17.04.1969
Efri deild: 75. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

203. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Landbn. er sammála um meginefni þessa frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér í nál. rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Vesturl. að bera fram á þskj. 462 2 brtt. við þetta mál. Fyrri brtt. er við 6. gr. og er efni hennar það, að í stað fimm manna stjórnar Áburðarverksmiðjunnar verði stjórnin skipuð 7 mönnum, þannig að 5 þeirra verði kosnir hlutfallskosningu í Sþ. til 4 ára í senn og landbrh. skipi einn þeirra formann verksmiðjustjórnar, en 4. stjórnarnefndarmaðurinn skuli kosinn á Búnaðarþingi og hinn 5. kosinn á aðalfundi Stéttarsambands bænda, báðir til 4 ára í senn.

Áburðarverksmiðjan er stórt fyrirtæki, og er þó stefnt að því að stækka hana að miklum mun, svo að hún verði fær um að framleiða að mestu eða öllu leyti þau áburðarefni, sem þarf að nota í landinu, en þessi framleiðsla er svo einhæf, að viðskiptaaðili þessa fyrirtækis er ein þjóðfélagsstétt, bændastéttin. Og það skiptir þessa stétt því afar miklu, hvernig á málum fyrirtækisins er haldið, bæði fjárhagslega séð og eins tæknilega. Það er meginstefna þessa frv., að verðið á áburðinum, sem verksmiðjan framleiðir, sé miðað við, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins, og skuli eignir þá metnar til endurkaupsverðs að frádregnum hæfilegum afskriftum. Þetta sýnir svo ljóst sem verða má, að kaupendur áburðarins munu í framtíðinni standa undir rekstri og skuldbindingum þessa fyrirtækis með áburðarverðinu, eða í gegnum viðskiptin. Það hlýtur því að skipta bændastéttina mjög miklu máli fjárhagslega séð, að reksturinn sé svo hagkvæmur sem nokkur kostur sé og verði áburðarins verði í hóf stillt. Ef sú skipan yrði tekin upp, sem í brtt. okkar segir, þá mundi það óumdeilanlega auka tengsl bændasamtakanna við þetta þýðingarmikla þjónustufyrirtæki og veita þeim betri aðstöðu heldur en ella til þess að fylgjast með og hafa áhrif á rekstur verksmiðjunnar.

En í þessu efni er ekki aðeins um fjárhagsatriði að ræða. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvað bændastéttin hefur orðið fyrir tilfinnanlegum skakkaföllum á undanförnum árum af völdum kals í túnum, og það er álit ýmissa manna, að áburðarefnin eigi talsverðan þátt í því, að svo hefur farið. Það er ef til vill eitt allra stærsta mál landbúnaðarins, hvernig áburðarframleiðslunni og áburðardreifingunni er hagað, og að áburðarnotkunin sé í sem beztu samræmi við það, sem jarðvegsrannsóknir sýna, að vera þarf á hverjum stað. Það er að vonum hið mesta áhugamál bændastéttarinnar í heild og félagsstofnana hennar, að vísindunum verði beitt svo sem kostur er í því efni að komast að raun um, af hverju kalið stafar, og að ráða bót á því, og miklar umræður hafa verið um það á síðustu árum, að koma þurfi á sem víðtækustum jarðvegsrannsóknum, svo hægt verði að gefa bændum öruggar leiðbeiningar um það, hvaða áburðarefni þeir eigi að nota hver á sinni jörð, og hversu stóra skammta jarðvegurinn eigi að fá af hverri tegund.

Það liggur í augum uppi, að framleiðsla áburðarefnanna stendur í nánu sambandi við þessa starfsemi, sem óumdeilanlega er mjög þýðingarmikil fyrir íslenzkan landbúnað, og í beinum tengslum við þetta sjónarmið er það, sem vakir fyrir okkur með brtt., að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda fái aðild að stjórn Áburðarverksmiðjunnar, þannig að þessi landssamtök bændanna geti fylgzt sem allra bezt með því, hvernig áburðarframleiðslan þróast, og jafnhliða því beitt sér að því að auka þekkingu bændanna á áburðarþörfum jarðvegsins, eins og kann að reynast við jarðvegsefnagreiningu.

