17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í grg. þessa frv. segir svo, og þess var líka getið af hæstv. forsrh. í framsögu, að Alþ. hefði hinn 30. maí 1958, eða fyrir 10 árum, samþ. þál. um að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á löggjöf um Stjórnarráð Íslands og leggja fyrir Alþ. lagafrv. um þetta efni „svo fljótt sem verða má.“ Nú eru sem sé liðin 10 ár síðan þessi þál. var samþ., og kunna menn nú að efast um, að afgreiðsla málsins hafi verið látin fara fram „svo fljótt sem verða má.“ En hæstv. forsrh. gat þess nú, að á sínum tíma hefði verið samið frv. um þetta efni, allmikill lagabálkur sagði hann, sem að vísu hefði haft þann ókost að hans dómi, að í því frv. hefði verið lítið annað en staðfesting þeirra venja, sem stofnað hefði verið til með forsetaúrskurðum og á annan hátt. Honum virtist, að vegna þess að lítið annað væri í frv., hefði ekki tekið því að leggja það fyrir Alþ. Framhaldsafgreiðsla þess máls hefur svo orðið sú, að ríkisstj. hefur látið semja frv. það, sem hér liggur fyrir og fjallar um nokkur nýmæli á þessu sviði.

Ég get tekið undir það, sem þm. munu nú yfirleitt hafa verið sammála um fyrir 10 árum, að ástæða sé til þess að setja lög um Stjórnarráð Íslands, og það er ekki nema gott um það að segja, að það skuli hafa verið lögð vinna í það að fá hugmyndir manna um það, hvað í slíku frv. ætti að felast af nýmælum og hvað upp ætti að taka af því, sem í gildi hefur verið um þetta. Og ýmislegt af þessu, sem til er lagt, sýnist mér vera athyglisvert og mjög til umhugsunar. Hins vegar er það nú svo, að við erum víst flest sammála um það, að nú séu erfiðir tímar í landi og eitt af því, sem alþm. þurfi að taka sér fyrir hendur á nýbyrjuðu þingi, sé að athuga leiðir til sparnaðar á ríkisfé. Þess vegna sýnist mér, að enda þótt mörg af þeim atriðum, sem í þessu frv. felast, séu fullrar athugunar verð, orki það mjög tvímælis, að það sé tímabært nú eins og á stendur að ákveða ýmislegt af því, sem í frv. er gert ráð fyrir, eins og það að bæta inn í Stjórnarráðið að mér virðist 11 nýjum embættum ríkislaunuðum, miðað við þá ráðherratölu, sem nú er. Það er að vísu rétt, sem hæstv. forsrh. segir, að í frv. er gert ráð fyrir því, að þó að rn. séu svo mörg, sem þar segir, þurfi ekki að vera svo margir ráðuneytisstjórar. Hann nefndi ráðuneytisstjórana sérstaklega af eðlilegum ástæðum. En það er nú alltaf svo og hefur reynzt svo í okkar löggjöf, að þegar komnar eru inn í löggjöfina heimildir um að stofna til embætta, eru þær heimildir venjulega fljótlega notaðar. Og þegar ráðh. væru búnir að fá heimildir til þess að bæta við 4 ráðuneytisstjórum, er nú hætt við því, að ýmsir reyndu að hafa áhrif á þá í þá átt, er tímar liðu, að þessar heimildir væru notaðar og teldu sig geta fært fyrir því glögg rök um vinnuhagræðingu og annað þvílíkt. Það er gert ráð fyrir því í 15. gr., að sérhver ráðh. hafi heimild til að kveðja sér til aðstoðar sérstakan mann, svona eins konar aðstoðarmann eða aðstoðarráðh., sem gegni störfum meðan sá ráðh. situr á sínum stól, en hætti síðan og víki fyrir öðrum, þegar önnur stjórn verði mynduð, sem út af fyrir sig er eðlilegt samkv. þeirri hugsun, sem í þessu felst. Nú eru ráðh. 7, og þá gæti hér verið um að ræða 7 nýja starfsmenn, að mér skilst, ef þessar heimildir væru notaðar. En auk þess, sem fjallað er hér um fjölgun rn. og um nýja aðstoðarmenn ráðh., þá ætla ég, að í 12. gr. frv. sé heimild til að skipa deildarstjóra rn. skrifstofustjóra þess rn. — þetta orð, deildarstjóra rn. skil ég svo, að þar sé átt við einhvern deildarstjóra í rn. En það er gert ráð fyrir, að þessir deildarstjórar verði áfram eins og nú, þótt ekki sé sérstaklega kveðið á um sérdeildir nema í fjmrn. Þá er í raun og veru það, sem gerzt hefur, ef þetta yrði lögfest, það, að fyrst hafa skrifstofustjórarnir, sem áður voru nefndir, verið gerðir að ráðuneytisstjórum, sem álitið var, að væri nú eiginlega bara breyting á nafni embættis, og svo eru þá komnir skrifstofustjórar að auki, sem að vísu má gera ráð fyrir, að væru jafnframt deildarstjórar, þótt það sé nú ekki beinlínis sagt, en það er orðað svona, að heimilt sé að skipa deildarstjóra rn. skrifstofustjóra þess rn. o.s.frv. A.m.k. skilst mér, að um muni þá verða að ræða einhverja breytingu á launakjörum, ef deildarstjóri er gerður að skrifstofustjóra.

