21.04.1969
Neðri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir um tollheimtu og tolleftirlit, var flutt á síðasta þingi og endurflutt nú á yfirstandandi þingi. Fjhn. þessarar hv. d. fékk frv. til afgreiðslu á síðasta þingi og sendi það þá til umsagnar fjölmargra aðila, sem gerðu síðan sínar aths., og bárust n. þær. Við endurflutning frv. nú hafa ýmsar af þeim aths. verið teknar til greina, eins og fram kemur í grg. frv., en að sjálfsögðu ýmsar aths. ekki hlotið náð, hvorki fyrir flutningsaðila né heldur hv. fjhn. þessarar d. Þegar n. hefur fjallað um málið, hafa tveir, þeir Bjarni Pálsson skrifstofustjóri og Ólafur Jónsson tollgæzlustjóri, mætt á fundum n. og verið n. til aðstoðar við athugun frv. Eins og fram kemur á þskj. 474, mælir n. með samþykkt frv. með þeim breytingum, sem n. flytur sameiginlega á þskj. 489, en einstaka nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég vil í stuttu máli aðeins gera grein fyrir efni frv. og þeim meginbreyt., sem lagt er til, að gerðar séu á tollheimtu og tolleftirliti, svo og þeim brtt., sem n. gerir á þskj. 489 samhliða því, að ég geri grein fyrir frv.

Í l. kafla frv. er rætt um tollstjórn og tollasvæði og breytingar að verulegu leyti ekki miklar. Hins vegar er í ?. gr. frv. gert ráð fyrir að löggilda tollhafnir og þeim þar skipt í tvo flokka, aðaltollhafnir og tollhafnir. N. er með brtt. við 7. gr., sem er þess efnis, að Akranes, sem gert er ráð fyrir í frv., að verði aðeins tollhöfn, verði færð til og verði aðaltollhöfn. Á Akranesi er starfandi yfirtollvörður, og hér er um að ræða mikla útflutningshöfn, og taldi n. því rétt að leggja til. að þessi breyting yrði gerð á frv.

Í 11. kafla frv. er rætt um almennt tolleftirlit, og þar er um að ræða veigamiklar breytingar. Í 10. gr. frv., seinasta málsl. 1. mgr., stendur: „Enn fremur er tollgæzlumönnum heimill aðgangur að verzlunum og vörugeymslum þeirra, ef ætla má, að þar séu geymdar vörur, sem skotið hefur verið undan greiðslu lögboðinna gjalda.“ Hér er um að ræða nýmæli, og í frv., sem lagt var fyrir Alþingi 1955, var lagt til, að þetta yrði tekið inn í frv. þá, en fékk ekki náð fyrir augum hv. alþm. þá. Hins vegar er talið, að nauðsynlegt sé, að þessi heimild sé fyrir tollgæzlumenn og þeir hafi möguleika til þess að skoða vörugeymslur og verzlanir, ef ætla má, eins og þarna er sagt, að þar séu geymdar vörur, sem skotið hafi verið undan greiðslu lögboðinna gjalda. Hér er um að ræða m.a. framleiðslugjald, sem tollstjóra er ætlað að hafa innheimtu á.

Þá er enn fremur í seinni mgr. þessarar gr. um að ræða nýmæli, þar sem tollgæzlumönnum er veitt heimild til þess að veita mönnum eftirför, sem, eins og segir í frv., „skjóta sér undan eða þeir telja, að hafi skotið sér undan tolleftirliti með innfluttar vörur, og mega af sjálfsdáðum framkvæma leit í húsum, þegar um beina eftirför er að ræða og bið eftir úrskurði veldur hættu á sakarspjöllum“. Þetta ákvæði, sem hér er um að ræða, er sams konar ákvæði og er í opinberu l. varðandi löggæzlumenn, og er ekki talið óeðlilegt, að tollgæzlumönnum sé veitt sama heimild og löggæzlumenn hafa. Hins vegar leggur n. til, að gerð verði sú breyting á þessari mgr., að í staðinn fyrir, þar sem stendur: „... eða þeir telja, að hafi skotið sér undan tolleftirliti,“ þ.e. 2. brtt. á þskj. 489, komi „grunaðir eru um að hafa skotið sér undan tolleftirliti.“ Ef mismun eða ef greinarmun er hægt að gera á þessu tvenns konar orðalagi, þá liggur hann í því, að eins og stendur í frv., er það lagt á mat eins aðila, hvort viðkomandi hafi skotið sér undan tolleftirliti, en með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er þar um almenn sjónarmið að ræða, sem verða þess valdandi að heimilt er að veita mönnum eftirför. Mun á „súbjektívum“ sjónarmiðum og „objektívum“ er hér um að ræða, og a.m.k. sumir nm. telja eðlilegt, að þegar slíkt vald er falið tollgæzlumönnum, verði um að ræða almenn sjónarmið, sem valdi því, að mönnum sé veitt eftirför eða leit gerð á heimilum þeirra.

