12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Hv. frsm. allshn. hefur tekið af mér ómakið um flest af því, sem ég þurfti að segja um frv. almennt. Það kom fram í plöggum málsins. sem okkur bárust eftir meðferð þess í Nd., að verulegur skoðanamunur er milli 11 ráðuneytisstjóra annars vegar og hæstv. ríkisstj. og að því er virðist allrar Nd. hins vegar um afstöðuna til almenns fyrirkomulags rn. í Stjórnarráðinu. Ráðuneytisstjórarnir óska að hafa rn. sem stærst og fæst, en hæstv. ríkisstj. og hv. Nd. hafa tekið hina afstöðuna, að hentast sé að hafa rn. allmörg. Ég vil taka það fram, að þessari meginstefnu er ég gersamlega fylgjandi og þar með merkasta atriði frv., sem felst í 5. gr., að þegar skipt er störfum með ráðh., skuli hvert rn. óskipt lagt til eins og sama ráðh. Væri það óframkvæmanlegt með mjög stórum rn. og sérstaklega þó, ef sá háttur væri upp tekinn, sem ráðuneytisstjórarnir virðast hallast að, að t.d. gamla atvmrn. héldist í svipaðri mynd eins og áður, þ.e.a.s. það annaðist landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál (þar með siglingar) og iðnaðarmál — og jafnvel hugsanlega einnig samgöngumál, ef farið væri í gamla farið. Slík stór rn. gerðu það að sjálfsögðu ómögulegt að skipta verkum milli flokka við stjórnarmyndanir og mundu því halda við því óþurftarástandi, sem verið hefur núna um allmörg undanfarin ár, að rn. hafa verið klofin oft í mjög marga hluta og sami ráðuneytisstjóri þurft að þjóna ekki aðeins tveimur herrum, sem þykir nógu erfitt, heldur þremur og jafnvel fjórum í sömu ríkisstj. Þarna er sem sagt ekki um neinn ágreining að ræða, en hins vegar hefði ég kosið, að betur hefði verið athugað, hvort ekki mætti stokka fleira upp í ráðuneytalistanum í 4. gr. heldur en það eitt að stofna heilbrigðis- og tryggingamálarn. Út af fyrir sig er ég sammála stofnun þess, en hefði talið æskilegt, að nánar hefði verið farið yfir ráðuneytislistann almennt og athugað af kunnugustu mönnum og gefin grg. um það, hvað bezt mætti henta í því efni. Ég lagði fram að gamni mínu í n. nokkrar till. til athugunar, en þær hlutu nú ekki blessun meðnm. minna og vöktu ekki sérstakan áhuga hjá þeim af stjórnarvöldunum, sem fengu að sjá þær, svo að ég nenni nú ekki að vera að ergja menn með því að flytja þær nema að mjög litlu leyti. Sú breyting, sem ég þar legg til, er í 1. brtt. minni, stafl. a og b, sem ættu að fylgjast að við atkvgr., að kirkjumálarn. verði flutt til menntmrn., því að mér fyndist, að þessi upplýsingastarfsemi fyrir þjóðina hlyti að eiga heima á einum stað.

