var atvinnuleysi óþekkt í landinu. En nú búum við við mikið atvinnuleysi um hábjargræðistímann. Ég hygg, að við, sem þá stjórnuðum, megum líka vera algerlega óhræddir við að bera saman afkomu íslenzkra atvinnuvega þá og nú. Þá var kaupmáttur tímakaupsins meiri en hann er nú eftir þau 10 góðu ár, sem þessir hæstv. ráðh. hafa lafað í ráðherrastólunum. Þeir hafa gengið aftur á bak í flestum þessum höfuðefnum og það svo, að öllum góðum mönnum blöskrar nú, þegar síldaruppgripin leyna ekki lengur því, hvernig þeir hafa leikið íslenzkan þjóðarbúskap og íslenzkt atvinnulíf. Nú koma þessar nöktu staðreyndir í ljós, sem engir ættu að hafa ríkari ástæðu til að rifja upp en ég og mínir félagar. Ég ráðlagði hæstv. ráðh. að hann skyldi ekki snúa andlitinu aftur, en það var ekki af því, að við óttumst það, sem ráðh. kann þá að sjá, því fer alls fjarri.

Skuldabyrðin við útlönd er nú orðin stórkostlega miklu hærri en hún var þá og það eftir þessi mestu góðæri, sem þjóðin hafði lifað, en þá höfðum við haft hvert síldarleysisárið eftir annað. Samt sem áður stóðu íslenzkir atvinnuvegir og hagur íslenzkrar alþýðu að því er varðaði atvinnu og kaupgjald á þá lund, sem ég gerði grein fyrir. Þannig mætti halda lengi áfram, ef ég hefði annað hér til umráða en stutta aths., og má víst áreiðanlega heita hæstv. ráðh. því, að hann mun heyra nánar af þessu á næstunni, en ætti ekki að vera að panta slíkt. Hann mun áreiðanlega heyra nóg af þessum samanburði á næstunni. Sannast að segja undrast öll þjóðin sameiginlega, líka fyrrv. stuðningsmenn þessarar hæstv. ríkisstj., hvernig henni hefur búnazt við þau skilyrði, sem hún hefur haft. Enda er það fullkomið undrunarefni, og það er sjálfsagt margra skýringa að leita, m.a. þeirrar, að sumir eru þannig gerðir, að þeir geta engu stjórnað.