3. brtt. er við 15. gr. frv. og er um það, að á eftir orðunum „óheimilt er“ í 2. mgr. bætist „tollheimtumönnum“, þannig að gr. orðist svo: „Óheimilt er tollheimtumönnum að nota önnur innsigli við innsiglun í fari, nema sérstakt leyfi tollstjóra komi til hverju sinni.“ Það er ekki talin ástæða til þess að banna öðrum aðilum heldur en tollgæzlumönnum að nota önnur innsigli heldur en þau, sem tollgæzlustjóri viðurkennir.

Við 17. gr. frv. flytjum við enn fremur brtt., en í gr. er rætt um það, þegar farþegar koma og tollskoðun fer fram, en þá teljum við rétt, að við sé bætt 4. brtt., sem flutt er á þskj. 489, þar sem segir: „Nú tekur tollgæzlan farangur manns eða föggur skipverja í vörzlu sína til skoðunar síðar, og getur viðkomandi þá krafizt þess, að þær séu innsiglaðar þar til skoðun fer fram og hlutaðeigandi þá gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina.“ Þetta mun vera svo í framkvæmd, en n. taldi rétt, að skýr ákvæði væru í l. um, að þegar slíkt ætti sér stað, hefði viðkomandi aðili heimild til þess að krefjast þess, að farangur hans væri innsiglaður og hann svo síðan viðstaddur, þegar skoðun færi fram.

Við 18. gr. frv. er enn fremur flutt brtt., 5. brtt. á þskj. 489. Þar stendur: „Gjaldeyrisstofnanir eru skyldar að láta tollyfirvöldum í té allar nauðsynlegar upplýsingar og skýrslur, er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té um kaupverð vöru, greiðsluskilmála, yfirfærslur í sambandi við kaup vöru eða sölu og annað þvíumlíkt.“ Gr. þessi, 18. gr., fjallar um það, hvernig tollyfirvöld geta krafið hvern þann, sem flytur eða ætla má, að flytji inn gjaldskyldar vörur, um skilríki, og er talið rétt, eða það er ósk tollstjórans, að þessi brtt. sé flutt, þannig að tollstjóranum sé heimilt að afla sér eða gjaldeyrisstofnunum sé skylt að láta tollstjóranum í té þær skýrslur, sem gjaldeyrisstofnanirnar hafa yfir að ráða varðandi vörukaup.

III. kafli frv. fjallar um för í utanlandsferðum. Hann er að meginefni breyttur að því leyti, að í núgildandi löggjöf er aðallega fjallað um skip, en hér er gerð breyting með tilliti til flugvéla, eins og fram kemur. Í 19. gr. frumvarpsins stendur: „Far, sem statt er í neyð, er undanþegið ákvæðum 1. málsgr. þessarar gr.“ Til þess að taka af allan vafa, þá leggjum við til, að á eftir orðunum „statt er í neyð“ bætist „eða þarf að leita hafnar vegna veikinda eða slysa áhafnar eða farþega.“ Það má e.t.v. segja, að það sé ástæðulaust, því að far, sem þarf að leita hafnar vegna veikinda eða slysa áhafnar eða farþega, er að sjálfsögðu statt í neyð. Við 1. málsgr. er brtt. nánast leiðrétting, þ.e.a.s. í staðinn fyrir „síðustu málsgr. 7. gr.“ komi: 5. málsgr. 7. gr.

