13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

63. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, hefur legið fyrir hv. Ed. um alllangan tíma og er nýlega komið til þessarar hv. d. Hér er tvímælalaust um merkt mál að ræða, sem ástæða hefði verið til að athuga gaumgæfilegar en tími hefur verið til í sjútvn. þessarar hv. d. Er ég sammála minni hl. n. um það, að vissulega hefði verið æskilegt, að n. hefði gefizt tækifæri til að kynna sér málið betur en raun ber vitni og fara rækilegar yfir það. Hins vegar er þetta mál þannig vaxið, og þegar er til nokkur vísir að Verðjöfnunarsjóði, og ber nauðsyn til þess að ákvarða, með hvaða hætti honum verði stjórnað, og setja eins konar ramma um meðferð þess fjár, sem þegar er fyrir hendi. Enn fremur þarf að ákveða, með hvaða hætti stofnað verði til deilda í slíkum sjóði fyrir hinar ýmsu greinar fiskiðnaðarins. — Af þessari ástæðu hefur meiri hl. sjútvn. fallizt á að mæla með því, að frv. verði afgr. eins og það liggur fyrir, eftir að hv. Ed. hefur athugað það og gert á því ýmsar breyt. frá því, sem var í upphafi.

Ég skal leitast við í sem stytztu máli að gera hv. þd. grein fyrir helztu breyt., sem frv. hefur tekið í meðferð Ed.

1. gr. frv. er óbreytt.

Samkv. 2. gr. er nánar kveðið á um stjórn Verðjöfnunarsjóðs en gert var í upphaflega frv., og gerir sú breyt. á gr. reglugerðarákvæði um skipun stjórnarinnar samkv. 10. gr. frv. óþörf.

Samkv. 3. gr. frv., eins og það var fyrst, var gert ráð fyrir, að Verðjöfnunarsjóði skyldi skipt, annars vegar í almenna deild, en hins vegar í deildir eftir tegundum afurða, og skyldu deildirnar hafa aðskilinn fjárhag. Átti hlutverk hinnar almennu deildar að vera það að veita lán til hinna deilda sjóðsins, ef þörf krefði. Í meðförum hv. Ed. var það fellt úr þessari grein, að stofnuð skyldi almenn deild við sjóðinn, og þar af leiðandi fellur niður sú setning úr gr., sem kveður á um hlutverk hinnar almennu deildar. Einnig var fellt niður úr þessari gr., að stofnaðar skyldu tvær deildir, þ.e.a.s. annars vegar fyrir frystar fiskafurðir, en hins vegar deild fyrir afurðir síldarverksmiðjuiðnaðar, og stendur þá aðeins eftir, að stofnuð verður í upphafi deild fyrir frystar fiskafurðir. Samkv. þessu breytist þá ákvæði b-liðs 4. gr. um ráðstöfun þess fjár, sem fyrir hendi er af gengishagnaði samkv. b-lið 2. gr. l. nr. 79 29. des. 1967. Einnig verða ýmsar aðrar breyt. á frv., sem leiðir af breyt. á 3. gr.

Í 7. gr. frv. hefur í meðförum hv. Ed. verið bætt inn því ákvæði, að við ákvörðun verðgrundvallar skuli miða við útreikninga verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þær breyt., sem hv. Ed. gerði á frv. Ég lít þannig á þetta mál, að með frv. sé fyrst og fremst settur allrúmur rammi til þess að gera mögulega stofnun deilda fyrir hinar ýmsu greinar fiskiðnaðarins í framhaldi af stofnun deildarinnar fyrir frystar fiskafurðir. Samkv. grg. með 4. gr. frv. var talið, að stofnfé sjóðsins gæti í byrjun numið allt að 40–50 millj. kr., en ástæðan til þess, að ekki var stofnuð deild fyrir síldarverksmiðjuiðnaðinn, var sú, að þegar frv. var samið, var ekki búið að flytja úr landi allmikið magn af lýsisbirgðum. Var því ekki hægt að gera sér grein fyrir, hvaða áhrif það mundi hafa á þann sjóð, sem tilheyrir þeirri grein fiskiðnaðarins.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég vil benda hv. þdm. á, að með starfsemi Aflatryggingasjóðs á undanförnum árum hefur verið dregið verulega úr áhrifum minnkandi afla, þegar svo hefur borið undir. Með stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er ætlunin að leitast við að draga á hliðstæðan hátt úr áhrifum verðsveiflna, þ.e.a.s. annars vegar þeim áhrifum, sem stórlækkað verð hefur, hins vegar er gert ráð fyrir því samkv. frv., að í Verðjöfnunarsjóð geti runnið hluti verðhækkunar á útflutningsafurðunum, þegar um það er að ræða, að veruleg verðhækkun verði. Samkv. því á að vera hægt að geyma frá feitu árunum til mögru áranna. Ég tel, að í þessu felist talsverð búhyggindi, og mæli fyrir mitt leyti og fyrir meiri hl. sjútvn. með samþykkt frv.