13.05.1969
Efri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Ég er hv. þd. mjög þakklátur fyrir hinar jákvæðu undirtektir undir brtt. mínar við 2. umr. þessa frv., þar sem samþ. var að flytja eina stutta málsgr. úr 8. gr. í 4. gr. Það sýnir þó, að orð mín eru enn nokkurs metin í þessari hv. deild. Í trausti þess, að svo sé enn við þessa umr., þá kem ég með fáeinar brtt. til viðbótar, sem ég leyfi mér að afhenda skriflega, þar sem ekki hefur unnizt tími til að prenta þær enn. Þær eru í sama anda og þessi, sem samþ. var, álíka byltingarkenndar, en falla náttúrlega undir það, sem heldur var hallmælt við 2. umr., að vera smekksatriði. Bæði hæstv. forsrh. og hv. formaður Framsóknarflokksins höfðu í sínum ágætu og mjög svo samdóma ræðum í málinu við 2. umr. sérstakan ímugust á öllum smekksatriðum við afgreiðslu þessa máls, og skal þó hætt á það að fara ofurlítið lengra í því efni. Ég vil þó ekki fara svo langt að flytja brtt. um að bæta við „hafnarmálaráðuneytinu“, enda þótt það hafi skapazt síðan síðasta umr. fór fram. Það má sjá hér svart á rauðu og hvítt á svörtu á þessum tveimur merku skjölum, sem útbýtt hefur verið í deildinni í dag, þar sem eru plögg, sem send eru herra hafnamálaráðh., annað af vita- og hafnamálastjóranum og hitt af Hafnamálastofnun ríkisins, þykir mér mikil furða, að þessar 2 virðulegu stofnanir skuli ekki heimta að vera rn. og ráðuneytisstjórar. Ég mun nú láta þetta liggja á milli hluta að sinni, en í stað þess flyt ég brtt. við 4. gr. í anda þeirra brtt., sem voru framlag hv. Nd. til málsins, þegar það var þar á ferð. Þá var orðliðurinn „mála“ strikaður út úr heitum ýmissa rn. Nú ætla ég ekki að fara í fullt kapp við deildina, hvorki þannig að halda áfram á þeirri braut né snúa við til fulls. Ég ætla t.d. ekki að leggja til, að fjmrn. verði kallað „fjárráðuneyti“, enda er ég hræddur um, að viss ráðh. mundi þá heimta stjórnina yfir því (það yrði deild undir landbrn.) — heldur mun ég láta mér nægja þá millileið að setja „mála“ aftur inn í menntamálin, og því flyt ég þá till., að í stað „menntaráðuneyti“ komi menntamálaráðuneyti. Þá flyt ég aðra brtt. við þá gömlu 10. gr., sem nú er 9. gr., að orðin „og eignum á vegum þeirra“ falli niður. Þetta er gert til þess að gera hæstv. forsrh. hægara fyrir með verkaskiptinguna og sem þm. alkunnur af áhuga mínum á kirkjumálum, eins og brtt. við 2. umr. sýndu, þá stefni ég þarna að því sérstaklega, að jarðeignadeild ríkisins fái einnig að fjalla um prestssetur og hjáleigur þeirra, sem í dag heyra undir dómsmrn. Ég álít, að það sé algerlega ófullnægjandi að hafa þá skilgreiningu, að þessarjarðir séu undir annari stjórn en jarðeignir almennt. Þetta ætti ekki að geta orðið neitt ágreiningsatriði. Loks var fresturinn miðaður (Gripið fram í: Hver á að setja reglur um þetta?) Það á forseti að gera með reglugerð eða úrskurði. Ef farið er eftir 7. gr. við afgreiðslu málsins, þá má forseti gera það með reglugerð, en ef farið er eftir 15. gr. þá gerist það með úrskurði. En í báðum tilfellum að sjálfsögðu eftir till. forsrh.

Loks kemur 3. brtt., sem er við ákvæði til bráðabirgða. Þar sem breyt. um forsetaskipun vissra embættismanna, sem fluttar voru af hv. 3. landsk. þm. og mér, náðu ekki fram að ganga, þá fellur grundvöllurinn undan brtt. við 2. umr., bæði hans og minni, við bráðabirgðaákvæðið, en þar fyrir þarf aðeins að breyta því, því að þar er gert ráð fyrir, að vissir embættismenn hljóti „sjálfkrafa“ forsetaskipun. Þetta er ekki til í dæminu, það verður enginn maður „sjálfkrafa“ embættismaður. Gera má ráð fyrir, að átt sé við það, að ekki þurfi að auglýsa embættin, og þess vegna vil ég gera þetta ofurlítið skiljanlegra með því að fella niður orðið „sjálfkrafa.“ Ég vil geta þess, að við erum báðir flm. að þessum till., ég og hv. 3. landsk., og ef ég má tala fyrir mitt leyti, vil ég óska þess, að deildin láti till. ekki gjalda þess, að þetta sé ofurlítið smekklegra orðalag heldur en hitt, sem fyrir er.

Fyrst komið er að svo mörgum smekksatriðum, þá langar mig til þess að nefna enn eitt ósamræmi í stafsetningu. Nú er ekki því að neita, að í skrifuðu máli er mikið og vaxandi ósamræmi í notkun upphafsstafs um ýmis embættis- og stofnanaheiti, en um það hef ég ekki aðeins notað minn eigin málsmekk, heldur spurt marga góða menn að því, hvort þeir mundu skrifa ráðuneytaheiti með stórum staf, og hafa þeir allir verið sammála um, að svo bæri ekki að gera. Hagstofa Íslands hygg ég þó, að allir mundu skrifa með stórum staf, en hagstofan með litlum, nákvæmlega á sama hátt eins og gert er um háskólann: Háskóli Íslands og háskólinn. Þetta er umdeilanlegt smekksatriði, sem hér er erfitt að greiða atkv. um, en ég bið hæstv. forseta um að beina því til skrifstofustjórans að leiðrétta frv. að þessu leyti í samræmi við það, sem telst rétt og góð ritvenja í dag. Vonast ég til, að ekki verði heldur ágreiningur um þetta.

Svo þakka ég enn fyrir góðar undirtektir undir till. mínar og læt máli mínu lokið.