Þá er brtt. við 32. gr. frv., sem fjallar um skip, sem fara til útlanda beint af veiðum. Í frv. segir í 32. gr. „skip, sem er á leið til útlanda, skal hafa seinustu viðkomu hérlendis í aðaltollhöfn, sbr. þó 7. gr.“, þ.e. undanþáguákvæðin. „Ákvæði þetta á ekki við um fiskiskip, sem fer til veiða eða siglir til útlanda beint af veiðum og eingöngu með eigin afla.“ Að sjálfsögðu getur það átt sér stað, að skip sigli með afla, eigin afla, svo og afla, sem keyptur hefur verið í landi, áður en farið var til veiða eða hafi keypt afla af öðru skipi á veiðum, þannig að lagt er til, að orðið „eigin“ falli niður og greinin endi því: „og eingöngu með afla.“

Í 34. gr., sem er nýmæli, er stjórnanda fars eða afgreiðslumanni útgerðar, sem ekki fullnægir skyldum sínum, sbr. ákvæði þessa kafla, gert skylt að greiða tollgæzlunni allan kostnað, sem leiðir af þeim ráðstöfunum, sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna vanrækslu. Í frumvarpsgreininni segir, að kostnaði þessum fylgi lögveð. N. telur hins vegar ekki ástæðu til þess að láta lögveð fylgja með og leggur því til í 8. brtt., að síðasta málsgr. orðist svo: Kostnað þennan má innheimta með lögtaki.

Í IV. kafla er fjallað um vörzlu og tollmeðferð aðfluttra vara. Segja má, að meginnýmælið í þeim kafla sé í síðustu málsgr. 37. gr., en þar stendur: „Geymsluhafi hefur haldsrétt í vörunni fyrir kröfu sinni um geymslugjald. Haldsrétturinn útilokar þó ekki, að tollstjóri geti selt vöruna á opinberu uppboði og að tollur og önnur opinber gjöld séu greidd af uppboðsandvirðinu á undan geymslugjaldinu.“ Framkvæmdin á þessu hefur verið allt til næstliðins árs með þeim hætti, að geymslugjald hefur gengið fyrir. Hins vegar var það eftir uppkveðinn hæstaréttardóm, þar sem í forsendum dómsins var getið um þessa hluti, að viðurkennt var af yfirborgarfógeta, að tollur og opinber gjöld gengju á undan geymslugjaldinu af uppboðsverðinu. Það þykir rétt að taka af öll tvímæli og setja þetta í l., og mun hér um að ræða sambærilegt ákvæði og í tollalöggjöf annarra Norðurlanda.

V. kafli frv. er að mestu óbreyttur frá þeirri löggjöf, sem nú gildir, þ.e. um flutning á ótollafgreiddum vörum innanlands, en í VI. kafla felast nýmæli, þ.e. um gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda. Í 52. gr. er gert ráð fyrir, að fjmrh. geti með reglugerð ákveðið um greiðslu aðflutningsgjalda, hvenær greiðsla aðflutningsgjalda á vörum skuli fara fram, og ákveðið í reglugerð innan hvaða tíma, eða að hún sé sett í tollvörugeymslu, sbr. l. 47 frá 1960. Framkvæmd þessara mála mun vera þannig í dag, að ef ekki hafa verið greidd aðflutningsgjöld af vöru innan eins árs frá því að hún kom til landsins, sé hún seld til fullnustu aðflutningsgjalda. Við þessa gr. flytur n. þá brtt., að inn í gr. sé bætt á eftir fyrri málsgr.: og skal þessi frestur vera minnst 6 mánuðir. Nm. voru mjög á einu máli um það, að það bæri að fara mjög varlega í að stytta þann frest, sem nú er. Hann er að vísu ekki samkv. lögum, heldur ákvörðun rn., en til þess að taka af allan vafa, þá væri ekki farið með þennan frest niður í skemmri tíma en 6 mánuði, en eins. og ég gat um áðan, þá var n. á þeirri skoðun, að vegna þeirrar sérstöðu, sem við hefðum vegna legu lands okkar, þá bæri að fara mjög varlega í að stytta frestinn frá því sem hann nú er.

Í 53. gr. er enn fremur nýmæli, þar sem gert er ráð fyrir því, að fjmrh. geti með reglugerð heimilað tollstjóra að veita innflytjendum tiltekinn greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Það er jafnframt tekið fram í gr., að þessi frestur skuli aðeins veittur gegn fullgildri bankatryggingu eða annarri hliðstæðri tryggingu, sem rn. tekur gilda, og bundin því skilyrði, að varan sé tollafgreidd og flutt úr vörugeymslum innan þess frests, sem ákveðinn verður í reglugerð, og má sá frestur ekki vera lengri en 20 dagar frá komudegi fars þess, er vöruna flutti til landsins. 20 daga frestinn taldi n. vera í það stytzta og leggur því til í 10. brtt. sinni, að í stað orðanna „20 dagar“ komi „1 mánuður“. Eins og ég gat um áðan, þá er hér um nýmæli að ræða, en það mun vera hugsunin á bak við þá heimild, sem hér er lögð til, að fjmrh. fái að reyna að flýta fyrir tollafgreiðslu og gera hana í alla staði liðlegri með því að veita þennan frest, og það er talið, að þetta muni ekki seinka innkomu tolla í ríkissjóð, heldur muni það geta flýtt fyrir.

