08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

250. mál, vegalög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og eingöngu um vegi. Það eru einkum tvö atriði, sem ég vil vekja athygli á og láta koma skýrar í ljós heldur en þegar er orðið.

Hæstv. ráðh. sagði, þegar hann mælti fyrir frv., að nú væri það ástand úr sögunni, að vegirnir dyttu niður á vorin. Þessu vil ég mótmæla alveg eindregið, þessum ummælum. Því miður er þetta ekki svona. Og ég skal nefna dæmi. Í fyrra skarst fjölfarnasti vegur á Austfjörðum, vegurinn yfir Hólmaháls, algerlega í sundur og varð ófær nema smeygja sér hann á jeppum. Stóð svo það tímabil, sem Austfirðingar kalla drullutímabilið. Slíkt hið sama var um hluta Fagradalsbrautar. Núna eru mjög strangar þungatakmarkanir á Oddsskarðsvegi. Og ég man ekki, hvort það var í fyrra eða hitteðfyrra — það breytir engu, því vegurinn hefur síður en svo lagazt — sem ég sat með vegagerðarstarfsmanni fastur á leið undan brekkunni í háhjóluðum bíl með drifi á öllum hjólum. Og svona er hægt að halda áfram endalaust. Það er ómögulegt að hlusta á það hér, að sjálfur hæstv. ráðh. segi, að það sé liðin tíð, að aðalvegirnir detti niður á vorin, án þess að láta hið sanna koma fram.

Þá vil ég láta það koma alveg skýrt fram í þessum umr. og staðfesta þar með ákveðnum dæmum, hvers konar endemisplagg það er, sem lagt hefur verið fyrir alþm., þar sem er skiptingin á vegafénu í þjóðbrautir og landsbrautir. Og þau dæmi skulu verða tekin úr framlögum til þjóðbrauta í Austurlandskjördæmi. Árið 1969 eru tillögurnar þessar:

Í veginn um Hróarstungu 890 þús. og bundið við það, að þar sé byggð ný brú, og í Suðurfjarðaveg 900 þús. hjá Vattarnesi til þess að ljúka því, sem verið var að gera í fyrra. En á árinu 1968 voru á þessu svæði: Þjóðbrautir, 800 þús. í Möðrudal, 420 þús. í Breiðdalsheiði, 630 þús. í Breiðdal, 1.450 þús. í Lónsheiði, 500 þús. í Geithellnahrepp, 300 þús. á Hellisheiði, 500 þús. á Suðurfjarðaveg og 400 þús. á veginn í Stöðvarfirði. En núna aðeins þessar tvær tölur, sem ég nefndi áðan. Þetta vil ég leyfa mér að taka sem dæmi um það, hvers konar endemisplagg það er, sem afhent hefur verið þm. á vegum ríkisstj. og starfsmanna hennar, þessi skipting fjárins í þjóðbrautir og landsbrautir. Þetta er því miður ekkert einsdæmi, heldur er þetta svona víðar, eða öllu heldur viðast hvar. Og það má þá einnig, úr því að ég kvaddi mér hljóðs, koma hér fram, að ég styð það eindregið, að tekið verði einnar krónu gjald af benzínlítra og varið til þjóðbrauta og landsbrauta. Og það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að mér er það ekki mögulegt að koma heim með það plagg í vasa um skiptingu vegafjármuna. sem hér hefur verið afhent fyrir hönd hæstv. ráðh. Þess vegna tel ég mér skylt að styðja hækkun benzínskatts til vega, enda verði hækkuninni varið á þann hátt, sem um hefur verið samið.