06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

63. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu hv. Ed., en með allmörgum breytingum, sem ég tel nauðsynlegt, að þessi hv. þd. athugi nánar undir meðferð málsins í n. Þetta frv., sem hér er til umr., er alger nýjung í löggjöf hér á landi, og er því verið að fara inn á nýjar og ókannaðar leiðir, því að ekki er kunnugt um slíka lagasetningu annars staðar. Margt er í óvissu, hvernig slík lagasetning getur orðið í framkvæmd og hver áhrif hennar kynnu að verða. Reynsla undanfarandi ára og áratuga bendir þó í þá átt, að sé rétt á málum haldið og ef framkvæmd l. takist vel, geti orðið að þeim mikill ávinningur, bæði fyrir þær greinar sjávarútvegsins, sem frv. nær til, og þá einnig fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar í heild, og er það að sjálfsögðu ósk okkar allra.

Á s.l. ári var það boðað, að ríkisstj. mundi flytja frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og er reyndar staðfest í bréflegu loforði til þeirra samtaka, sölusamtaka fiskiðnaðarins, sem hér eiga hlut að máli, að að þessu máli skyldi unnið. Það var þá þegar ljóst, að hér var um allmikið vandamál tæknilega séð að ræða og að verið var að fara inn á brautir, sem lítt höfðu verið kannaðar áður, en það var þó von manna, að takast mætti að finna form fyrir þetta málefni, sem hæfilegt væri talið. En það reyndist hins vegar erfiðara en búizt hafði verið við, og var því ákveðið að bíða þessa þings og ætla þar með nokkuð lengri tíma til undirbúnings málinu. Frv. liggur nú hér fyrir, og má segja, að það sé í formi nokkurs konar tilraunar, þar sem reynt er að skapa grundvöll, sem unnt er að starfa á, án þess að sett séu of ströng fyrirmæli um einstök atriði, en ætlazt er til þess, að reynslan vísi veginn.

Sú hugmynd, sem liggur til grundvallar þessu frv., er ekki með öllu framandi í íslenzkum sjávarútvegi, þótt á öðru sviði sé. Okkar sjávarútvegur hefur tvö sérkenni, sem hafa afgerandi áhrif á afkomu hans. Bæði þessi sérkenni eru háð utanaðkomandi áhrifum, sem ekki er unnt að hafa bein áhrif á en þó verður að laga sig eftir. Annars vegar er um að ræða aflabrögð, sem eru háð margs konar atvikum, svo sem styrkleika fiskstofna, veðurfari á veiðitíma og tækni við veiðarnar. Fyrstu tvö atriðin eru algerlega óháð mannlegum áhrifum, en hverja þýðingu hið þriðja getur haft, höfum við fyrir augum frá síldveiðum undanfarandi ára, en því miður höfum við orðið að horfast í augu við, hversu skammt tæknin nær, þegar náttúruskilyrðin við veiðarnar bregðast, eins og augljóslega hefur orðið á þessum síðustu tveimur árum. Hins vegar er svo verðlag á erlendum mörkuðum. Á þetta atriði getum við sem seljendur að vísu ekki haft nein bein áhrif, en mikið veltur á hæfileikum til aðlögunar að breytilegum aðstæðum á mörkuðunum. En jafnvel þetta er ekki einhlítt.

Ef við lítum á fyrra atriðið, aflabrögðin, þá er langt síðan menn fóru að velta því fyrir sér, hvort ekki væri mögulegt að finna leið til að taka sárasta broddinn af aflabrestinum, sem ávallt hefur verið ógn fiskimannsins, með því að koma á fót tryggingakerfi, sem gæti bætt upp að nokkru leyti aflabrestinn. Niðurstöðurnar af þessum athugunum komu fram í l. um Hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, sem sett voru 1949. Sú lagasetning hefur vafalaust orðið til ómetanlegs gagns fyrir bátaútveginn og síðari breytingar l. fyrir allar greinar fiskveiðanna. Með þessu hefur verið dregið úr áhrifum aflasveiflna og mestu erfiðleikarnir af völdum aflabrestsins mildaðir. Það hefur löngum verið flestum ljóst, að æskilegt væri að geta beitt svipuðum aðferðum til að milda verðsveiflur afurða á erlendum mörkuðum. Slíkt er hins vegar margvíslegum erfiðleikum háð, og því hefur liðið langur tími, þar til til slíks gæti komið.

Það hefur raunar komið fyrir oftar en einu sinni, að ríkisvaldið hefur tekið á sig skuldbindingar að tryggja ákveðið lágmarksverð við útflutning. Þetta var t.d. gert á árunum 1946–1950, þegar hin svokallaða fiskábyrgð var í gildi. Verðtrygging var einnig tekin upp á árinu 1967 og var enn fremur í gildi á yfirstandandi ári. Var það gert með stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins á árinu 1967, sem var ætlað það hlutverk að taka áfallið af miklu verðfalli á frystum fiskafurðum, sem hófst seint á árinu 1966, og skyldi verðtryggingin ná til framleiðslu ársins 1967. Lagði ríkissjóður fram fé í þessu skyni, en sú hugmynd kom þá fram, að komið yrði því formi á þessi mál, að stofnaður yrði sérstakur verðjöfnunarsjóður, er gæti náð til fleiri útflutningsgreina sjávarútvegsins, og farið yrði þá inn á eiginlega verðjöfnun, sem ekki aðeins væri ætlað það hlutverk að taka skellinn af verðlækkun á afurðum, heldur einnig taka hluta af verðhækkun, sem kynni að verða, og yrði hún lögð í sjóðinn. Var hugsunin sú, að með þessu mundi stuðlað að því að jafna óheppileg áhrif verðsveiflna á þær afurðir, sem slíkur sjóður næði til, og þá einnig á hagkerfið allt, en um slík áhrif eru kunn dæmi frá undanförnum árum.

Þetta frv. byggir á þessum meginsjónarmiðum, og gefur heiti sjóðsins til kynna, að honum er ætlað þetta tvíþætta hlutverk, sem fram kemur í 1. gr. frv.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv., nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.