Í VII. kafla frv. er rætt um vantanir og skemmdir og endursendingu á vörum. Sá kafli er að verulegu leyti svipaður þeim ákvæðum, sem eru í gildandi l. N. gerir þó till. um breyt. á 56. gr., þar sem stendur: „Hafi vara orðið fyrir verulegum skemmdum,“ að orðið „verulegum“ falli niður. Enn fremur leggur n. til, að á 57. gr. verði gerð breyt. Er það í samráði við rn. Ég sé það á þskj., að það hefur fallið niður sú brtt., sem n. þarna leggur til, og mun hún þá að sjálfsögðu flytja hana við 3. umr. En þar var gert ráð fyrir því, að í 57. gr., 1. tölul., féllu niður síðustu orðin, þ.e. „og ekki sé meira en eitt ár liðið frá því, að hún kom til landsins.“

VIII. kaflinn fjallar um útflutning og er nánast svipaður þeim kafla, sem um þessi mál fjallar í dag.

Í IX. kafla frv. er rætt um refsingar og önnur viðurlög. Þessi kafli hefur sérstaklega verið yfirfarinn af saksóknara ríkisins svo og starfsmönnum rn. og yfirmönnum tollgæzIunnar. Helstu breyt., sem á þessum kafla er lagt til, að gerðar verði, eru, að það sé sett hámarksfangelsisrefsing fyrir ólöglegan innflutning, sem ekki er í núgildandi l., og er fangelsisrefsingin ákveðin allt að 2 árum. Þá er enn fremur sett almenn refsiheimild fyrir brot á l. í stað þess að vitna í hverja gr. fyrir sig, og jafnframt er hámarkssektarrefsing hækkuð úr 200 þús. kr. í 500 þús. kr. Þá er í 72. gr. frv. veitt heimild til eignarupptöku á vörum og andvirði þeirra, og þau ákvæði gerð mun ýtarlegri heldur en er í gildandi l. Þá er enn fremur veitt heimild til þess að gera farartæki upptækt, sem notað er til að fremja tollaafbrot, en það skilyrði sett, að brotið sé stórfellt og sakir að öðru leyti miklar. Eins og stendur í 3. málsgr., 2. málsl. 72. gr. „upptaka er heimil, þótt sökunautur sé annar en eigandi farartækis, ef ástæða er til að ætla, að eigandinn hafi vitað eða mátt vita í hvaða tilgangi nota átti farartækið.“ Hér er um að ræða nýtt ákvæði í l. Fyrir örfáum dögum höfum við samþykkt breyt. á áfengisl., þar sem eignarupptökuákvæðið var, þrátt fyrir það að eigandi farartækis væri saklaus-þessi hv. deild breytti því ákvæði áfengislaganna, er kvað svo á, að farartækið skyldi gert upptækt, í heimildarákvæði. Það er að sjálfsögðu forsenda þessarar heimildar, sem hér er veitt, að eigandi farartækisins sé með í vitorði eða málin þannig úr garði gerð, að hann hafi mátt vita um, til hvers átti að nota hans eigin farartæki. Við minnumst hæstaréttarmáls á s.l. ári, þar sem reyndi á þetta ákvæði, sem ég gat um hér áðan, áfengislagaákvæðið. Menn minnast líka þeirrar málsmeðferðar, sem var viðhöfð eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp þann dóm, og sú breyt., sem gerð var á áfengisl., er að sjálfsögðu gerð einmitt út frá þeim forsendum, að eigandi farartækisins sé ekki dæmdur til þess að þola eignarupptöku, ef hann er saklaus með öllu og hann hafi með engum hætti getað gert sér grein fyrir eða mátt vita um það til hvers nota átti hans eigin farartæki. Enn fremur er veitt heimild til þess að beita eignarupptöku, þótt refsiábyrgð verði ekki við komið, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þá er gert ráð fyrir því í 73. gr., að það farartæki, sem hefur verið notað eða reynt hefur verið að nota til þess að flytja vörur ólöglega til landsins, verði að veði til tryggingar gjöldum, sektum og kostnaði, sem stjórnanda farartækisins, áhöfn eða öðrum starfsmönnum þess verður gert að greiða, og eins og segir í gr. má kyrrsetja það og selja á opinberu uppboði til lúkningar framangreindum gjöldum og kostnaði án undangenginnar aðfarargerðar og með þeim hætti, sem segir í 54. gr. Síðan kemur atriði, sem er nýmæli: „Sé sökunautur búsettur hér á landi eða eigi eignir hér, skal þó jafnan reynd aðför hjá honum áður en gengið er að veðinu, en eigi raskar það rétti til kyrrsetningar samkv. 1. málsgr.“ Það, sem hér er um að ræða, er, að þeir aðilar, sem verða dæmdir fyrir ólöglegan innflutning og þar sem farartæki eru til tryggingar sektum og kosinaði — þá verði fyrst leitað fullnustu hjá viðkomandi aðilum í stað þess, sem er í dag í áfengislöggjöfinni, að eigendur farartækjanna bera beina ábyrgð á þeim sektum og kostnaði, sem starfsmenn þeirra hljóta. Er hér um að ræða ákvæði, sem mjög verður til bóta fyrir þá aðila, sem reka fyrirtæki sín og verða fyrir því, að starfsmenn þeirra brjóta reglur um áfengisinnflutning, svo og tollheimtu og tolleftirlit.

