21.04.1969
Neðri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. fjhn. fyrir athugun hennar á tollheimtufrv., og enda þótt mér hafi kannske stundum fundizt starfið ganga nokkuð hægt og vikið að því við form. n., þá er það engu að síður fullkomlega ljóst, að hér er um stórt og mikið mál að ræða og n. hefur lagt í þetta mikla vinnu, og ber að lofa það og þakka. Ég álít þess vegna, að vinna n. ætti að geta auðveldað mjög frekari meðferð málsins í þingi, þannig að það ætti að vera unnt að fá málið afgr. nú á þessu þingi, sem ég legg á mikla áherzlu. Málið hefur áður verið hér til meðferðar á síðasta þingi og varð þá ekki útrætt hér í þessari hv. deild, en þá komu fram allmargar athugasemdir, sem teknar voru til meðferðar milli þinga, þannig að það hefði átt að auðvelda meðferð málsins hér.

Ég vil aðeins taka það fram, að eftir atvikum sé ég ekki ástæðu til þess að fetta fingur út í neinar þær brtt., sem hv. n. hefur gert. Hún hefur haft um það samráð við þá menn, sem sérfróðastir eru í tollamálum og tollheimtu. Þetta er flókið og margþætt kerfi. Það, sem fyrir mér hefur vakað, er það, að í hinni endurskoðuðu löggjöf er að finna mörg nýmæli, sem stuðla að því að gera tollheimtukerfið traustara og áhrifaríkara og jafnframt greiða fyrir tollmeðferð vara með ýmsum hætti eins og hv. frsm. t.d. vék hér að, sem mönnum kann að þykja orka nokkuð tvímælis, að leyfa að lána tolla um skeið. Það er ekki gert til þess að draga úr innkomnum tolltekjum, heldur fyrst og fremst til þess að hraða tollafgreiðslu vara, og þess vegna er sett annað ákvæði í frv., sem hv. frsm. einnig vék að, að það er gert ráð fyrir að stytta þá fresti, sem heimilað er að láta ótollafgreiddar vörur liggja í vöruafgreiðslu. Það hefur því miður mjög oft á því borið og oft valdið vandræðum, að vörur hafa hrúgazt upp í vörugeymsluhúsum vegna þess tiltölulega langa frests, sem nú er í gildi varðandi skyldur manna um að tollafgreiða vörur, en með því að opna leiðina til að lána tollana um skeið, sem aldrei mundi verða langur tími, þá teljum við mögulegt á móti að gera þá kröfu til innflytjenda, að þeir afgreiði vöruna fyrr en ella. Varðandi lánveitingar á tollum vil ég láta það koma skýrt fram, að um það munu verða látnar gilda mjög strangar reglur og væntanlega alls ekki lánaðir tollar nema því aðeins, að fyrir því liggi bankaábyrgð, þannig að það sé öruggt, að ekkert vandamál skapist varðandi innheimtu tollteknanna síðar meir. Hér er því aðeins um það að ræða að hraða meðferð varanna. Í vissum tilfellum getur þetta að vísu komið innflytjendum til góða, ef um vörur er að ræða, sem seljast fljótt. Þá geta þeir selt þær áður en kemur til tollgreiðslu, og er ekkert nema gott um það að segja, ef báðir aðilar geta haft af því gagn.

Ég sé ekki ástæðu til. herra forseti, að fara fleiri orðum um þessar einstöku brtt., sem hv. frsm. gerði mjög glögga grein fyrir, en vil leyfa mér að treysta því, að hv. þd. geti fallizt á að afgreiða málið með þeim hætti, sem hv. n. hefur lagt til.