Ég geri aðra till. til breytinga við þessa skrá yfir rn. og það er þar sem Hagstofa Íslands er nefnd meðal rn. Ég hef ekki heyrt aðrar röksemdir fyrir því, ef svo ætti að vera, heldur en þá, að hagstofustjóri leggi mjög mikið upp úr þessu atriði. Ég vil taka það skýrt fram, að ég álít hagstofustjóra vera einn af mætustu embættismönnum þessa lands og stórmerkan mann í öllu sínu starfi, og ég álít, að hann eigi að fá í öllum sínum kjörum sízt lakari meðferð heldur en ráðuneytisstjórar, en hvernig í ósköpunum hægt er að gera Hagstofuna að rn., það skil ég ekki. Ég hef reynt í huga mínum að skilgreina hugtakið „ráðuneyti,“ og lágmarkið hlýtur þó að vera, að maður geti hugsað sér ráðherra þessa rn. En hver gæti talað um hagstofuráðherra? Ég held, að á flesta menn mundi það verka mjög undarlega, mjög einkennilega, ef (Gripið fram í.) Fjmrh. er allt annað. Enda segir svo í l. um Hagstofu Íslands nr. 24 frá 1913, að hún standi beint undir ráðh., en samkv. aths. við frv. var á árinu 1956 ákveðið, að Hagstofa Íslands skyldi vera sérstakt rn. Hvernig sem þetta síðara atriði er til komið, þá breytir það ekki því, að Hagstofan er ekki rn. samkv. l. um hana sjálfa né samkv. íslenzkri málvenju og eðli málsins. Það er vægast sagt undarlegt að velja henni það tegundarheiti. Óski hún að vera deild í fjmrn. með beinan aðgang að ráðh., eins og fjárlaga- og hagsýslustofnunin, frekar en vera sjálfstæð stofnun utan ráðuneytisins, þá mætti náttúrlega láta það eftir henni, þó að það væri heldur slæmt fordæmi. Það er vitað, að önnur stofnun hefur mjög sterka löngun til að nota þetta ráðuneytisheiti, og það er Póstur og sími. Hvort tveggja er þetta ættað frá Danmörku á sínum tíma, þar sem þetta hét Statistisk department og Direktoratet for post- og telegrafvæsenet, minnir mig, og þessi háttur var hafður á, til þess að hinir virðulegu embættismenn, sem yfir þessar deildir voru settir, skyldu ganga jafnhliða ráðuneytisstjórunum, þegar þeir fóru á fund konungsins eða sátu veizlur hjá honum, vera á sama stað í „rangordenen“ eins og danskurinn kallar það, en úr þessu metnaðaratriði er fyllilega hægt að bæta með brtt. hv. 3. landsk. við 14. gr. frv.

Þá flyt ég enn eina brtt. við þessa gr. Hún er nú flutt eftir ábendingu Agnars Kl. Jónssonar ráðuneytisstjóra. Það er eðlilegra lagamál, finnst mér eins og honum, að ákvæði 8. gr. komi sem niðurlag 4. gr.

Þá er fyrri brtt. við 6. gr., það er dálítil efnisbreyting, sem ég fyrir mitt leyti legg nokkra áherzlu á. Ríkisendurskoðunin er þegar samkv. frv. sjálfstæð stjórnardeild, en innan fjmrn. Ég álít, að nú, þegar þessi lög eru sett, eigi þetta almenna eftirlit að vera tengt forsrn., en í raun og veru undir stjórn — náttúrlega ekki undir daglegri stjórn, en undir yfirstjórn — endurskoðunarmanna ríkisreikninganna, sem kjörnir eru af Alþ. Þetta mundi eftir mínu viti gefa þessari stofnun meiri virðuleika og meira sjálfstæði heldur en hún hefur í dag og ætti ekki að auka störf forsrh. svo að neinu næmi, því að hann er hvort sem er sá maður, sem hefur umsjón með starfsemi allra rn. og þar á meðal eyðslu þeirra. Þessi breyting hefur í för með sér vissar aðrar breytingar á gr., sem eru ekki efnisbreytingar.

Þá kemur 3. brtt. mín, sem er bein afleiðing af síðustu brtt. minni við 4. gr. og ég hef þegar gert grein fyrir.

4. brtt. er við 11. gr., 1. mgr., eins og hún er á þskj. 374. Þar segir í gr.: ,.Ráðuneytisstjórar og hagstofustjóri stýra ráðuneytum.“ Það er með tilliti til þess, að ég álít ekki, að Hagstofan eigi að vera í þessari upptalningu, að ég flyt þessa brtt. Verði fyrri brtt. felld, verður þessi að sjálfsögðu tekin aftur, því að þær styðjast hvor við aðra.

5. brtt. er við ákvæði til bráðabirgða. Þar hef ég orðað sömu hugsunina og hv. 3. landsk., en að því er sjálfan mig snertir þá finnst mér ég hafa gert það svolítið betur, annars hefði ég ekki flutt till. Ég þarf ekki að taka fram, að þarna stendur „samkvæmt 14. gr.,“ en það leiðir af sjálfu sér, að það verður skv. 13. gr., ef till. um að fella 8. gr. niður verður samþ.

Ég vil þá að lokum taka fram, að ég get fallizt á allar brtt. hv. 3. landsk. þm. nema þá 10., sem svarar til 5. till. minnar, hana vil ég aðeins lagfæra, og 9. till. hans get ég ekki fallizt á. Ég hef sjálfur starfað í rn. og undir rn. í 26 ár af ævi minni, og ég veit það, að þau þyrftu að hafa breytzt mikið frá þeim árum, ef þau ættu að geta sett þær reglur, sem þarna er farið fram á, á eins skömmum tíma og brtt. gerir ráð fyrir.