17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frv. þetta, en í tilefni af því langar mig til að beina fsp. til hæstv. forsrh., ef hann vill afsaka, að ég geri það munnlega og fyrirvaralaust. Fsp. er, hvort hann geti sagt okkur nokkuð um, hvað líði undirbúningi undir byggingu nýs stjórnarráðshúss. Það er kunnugt, að mjög mikið hefur verið unnið að þessu máli undanfarin ár, en mér hefur skilizt, að málið hafi verið látið ganga hægar en það hefði getað gengið, m.a. vegna þeirrar þenslu, sem verið hefur á vinnumarkaði undanfarin ár. Ég spyr ekki aðeins af umhyggju fyrir vinnuaðstöðu Stjórnarráðsins, heldur til viðbótar af því, að útlit er þannig á vinnumarkaði í byggingariðnaði, að það mundi vafalaust geta komið sér vel á næstunni, ef slík verkefni sem þetta væru sett í framkvæmd. Ýmsir hafa hugsað sér einn lið af afskiptum ríkisvaldsins þann, að það gæti aukið ýmis verkefni sín, þegar vinnumarkaðurinn þarf á því að halda,.alveg eins og ríkið hefur ávallt reynt að taka tillit til þenslu, þegar um hana hefur verið að ræða.