Ég er að benda á þetta, að þarna er hætt við, að hlyti nú að verða um töluverða hækkun á útgjöldum til Stjórnarráðsins að ræða, og þess vegna segi ég það, að þó að það sé ágætt, að nú skuli hafa verið framkvæmd ályktun Alþ. fyrir 10 árum um að leggja fram frv. um þetta efni, þá muni það mega teljast vafasamt, að þáð sé eðlilegt að afgreiða slíkt frv. nú eins og ástandið er í fjármálunum.

Eigi að síður getur það verið fróðlegt að velta fyrir sér þessu máli og full ástæða til þess, á ýmsan hátt, og kemur mér í hug í því sambandi t.d. 1. gr. frv. En í 1. gr. segir svo, að „forseti lýðveldisins skipar ráðh., ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“ Það er þetta, um að forseti ákveði tölu ráðh. hverju sinni, sem ég vildi minnast á.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að tala rn. verði ákveðin. Mér kemur þá til hugar að skjóta fram þeirri spurningu, að ef svo færi, að samþ. yrði einhvern tíma fyrr eða síðar það nýmæli, sem felst í 15. gr., um að ráðh. sé heimilt að kveðja sér menn til aðstoðar, hvort það gæti þá ekki orðið til þess, ef einhvern tíma yrði framkvæmt, að mönnum þætti fært að fækka ráðh. eitthvað frá því, sem nú er. Ég man þá tíð, að hér var í landi 1 ráðh. Þá var Ísland að vísu ekki fullvalda ríki, en lengi eftir að Ísland varð fullvalda ríki voru ráðh. aðeins 3, og síðar, í kringum 1940, urðu þeir 5. Nokkru síðar voru skipaðir 6 ráðh., og nú undanfarin ár hafa ráðh. verið fleiri en nokkru sinni fyrr eða 7, og hefur ýmsum þótt nóg um. En þetta hefur m.a. farið svo af pólitískum ástæðum skilst mér, vegna þess að flokkar hafa unnið saman og sú stefna hefur nú verið nokkuð mikið uppi að miða alltaf fleira og fleira við flokkana eins og að þeir séu það, sem höfuðmáli skipti hér í Alþ. og í stjórn landsins. En látum það svo vera. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um flokka, þótt margt mætti um þá ræða og margt sé um þá rætt með misjafnlega sterkum rökum, eins og gengur. En þetta nýmæli, sem hér er í 15. gr. l., er um það, að ráðh. geti tekið með sér inn í Stjórnarráðið hverju sinni eins konar aðstoðarráðh. Aðstoðarráðh. eru svo sem ekkert nýtt í veröldinni. Þeir eru víða um lönd, þótt þeir hafi ekki verið hér. En ef ráðh. getur tekið með sér inn í Stjórnarráðið aðstoðarmann eða eins konar aðstoðarráðh., þá finnst mér, að það ætti einnig að vera til athugunar hér á þingi, hvort ekki mætti samhliða, þegar til kæmi, ákveða fasta tölu ráðh. og fækka ráðh. frá því, sem nú hefur verið um sinn.

Um þetta mál skal ég svo ekki hafa fleiri orð að þessu sinni. Eins og ég sagði, virðist mér hér vera um mjög athyglisvert mál að ræða og vil alls ekki andmæla því, að sumt, sem í frv. felst, geti átt rétt á sér, enda væri það undarlegt, ef svo væri ekki, því að eflaust hafa margir hæfir og vitrir menn um þetta fjallað, en ég geri ráð fyrir því, að þegar til kemur, muni mönnum finnast, að máli af þessu tagi, sem búið er nú að fresta í 10 ár, hljóti að verða frestað 11. árið til nánari athugunar.