09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. 1. þm. Vestf. get ég ekki svarað henni nákvæmlega, því að ég hef ekki fyrir mér þær tölur, sem hann er að ræða um og sem hv. 3. þm. Sunnl. minntist hér á, þ.e.a.s. hv. 3. þm. Sunnl. hafði ekki heldur þær tölur, sem um var að ræða, en ég get hins vegar upplýst það, að það er ætlunin að leggja þær linur, sem hann las upp, að ætti að leggja í sumar. Ástæðan til þess, að hann getur ekki nefnt allar fjárhæðir í því sambandi og hvað nákvæmlega fari í þær á þessu sumri, er, eins og hv. 1. þm. Vestf. er vafalaust kunnugt, að ekki er alltaf hægt að fullyrða, hvort línu sé lokið að fullu á yfirstandandi ári, eða eitthvað verði þar eftir til næsta árs. Það er ekki hægt að fullyrða það, að þessum línum öllum, sem hann nefndi, verði lokið á þessu ári, en að þeim mun verða unnið og ég hygg ekki, að skuldagreiðslur hafi áhrif á þessar línur út af fyrir sig, a.m.k. býst ég við, að hv. þm. viti sjálfur um þær línur, sem hann minntist á, hvort þær hafa verið lagðar eða ekki lagðar, og hafi þær ekki verið lagðar og talað um, að eigi að leggja þær á þessu ári, þá fer það varla í skuldagreiðslur. Hitt er annað mál, að það eru mörg héruð, sem hafa lagt fram lánveitingar, og það eru verulegar fjárhæðir, sem fara til skuldagreiðslna, sem í mörgum tilfellum eru endurlánaðar í aðrar línur. En þær línur, sem hv. 3. þm. Sunnl. hér nefndi, eru þær línur, sem á að vinna að í sumar, hvort sem tekst að ljúka þeim eða ekki.

Varðandi þær tvær brtt., sem hér eru fluttar, og mér dettur ekki í hug að halda fram, að séu ekki fluttar í góðri meiningu, verð ég að taka það fram, að hvorug þeirra á hér heima. Ekki vegna þess, að þessar framkvæmdir séu ekki góðra gjalda verðar, heldur vegna þess, að framkvæmdaáætlun sú, sem hér er lögð fram, eins og undanfarin ár, hefur verið lögð fram á hverju ári, og fjáröflun til hennar miðast við það, sem vinna á á því tiltekna ári og annars fjár er ekki aflað. Það væri vitanlega lítið vit í því að byrja að safna fé í framkvæmdir með því að taka lán ári áður, eða jafnvel fleiri árum áður, en á að byrja umræddar framkvæmdir og liggja síðan með það lánsfé. Hér er um allt annað að ræða, ef lagðar eru til hliðar, eins og oft er í sambandi við fjárveitingar, upphæðir af beinum fjárveitingum ríkissj. í fjárl. til þess að safna í einhverja framkvæmd. Hitt hefur verið föst venja og hlýtur að vera venja varðandi þær framkvæmdir, sem eru innan ramma framkvæmdaáætlunar, að þar verður að miða fjáröflun fyrir hvert ár við það, sem ætlunin er að þurfi á því ári, og ætlunin er að vinna fyrir á því ári.

Ég skal ekki hér fara að blanda mér inn í þær umr., sem farið hafa fram um Fæðingardeild Landspítalans, og við skulum vona, að allar hafi eingöngu stafað af áhuga á því að leysa það mál, en ekki neinu öðru. Mér er vel kunnugt um það bréf, sem samþm. minn las upp frá Kvenfélagasambandi Eyjafjarðar og áhuga þess, og áreiðanlega allra kvennasamtaka í landinu, á að leysa þann vanda, sem þar er við að glíma, og er mér það fullkomlega ljóst.

