15.04.1969
Efri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Löggjöf um Stjórnarráð Íslands er mjög í molum. Að nokkru leyti eru enn í gildi ákvæði frá því heimastjórn var tekin upp hér í landi, þ.e.a.s. lög um skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands frá 3. okt. 1903, svo og ýmsar viðbótarákvarðanir, ýmist í formi I. eða annarra reglna, og að nokkru leyti venjur, sem skapazt hafa. Þegar af þeirri ástæðu er æskilegt, að heildarlöggjöf sé sett um þetta efni. Til viðbótar kemur, að þær reglur, sem nú eru í gildi, eru að ýmsu leyti ósamkvæmar sjálfum sér, ófullnægjandi, og um margt hefur verið farið formlaust að, samanber að það hefur verið undir hendingu komið, hvort haldin hafi verið regluleg gerðabók um það, sem gerzt hefur á ráðherrafundum. Það hefur verið tilviljun háð, hvort ný rn. hafa verið sett með sérstöku lagaboði eða með einfaldri ákvörðun ráðh. Þá hefur sá háttur verið tekinn upp, að störfum í einstökum rn. hefur verið skipt á milli ráðh. mjög af handahófi og eftir því sem atvik hafa staðið til hverju sinni, þannig að sama rn. hefur í mörgum tilfellum heyrt undir fleiri en einn, stundum fleiri en tvo, og fleiri en þrjá ráðh., og gerir slíkt allt eftirlit með störfum í Stjórnarráðinu ákaflega erfitt. Fyrir nokkrum árum var samkv. þál. skipuð sérstök n. til þess að semja frv. um stjórnarráð, en að athuguðu máli þótti ekki veruleg breyt. til bóta í því frv. Það var að mestu leyti staðfesting á því ástandi, sem skapazt hafði, að viðbættum ítarlegum reglum um skiptingu málefna milli einstakra rn. Málið lagðist því til hliðar, en á s.l. ári var það tekið upp aftur, og er ávöxtur þeirrar nýju athugunar þetta frv., sem nú hefur verið samþ. í hv. Nd., að efni til óbreytt að mestu frá því, sem það var þar lagt fram.

Meginbreyting frv. er sú, að ákveða skal með l., hversu mörg rn. eigi að vera, og þeim er verulega fjölgað frá því, sem verið hefur, og á þó sú fjölgun í framkvæmd að koma til smám saman, þannig að ekki þarf að óttast aukinn kostnað af þessari lagasetningu svo að nokkru nemi fyrst um sinn. Ástæða þótti til þess að fjölga rn., bæði vegna þess að hollara þykir að greina í sundur helztu málaflokka og eins vegna þess að með allmörgum rn. er hægt að sveigja nokkuð til og þá ætlazt til þess, að hver ráðh. hafi undir sér fleiri en eitt rn., ef svo vill verkast, og þannig er unnt að koma að þeirri sveigju, sem smám saman hefur skapazt við það, að málefnum einstakra m. er skipt upp á milli ráðh. Framkvæmd, sem ég af minni reynslu tel ákaflega óheppilega. Það er að vísu rétt, að þessi rn. verða í upphafi ekki mannmörg, en svo er með allt okkar stjórnarkerfi, að æskilegt væri að hafa þar fleiri menn til starfa, en það eiga að verða jafnmargir menn eins og áður til þess að sinna þeim verkefnum, sem hverju sinni eru fyrir hendi. Hins vegar er ætlazt til þess, að forsetinn samkvæmt till. forsrh. mæli fyrir um það, hvaða málefni heyri undir hvert einstakt rn., og þar er einnig hægt að gera á nokkra breytingu, en þó má ekki flytja mál á milli rn., ef ljóst er eðli málsins samkvæmt, að málefnið heyrir undir það rn., sem ætlunin var að taka það frá, en ekki undir hitt, sem leggja á það undir. Við skulum segja, að það væri óheimilt að taka Háskóla Íslands undan menntarn., sem ætlazt er til, að svo heiti, og leggja undir heilbr.- og tryggingamálarn. og taka samgöngur á sjó og leggja undir sjútvrn. Það er einungis í takmarkatilfellum, sem ætlazt er til, að heimilt sé að breyta þessari skiptingu með reglugerð. Aftur á móti þótti ekki heppilegt að kveða á í einstökum atriðum, hvaða málefni heyrði undir hvert rn. fyrir sig, vegna þess að slíkt hlýtur ætíð að vera töluvert áhorfsmál um einstök atriði og þá of umsvifamikið að hafa lagabreytingu til þess.

