10.12.1968
Neðri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um tollheimtu og tolleftirlit, felur í sér till. um heildarlöggjöf á þessu sviði. Frv. var að meginefni til í þessum búningi lagt fyrir síðasta þing og var þá ekki útrætt. Þar komu fram ýmsar aths. í sambandi við athugun hv. fjhn. á málinu, og nú í sumar hefur frv. verið tekið til athugunar aftur í fjmrn. með hliðsjón af þeim aths., sem fram höfðu komið, og hefur verið haft samráð við ýmsa þá aðila, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þessa löggjöf á ýmsum sviðum. Í upphafi grg. frv. er vikið að þeim breytingum, sem gerðar eru á frv. nú frá þeim búningi, sem það var í á s.l. þingi, og vænti ég, að hv. þdm. verði ljóst, hvað þar er um að ræða, því að það er í einstökum atriðum talið rækilega upp, hverjar breytingar þessar séu. Engin þeirra er veigamikil. og ég sé ekki ástæðu til þess að gera þær sérstaklega að umtalsefni, en vænti þess, að þær geti orðið til þess að greiða fyrir gangi málsins nú í gegnum þingið og auðvelda meðferð þess í hv. fjhn. nú.

Ég gerði grein fyrir frv., þegar ég lagði það fram í fyrra og sé því ekki ástæðu til að hafa langa framsöguræðu um það nú, enda er grg. þess ítarleg og því ekki þörf á að rekja hana í einstökum atriðum. Efni eða tilorðning málsins er í stuttu máli sú, að fyrir allmörgum árum, eða árið 1962, skipaði þáv. fjmrh. n. til að endurskoða gildandi lög og reglur um tollheimtu og tolleftirlit og gera jafnframt till. um ráðstafanir til þess að koma með sem beztum hætti og tryggustum í veg fyrir það, að vörur væru fluttar inn án tollafgreiðslu, og jafnhliða var ætlazt til þess, að athugað væri, hvernig mætti samræma betur tollgæzlu og löggæzlu í samræmi við ályktun, sem Alþ. gerði um það efni. Á s.l. ári fól ég n. manna að athuga þetta frv., sem hafði ekki verið flutt, og á grundvelli athugunar þessara manna, sem gerðu nokkrar breyt. á upphaflegu frv., var það lagt fyrir Alþ. á s.l. ári.

Núgildandi lög um tollheimtu og tolleftirlit eru frá 1956, og í aths. við það frv., þegar það var lagt fyrir Alþ. á árinu 1955, var m.a. vikið að því, að ýmis nýmæli væru í þessu frv. Þar væri að finna nýjan kafla um skipaafgreiðslu, meðferð ótollafgreidds varnings o.fl., þannig að gera mætti ráð fyrir því, að innan tíðar þyrfti að endurskoða l. aftur með hliðsjón af þeirri reynslu, sem þá lægi fyrir. Aðalbreytingarnar einmitt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru um flutning, meðferð og geymslu ótollafgreiddrar vöru, sem gert var ráð fyrir einmitt, að þyrfti að endurskoða auk ýmissa annarra atriða. Þá kemur það einnig til. að síðan þessi lög voru sett hafa verið sett ýmis ný lög varðandi tollamál, bæði um tollvörugeymslur og auk þess endurskoðuð áður gildandi lög um tollskrá, þannig að einmitt þessi nýja löggjöf veldur því, að nokkur atriði þurfa sérstaklega að takast til meðferðar.