Þá er 76. gr. nýmæli, þar sem gert er ráð fyrir, að tollyfirvöldum sé heimilað að ákveða sektir allt að 10.000 kr. eftir nánari ákvæðum og reglum og fyrirmælum saksóknara. Ákvæðið er ætlað til að stuðla að einfaldari og hraðari málsmeðferð, þegar ekki er um að ræða stórvægilegt brot og atvik liggja að öðru leyti ljós fyrir. En þetta mundi að sjálfsögðu einnig oft verða til hagræðis fyrir sökunaut. Að sjálfsögðu getur sökunautur ætíð skotið máli sínu til dóms. Undir sama skilorði er tollyfirvaldi heimilað að ákveða eignarupptöku á smyglvarningi, ef verðmæti fer ekki fram úr 50.000 kr. Hliðstæð ákvæði eru nú í l. um meðferð opinberra mála frá 1961, sbr. l. nr. 29 frá 1966, að því er varðar afgreiðslu lögreglustjóra og lögreglumanna á brotum gegn umferðarl., áfengisl. og lögreglusamþykktum og fleira. Í 76. gr. er enn fremur veitt heimild til þess að afgreiða mál þeirra aðila, sem koma með í fórum sínum meiri varning heldur en heimilað er, varning, sem ríkið eða stofnanir þess hafa til einkasölu, og þeir framvísa því við tollgæzluna áður en tollskoðun hefst, og þá er gert ráð fyrir því, að aðilinn megi halda því, sem hann kom með, gegn því að greiða það einkasölugjald til hlutaðeigandi einkasölu, sem gert er ráð fyrir, að fjmrh. setji með sérstakri gjaldskrá. N. fannst þó, að það mætti kveða örlítið fastara að í sambandi við þessa málsgr. frv. og leggur því til, að orðin „sem fram yfir er“ falli niður og við síðustu málsgr. bætist „enda sé um takmarkað magn að ræða, sem nánar má ákveða í reglugerð.“ Síðasta málsgr. mundi þá hljóða svo: „Nú hefur einhver af áhöfn fars eða farþegi við komu sína til landsins meira í fórum sínum en heimilt er af varningi, sem ríkið eða stofnanir þess hafa einkasölu á, og framvísar því við tollgæzluna áður en tollskoðun hefst á farangri hans, og skal honum þá heimilt að halda því gegn því að greiða einkasölugjald til hlutaðeigandi einkasölu, samkv. gjaldskrá, sem fjmrh. setur, án þess að sæta kæru fyrir brotið, enda sé um takmarkað magn að ræða, sem nánar má ákveða í reglugerð.“

Ég hef yfirfarið í stuttu máli helztu breyt., sem lagt er til í frv. þessu, að gerðar séu á l. um tollheimtu og tolleftirlit, svo og þær brtt., sem n. flytur á þskj. 489. Eins og ég gat um hefur fallið niður ein brtt., sem n. samþykkti að gera, og n. mun að sjálfsögðu flytja þá brtt. við 3. umr. Eins og ég gat um áðan og fram kemur á þskj. 474, þá mælir n. með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fluttar eru á þskj. 489, en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.