24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og gaf starfsmannafélagi Stjórnarráðsins kost á því að gera aths. við það og fékk frá félaginu nokkrar ábendingar um breytingu á því. Þær ábendingar, sem fram komu, sá allshn. ekki ástæðu til að nota að öðru leyti en því, sem felst í brtt. n., sem prentuð er hér á þskj. 374 við 4. gr. frv. En þar leggur n. til að breyta heiti á 5 rn. þannig, að niður falli „mála“, „iðnaðarmálarn. verði iðnaðarrn.“ og sama breyting er er lagt til, að gerð verði á menntamálarn. í menntarn., samgöngurn., sjávarútvegsrn. og viðskiptam. Nm. þykir fara betur á því að hafa þetta heiti á þessum rn., enda fullt samræmi í því hvað snertir atvinnuráðuneytin, því að landbúnaðarrn. ber það nafn, og teljum við í allshn. rétt, að það sama gildi um sjávarútvegsrn. og sömuleiðis um iðnaðarrn.

Þá leggjum við einnig til, að 1. málsl. 11. gr. orðist þannig:

„Ráðuneytisstjórar og hagstofustjóri stýra ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra,“ en sú breyting er gerð hér á, að við er bætt „og hagstofustjóri“ vegna þess, að Hagstofa Íslands er sjálfstætt rn., en hagstofustjórinn heldur þeim titli, en kallast ekki ráðuneytisstjóri, og þá hlýtur það að leiða af sjálfu sér, að slík breyting er eðlileg. Með þessu frv. eru lögfest rn., hversu mörg þau skuli vera og ekki megi setja á stofn ný rn. nema með lögum. Atvmrn. er lagt niður, en í stað þess koma þrjú m. fyrir hvern hinna þriggja höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, sjávarútveg, iðnað og landbúnað. Heilbrigðismál, sem nú tilheyra dóms- og kirkjumálarn., og tryggingamál, sem nú eru undir félmrn., verði sameinuð í eitt rn., sem ber heitið heilbrigðis- og tryggingamálarn. Skv. 11. gr. frv. er forsrh. heimilt að kveða á um, að ráðuneytisstjóri skuli veita fleiri en einu rn. forstöðu og fleiri en eitt rn. hafi eftir því, sem við verður komið, sameiginlegt starfslið og sameiginlegt húsnæði.

Annað atriði í þessu frv., sem er nýmæli, er, að með þessu frv. á ekki að skipta rn. upp á milli ráðh. eins og svo oft hefur tíðkazt við myndun ríkisstj., þegar tveir eða fleiri flokkar semja um myndun ríkisstj. Þá hefur það sýnt sig, að rn. hefur verið skipt upp á milli ráðh. þannig í nokkrum tilfellum, að sami ráðuneytisstjóri heyrir undir allt að þrjá ráðh.

Þriðja atriðið er, að ráðh. hefur heimild til að velja sér til aðstoðar mann utan rn. meðan hann gegnir ráðherraembætti. Í 15. gr. segir: „Ráðh. er heimilt að kveðja sér til aðstoðar meðan hann gegnir embætti mann utan rn., sem starfi þar sem deildarstjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðh., en njóti þá hálfra launa 3 mánuði.“

Við teljum í allshn., að öll þessi atriði séu mjög til bóta. Það er mjög eðlilegt, að ráðh. geti valið sér starfsmann, sem starfi þar í rn. meðan viðkomandi ráðh. er, og það má segja, að þessum atriðum öllum hafi verið mjög vel tekið af öllum þeim þm., sem ræddu þetta frv. við 1. umr. þess hér á s.l. hausti. Þá segir, að samkv. 2. mgr. 2. gr. skuli öll málefni, sem bera á upp fyrir forseta Íslands til staðfestingar, tekin til meðferðar á ráðherrafundi. En það hefur tíðkazt, að ráðh. leggi fyrir forseta ýmis mál án þess að ráðherrafundur hafi áður um þau fjallað. Það atriði teljum við einnig vera mjög til bóta, að öll málefni séu fyrst rædd á ráðherrafundum. Það kom greinilega fram við 1. umr. um þetta frv., bæði hjá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að með samþykkt þessa frv. sé verið að leggja framtíðarstefnu varðandi Stjórnarráð Íslands um fjölgun rn., en hitt liggur ljóst fyrir, að það er ekki ætlunin að gera stórfellda útþenslu á Stjórnarráðinu, eins og nú standa sakir. Við í allshn. teljum, að það hafi verið full þörf á því að setja lög um Stjórnarráð Íslands og mælum með samþykkt frv. með þeim breytingum, sem ég hef áður rakið.