Í aths. við frv. um tollheimtu og tolleftirlit, eins og það var flutt á sínum tíma 1955, var gengið út frá því, að það yrði meginstefna, að tollgæzlan sjálf komi upp geymslum fyrir ótollafgreiddar vörur. Nú hefur stefnan í þessum efnum breytzt í samræmi við það, sem orðið hefur reyndin á Norðurlöndum, að heppilegast er talið, að farmflytjandi sjái sér sjálfum fyrir geymslustöðum fyrir ótollafgreiddar vörur, og það hafa skipafélögin gert ráðstafanir til að gera. Það virðist því ljóst, að það verði stefnan hér í náinni framtíð, að undanskildum hinum sérstöku tollvörugeymslum, og að því beinast ákvæði frv. um meðferð tollafgreiddrar vöru, að þetta verði stefnan hér. Þar má því t.d. nefna, að nauðsynlegt er að sjálfsögðu, að vörugeymslur fái viðurkenningu hjá tollyfirvöldum, að ekki megi flytja vörur að viðurkenndum geymslustað nema með samþykki tollstjóra og annað þess konar. Þá er einnig ákvæði til þess að reyna að auðvelda, hraða eða stuðla að hraðari afgreiðslu á vörum, þannig að þær safnist ekki upp í vörugeymslum og til þess að greiða fyrir því, að innflytjendur leysi fyrr út vörur sínar, er heimild í frv. til þess, að veita megi í vissum tilfellum greiðslufresti á aðflutningsgjöldum, sem ekki er nú gert, gegn því, að þeir tollafgreiði hana innan ákveðins frests og flytji hana burtu úr geymslunum. En það er meginregla í frv., hvað kostnað af tollgæzlu og tolleftirlit snertir, að sjálf varargæzlan, þ.e. ráðstafanir til að koma í veg fyrir ólögmætan innflutning, svo og dagleg almenn afgreiðsla, sé, svo sem er hliðstætt við almenna löggæzlu, greidd úr ríkissjóði, en kostnaður af vörumeðferðinni og eftirlit greiðist að verulegum hluta eða meginstefnan er sú, að það greiðist af farmflytjanda eða vörueiganda.

Eins og ég áðan sagði, eru mörg ákvæði l. að sjálfsögðu, þar sem hér er um heildarlöggjöf að ræða, óbreytt frá því, sem er í gildandi l., en nýmæli, sem í frv. eru, byggjast fyrst og fremst á fenginni reynslu, og enn fremur hefur verið höfð mjög náin hliðsjón af sambærilegri löggjöf á Norðurlöndum, þar sem fengin er mjög rækileg reynsla á ýmsum þeim vandamálum, sem við er að fást í þessum efnum, og er vitanlega mjög svipuð hér eins og þar. Rétt er aðeins að vekja athygli á einstökum atriðum, sem ekki taka langan tíma, en sem gera það nauðsynlegt, að þetta frv. geti orðið afgreitt. Ég vék áðan að nýmælinu varðandi skjótari afgreiðslu vöru og heimildum til þess að lána tolla í því sambandi, sem er mjög veigamikið atriði og mundi stuðla að bættri tollafgreiðslu. Þá var það veigamikið atriði í sambandi við undirbúning löggjafarinnar í upphafi að stuðla að auknum sparnaði á þann hátt, að auðið væri að sameina í ríkara mæli tollgæzlu og löggæzlu fyrst og fremst utan höfuðborgarsvæðisins og raunar einnig hér í Reykjavík, að leggja grundvöll að því, að toll- og lögregluyfirvöld hefðu nánari samvinnu. Í l. um lögreglumenn eru sett ákvæði um þetta efni varðandi lögreglumenn, og á sama hátt er nauðsynlegt að setja ákvæði um aukið samstarf á þessu sviði og heimild til að samræma eða sameina þessi verk í löggjöfinni varðandi tollgæzlumennina. Þá eru einnig lögfest hér viss atriði, sem áður hefur aðeins verið praxis, eins og það, að tollstjóranum í Reykjavík eða tollgæzlustjóra í hans umboði er veitt aukið vald til þess að fara með tollgæzlu annars staðar í landinu eða yfirstjórn hennar og ákveða, að heimila megi tollgæzlustjóra eða fela megi honum yfirstjórn allrar tollgæzlu utan Reykjavíkur. Þá er jafnframt lögfest, að upp skuli komið tollskóla. Það er ekki í l. nú, en gert er hins vegar ráð fyrir því í kjaradómi varðandi laun opinberra starfsmanna, að slíkur skóli sé starfandi, sem veitir þá tollmönnum aukin launaréttindi, aukin laun eftir að þeir hafa gengið gegnum slíkan skóla. Þetta er ekki aðeins launaatriði. heldur mikilvægt í sambandi við virka framkvæmd tollgæzlu, að tollverðirnir hafi nauðsynlega þekkingu á þessum málum. Þá er hér lagt til, og tel ég rétt að víkja að því, að lögfesta tollhafnir. Nú er svo raunar, að það er hægt að koma að landi hvar sem er með vörur, en það er auðvitað óviðunandi. Takmarkanir um þetta hafa að vísu verið ákveðnar með reglugerð, sem leitazt hefur við að takmarka fjölda þessara hafna, og það er nauðsynlegt að gera það. Ég legg á það áherzlu, að þó að þetta sé meginlínan, verður vitanlega reynt að koma í veg fyrir það, að beinlínis sé hægt að segja, að útilokað sé að flytja vörur til annarra hafna heldur en hér er um að ræða. En ef það á að vera á valdi þeirra, sem að landi koma með vörur, hvar þeir skipa þeim í land, mun þetta að sjálfsögðu hafa í för með sér stórkostlega aukningu tollgæzlu og aukinn kostnað við að halda uppi virku eftirliti.

