12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

100. mál, þjóðminjalög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. lét ég þess getið, að í athugun væri eitt ákvæði frv. og að ég mundi nota tímann milli umr. til þess að ráðgast við meðnm. mína í menntmn. um brtt. við þetta tiltekna ákvæði frv., sem er 43. gr. Í Nd. tók frv., eins og vakin var reyndar athygli á við 2. umr., m.a. þeirri breytingu, að aftan við 43. gr. var bætt svo hljóðandi ákvæði: „Lendi safnið í óhirðu, getur menntmrh. að till. þjóðminjavarðar ákveðið, að gripir þess skuli renna til Þjóðminjasafnsins og verða eign þess upp frá því.“

Þetta er í framhaldi af því ákvæði gr., sem á undan er komið, að ef byggðasafn lendi í vanhirðu, sé hægt að svipta það ríkisstyrk. Þetta ákvæði, sem sett var þarna inn í Nd., er sannast að segja mjög vafasamt og líklegt, að það yrði jafnvel talið brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem þarna er gert ráð fyrir, að teknar séu eignir, gripir, sem eru í eigu ákveðinnar stofnunar, byggðasafns, og þeir lagðir til Þjóðminjasafnsins sem þess eign og án þess að það virðist þarna vera ætlunin, að nokkrar bætur komi fyrir. — Okkur hefur komið saman um það, nm. í menntmn., milli umr., að flytja brtt. við þennan málsl., niðurlag 43. gr., um að síðasti málsl. orðist svo:

„Lendi safnið í óhirðu, getur þjóðminjavörður að fengnu samþykki menntmrh. tekið gripi safnsins til varðveizlu í Þjóðminjasafni.“

Ég skal láta þess getið, að þessi brtt. er nánast samhljóða ákvæði, sem er í niðurlagi 6. gr. l. frá 1947, um byggðasöfn.

Það er eins og ég áður sagði mjög vafasamt, að slíkt ákvæði fengi yfirleitt staðizt. Þá er einnig á það að líta um slíkan grip úr safni, sem hefur lent í óhirðu og sem í bili yrði þá varðveittur í Þjóðminjasafni, að það getur hæglega komið til þess og verið algerlega eðlilegt og sanngjarnt, að honum verði skilað aftur, t.d. í byggðasafn þess sama byggðarlags eftir að tryggt væri, að hann fái þar ásamt öðrum safngripum þá umhirðu, að viðunandi sé. Ég vil því leyfa mér, þar sem þessi brtt. er skrifleg og of seint fram komin, að æskja þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða, svo að hún geti komið hér til umr. og afgreiðslu.