09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Sunnl. fyrir upplýsingar, sem hann hefur aflað sér mér til handa, skv. beiðni minni, þegar þetta mál var fyrr til umr. En þar var ég að óska eftir upplýsingum um það, í hvað þær 19 millj. rúmar ættu að fara, sem er greint frá, að eigi að verja til rafveitna í dreifbýli á þessu ári, en mér var ekki ljóst, hvernig þeim yrði varið. Hv. þm.. hefur nú aflað þeirra upplýsinga um mitt kjördæmi, að þar sé um 4 framhaldslínur að ræða, Hólslínu í Bíldudal, Þingeyrarhreppslínu, Arnardalslínu við Skutulsfjörð og Prestsbakkalínu við Hrútafjörð. En hann gat þess jafnframt, að hann hefði ekki getað fengið upplýsingar um það, hvaða fjárhæð yrði varið í hverja línu fyrir sig. Þykir mér það verra, að þm. skuli ekki geta svarað fsp. manna heiman úr héruðum um það, þegar komið er sumar, hvort eigi að vinna þar eitthvað í sumar eða ekki. Þetta er meiri seinagangurinn! Auðvitað fá þm. sífellt fsp. um þetta úr héruðunum, þar sem vantar rafmagnið. Hvenær fáum við rafmagn? Og möguleikarnir hjá okkur til að svara þessu fólki eru ekki meiri en þetta. Ég er síður en svo að ásaka hv. þm. um, að hann hafi vanrækt neitt, þvert á móti hefur hann gert það, sem ég bað hann um. Mig langaði a.m.k. að fá vitneskju um það, ef hann getur svarað því, eða þá hæstv. fjmrh., hvort þessar upphæðir eiga að fara í skuldagreiðslu, eða hvort áætlað er að vinna fyrir þær í sumar. Ég held nefnilega, að a.m.k. sumar af þessum línum skuldi og það fari eitthvað af þessu í það. Ein þeirra, aftur á móti, mun vera ný framkvæmd, þ.e. Prestsbakkalína í Hrútafirði. Það er svo ástatt um þessa margumbeðnu línu, að fyrir meira en 2 árum var samþ. í Raforkuráði að leggja rafmagnslínu um Bæjarhrepp, og hann er það þéttbýll, að það eru, ef ég man rétt, 1,43 km að meðaltali milli bæja, svo að héraðið fullnægir algerlega þeim reglum, sem settar eru um raflagnir. En þrátt fyrir það, að 2 ár séu liðin síðan og mönnum hafi verið gefið meira en vilyrði fyrir því, að rafmagnslínan yrði lögð á árunum 1968–69, eftir því, sem mér hefur verið tjáð, munu í hæsta lagi verða keyptir einhverjir staurar til þess að byrja að leggja þessa línu í sumar. Ef hægt er að láta mér í té einhverjar meiri upplýsingar um þetta, væri ég þakklátur fyrir það, hvort sem hæstv. ráðh. gerir það, eða hv. frsm. n. í þessu máli. Ég er mjög óánægður yfir því, að fá ekki frekari vitneskju um þetta.