Þá er jafnframt í frv. gert ráð fyrir því að auka rétt tollgæzlumanna til þess að rannsaka vörubirgðir, bæði í verzlunum og vörugeymslum, ef rökstuddur grunur er á því. að þar séu vörur, sem skotið hafi verið undan greiðslu gjalda. Hér er ekki aðeins um að ræða toll á innfluttum vörum, heldur einnig framleiðslugjöld og annað þess konar, sem kemur til mála.

Í sambandi við sektir er það að segja, að þær hafa verið hækkaðar verulega, bæði dagsektir og auk þess almennar refsiheimildir í l., sem eðlilegt er, því að þær eru óhæfilega lágar í rauninni í mörgum greinum núgildandi laga. Þá er gerð sú breyting á, sem er veigamikil og verður að teljast sanngjörn, að gert er ráð fyrir því, að leitað verði fullnustu fyrst og fremst hjá sökunaut, sem gerist sekur um brot á tolllöggjöf. Hingað til hefur það verið svo, að fyrst og fremst hvílir ábyrgðin varðandi greiðslu sekta á farmflytjanda eða skipafélögunum, og það hefur því verið gengið að þeim um greiðslu sektanna, þó að þau séu raunar efnislega saklaus í málinu, en þetta þykir ósanngjarnt, og auk þess minnkar aðhaldið að sökunaut og því eðlilegt, að hið opinbera gangi fyrst að honum áður en gerð er aðför hjá farmflytjanda.

Þá er það nýmæli í þessu frv., að gert er ráð fyrir, að tollyfirvöld hafi svipaðan rétt og lögregluyfirvöld að því leyti að ákveða sektir á staðnum, ef um minni háttar brot er að ræða og ótvírætt þykir, að brot hafi verið fullframið. Þetta mundi auðvelda mjög og gera skjótari afgreiðslu slíkra mála. Loks er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að semja við yfirvöld í öðrum löndum varðandi tollgæzlumál og upplýsingar í þessu sambandi. Það er orðin venja nú og hefur leitt til þess, að það hefur komizt upp um mörg smyglmál hér á Íslandi, að tollyfirvöld í ýmsum löndum hafi með sér náið samstarf, og þar vitanlega verðum við fyrst og fremst þiggjendur í sambandi við þær upplýsingar, því að lítið er um, að héðan séu fluttar vörur þannig, sem þurfi með sama hætti að hafa eftirlit með, og þær vörur, sem héðan eru fluttar, einfaldari í sniðum, og þess vegna er það að sjálfsögðu ákaflega veigamikið fyrir Íslendinga, að þeir geti notið aðstoðar erlendis frá í þessu efni.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég vonast til þess, að grg. skýri í einstökum atriðum, hvaða breytingar um er að ræða í frv. frá núgildandi l., en ég vildi leyfa mér að vænta þess og beina því til hv. n., að hún reyndi að afgreiða málið nú endanlega, þannig að við getum fengið þessa löggjöf samþykkta á þessu þingi. Það kann að vera, að einhverjar hugleiðingar komi fram um frekari breytingar heldur en ég hef hér greint frá, að rn. við nánari athugun teldi rétt að taka þær inn í frv., og þá er að sjálfsögðu að athuga það, en ég mundi telja mjög æskilegt, að frv. gæti orðið að lögum á þessu þingi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.