Ég vil enn fremur benda á það, að þessi brtt. er í fullkomnu samræmi við þær óskir, sem fram hafa komið á Búnaðarþingi að undanförnu. Búnaðarþing hefur á undanförnum árum gert ýmsar samþykktir um Áburðarverksmiðjuna. Í samþykktum Búnaðarþings 1967 segir, að Búnaðarþing leggi áherzlu á — m.a. sem talið er í samþykktinni — að Áburðarverksmiðjan h.f. verði þjóðnýtt og í stað fulltrúa hluthafa, sem nú eru, komi í stjórn hennar 2 menn, annar tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands og hinn af Stéttarsambandi bænda. Á Búnaðarþingi 1968 er aftur gerð ályktun um Áburðarverksmiðjuna. Sú ályktun er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af fyrri samþykktum sínum um Áburðarverksmiðjuna h.f. leggur Búnaðarþing fyllstu áherzlu á eftirtalin atriði:

1. Að Alþ. hraði lagasetningu um þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar h.f., svo að sú löggjöf taki gildi áður en hafizt er handa um stækkun hennar og breytingar.

2. Að framkvæmdir við endurbyggingu verksmiðjunnar verði við það miðaðar, að hún geti tekið til starfa með fullum afköstum og sinnt þörfum landbúnaðarins um tegundaval, þegar hún á kost á aukinni raforku frá Búrfellsvirkjun.“

Á Búnaðarþingi, sem háð var nú á þessum vetri, var enn gerð ályktun um þetta efni, og þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing fagnar yfirlýsingu landbrh. við setningu þingsins, um að hafizt verði handa á komandi vori um stækkun Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Í því sambandi leggur þingið sérstaka áherzlu á fjölþættari áburðarframleiðslu, svo sem alhliða blandaðan áburð og kalkblandaðan köfnunarefnisáburð, enda er gengið út frá því sem sjálfsögðu, að verksmiðjan verði samkeppnisfær við innfluttan áburð um verð og gæði. Jafnframt minnir þingið á fyrri kröfur sínar um, að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda fái að tilnefna sinn manninn hvort í stjórn verksmiðjunnar.“

Um þessar samþykktir, sem ég hef nú minnzt á, hefur verið einhugur á Búnaðarþingi. Atkvæðatölur, sem tilgreindar eru, sýna, að þær hafa verið samþ. með 24 eða 25 shlj. atkv.

Til viðbótar því, sem ég hef sagt um rök fyrir þessari brtt. okkar, bæði fjárhagslegs eðlis og að því er snertir áburðarefnin, fagleg rök, þá erum við með flutningi þessarar brtt. að flytja fram það sjónarmið, sem bændafulltrúarnir á Búnaðarþingi hafa sett fram og ítrekað í ályktunarformi og óska eindregið, að nái fram að ganga.

Önnur brtt. okkar er við 8. gr. Í frv. segir, að endurskoðendur Áburðarverksmiðju ríkisins skuli vera 2, skipaðir af landbrh. En í brtt. okkar er tekið fram, að gr. skuli orða svo:

„Endurskoðendur Áburðarverksmiðju ríkisins eru 3, skal einn skipaður af landbrh. og sé hann löggiltur endurskoðandi, annar af fjmrh., en hinn þriðji af stjórn Búnaðarfélags Íslands, allir til 4 ára í senn.“

Um þessa brtt. er það að segja, að hún er byggð á sama sjónarmiði og hin fyrri um tengsl bændasamtakanna við þetta þjónustufyrirtæki landbúnaðarins með því að veita Búnaðarfélagi Íslands aðild að endurskoðun reikninga fyrirtækisins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra þessa brtt. með fleiri orðum.