Aðalbreytingin, sem felst í frv. frá því, sem verið hefur, er, að nú er ætlazt til, að hvert rn. fyrir sig heyri undir stjórn eins ráðh. og hann beri því ábyrgð á öllum rekstri þess rn. og þeirra málaflokka, sem undir það heyra. Menn geta haft um það skiptar skoðanir og hafa, hvort þetta sé æskilegt fyrirkomulag eða ekki, hvort hinn sé betri hátturinn, sem nú sé á. Ég efast ekki um, að það auðveldar mjög alla stjórn að taka upp þann hátt, sem í frv. greinir. Minni háttar breyting er e.t.v. helzt sú, að heimilað er ráðh. að taka sérstakan mann, er hafi stöðu deildarstjóra, með sér í rn. og hann dvelji þar svo lengi sem ráðh. er. Það hefur oft komið í ljós, og án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokkur hefur átt í hlut, að ráðh. hefur talið nauðsynlegt að kveðja sér til aðstoðar sérstaka trúnaðarmenn, gert þá þá að föstum embættismönnum. Hitt er betra, að það sé viðurkennt, að eðlilegt sé, að ráðh. hafi slíkan trúnaðarmann og hann sé þá ekki í starfi lengur heldur en sá ráðh., er hann velur. Svipað er tíðkað annars staðar í miklu meira mæli en yrði hjá okkur. Varðandi dagleg störf efast ég ekki um, að þetta komi að verulegu gagni. Minna atriði, sem einnig hefur þó verið gagnrýnt, er það, að nú er boðið bæði, að öll mál, sem á að bera upp í ríkisráði, séu fyrst lögð fram á ráðherrafundi, og enn fremur, að haldin skuli gerðabók um helztu ákvarðanir eða um ákvarðanir, sem teknar eru á ráðherrafundum. Um það síðara eru raunar allir sammála, hitt hefur verið bent á, að ástæðulaust væri, að öll mál, sem tekin væru upp í ríkisráði, væru fyrst rædd á ráðherrafundi. Sú aðfinning hvílir á gersamlegum misskilningi vegna þess, að það hefur reynzt illa, að ráðh. beri upp fyrir forseta málefni, sem félagar hans hafa ekki hugmynd um. Þeir verða að koma sér saman um málefni utan ríkisráðsfunda. Það tilheyrir ekki að taka upp deilur á ríkisráðsfundi að forseta viðstöddum, nema því aðeins um raunveruleg deilumál sé að ræða þess efnis, að ráðherrar geti ekki komið sér saman. Þetta á jafnt við um minni háttar málefni og stór málefni og er því sjálfsagt fyrirkomulagsatriði. Í frv. eru svo nokkur önnur nýmæli, sem enn þá minni þýðingu hafa, þetta eru aðalatriði, og skal ég ekki fjölyrða um málið frekar. Ráðuneytisstjórar hafa látið uppi ýmsar aðfinningar gegn frv. Hv. allshn. Nd. athugaði þær aðfinningar, svo og nokkrar ábendingar frá starfsmönnum Stjórnarráðsins, en þær leiddu ekki til þess, að menn teldu ástæðu til þess að breyta frv. að nokkru í efnisatriðum, og ég mundi leggja til, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, líti á þessar athugasemdir, og athugi að hve miklu leyti talið kynni að vera, að rétt væri að taka frekara tillit til þeirra, sem ég raunar sjálfur tel misráðið, en eðlilegt er, að athugað sé til hlítar.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.