Það hefur verið upplýst af hæstv. heilbrmrh. og ekki vefengt af neinum, að síðustu árin hefur bæði innan ramma framkvæmdaáætlunar og í fjárl. verið aflað miklum mun meira fjár en áður hefur þekkzt til þess að leysa spítalavandamál hér á Íslandi. Ég hef ekki blandað mér í það, og það er ekki hlutverk fjmrh. að segja til um það, hvað sérstaklega eigi að sitja fyrir í þeim efnum eða ekki. Það hefur verið deilt á skoðun heilbrigðisyfirvalda hverju sinni. Hæstv. heilbrmrh. gerði hér í gær mjög greinargott yfirlit um þáð, hvernig þessu fé hefði verið ráðstafað að undanförnu, hvaða till. hefði legið fyrir frá heilbrigðisstjórninni um það efni, og hef ég engu þar við að bæta. Hann upplýsti einnig það, sem er kjarni málsins í sambandi við þá till., sem hér er um að ræða, að það væri ekki talið framkvæmanlegt með neinu móti að hefjast handa um byggingu umræddrar deildar á þessu ári. Það hefur verið aflað fjár tif að byggja yfir umræætt kóbalttæki og það var gert í sambandi við fjárl. og fjárveiting þar til þess veitt, hvort það er óskynsamleg ráðstöfun eða ekki, það fer ég heldur ekki að ræða um, ég er enginn sérfræðingur í heilbrigðismálum og læt aðra, sem virðast hafa á því meira vit hér í hv. þd., fjalla um það, en staðreynd er, að sú ákvörðun hefur verið ákveðin á þessu ári, og þeirri ákvörðun verður ekki breytt. Það liggur fyrir skv. yfirlýsingu ráðh., að húsameistari ríkisins telji ekki möguleika, tæknilega séð, að byrja á framkvæmdum á þessu ári, og af því leiðir, að það auðvitað kemur ekki til neinna mála að fara að taka lán til framkvæmda á þessu ári, sem ekki á að hefja fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Það mál verður að skoðast í sambandi við framkvæmdaáætlun viðkomandi árs. Þetta held ég, að liggi alveg í augum uppi og hljóti að vera öllum hv. þm. ljóst og án þess að ég sé með því á nokkurn hátt að segja til um, hvort rétt eða rangt hafi verið haldið af heilbrigðisstjórninni á því undanfarin ár, hvaða deildir hafa verið látnar sitja fyrir um það mikla fjármagn, sem varið hefur verið til sjúkrahúsabygginga. Það læt ég aðra um, en þetta er ástæðan, sem veldur því, að ég tel ekki vera tilefni til þess með neinu móti og það þess vegna ekki sýna hinn minnsta fjandskap til umrædds vandamáls, þó að ég segi það, að lántaka á þessu ári til framkvæmda, sem alls ekki er ætlunin að ráðast í á þessu ári og ekki talið mögulegt að ráðast í, kemur vitanlega ekki til greina. Slíkt væri hin óskynsamlegasta fjárráðstöfun, sem hugsazt getur.

Varðandi hina till. um Félagsheimili stúdenta er nákvæmlega sömu sögu að segja. Það er ekki fjárskortur að sinni, sem veldur því, að það mál er ekki komið lengra en nú standa sakir, — það er ekki rétt hjá mér að segja, að það sé ekki fjárskortur, — það er ekkí af neinum illvilja af hálfu stjórnvalda, að það hefur ekki gerzt, heldur vegna þess, að nýjar og nýjar áætlanir hafa verið gerðar um þessa framkvæmd og þær áætlanir hafa ekki eingöngu verið gerðar vegna þess, að það hafi hækkað svo verðlag, heldur vegna þess, að áætlanirnar voru algerlega rangar. Það var búið að ganga frá því á s.l. ári, miðað við það, að Félagsheimili stúdenta kostaði 17 millj., eins og þá lá fyrir, og var það til meðferðar í fjmrn. og menntmrn. þá í viðræðum við forsvarsmenn stúdenta, og þá var samþ. af ríkisstj. að verja 5 millj. kr. úr ríkissj. til viðbótar þeim 4 millj., sem þegar var búið að safna saman til þess að byggja þetta heimili, gegn því að 5 millj. kæmu af happdrættisfé Háskólans. Þá var áætlað, að byggingin kostaði 17 millj. Þetta voru samtals milli 14 og 15 millj. kr., og stúdentar töldu þá engan vanda að leysa það, sem á milli bar. Fjárveiting til Félagsstofnunar stúdenta var nokkuð hækkuð á þessu ári, m.a. með hliðsjón af þessu, en hins vegar tók ég fram þegar í haust, að það væri ekki ætlunin að verja þessum 5 millj., sem lofað væri, á þessu ári til byggingarinnar, enda var hægt að byrja á henni engu að síður með þeim 10 millj., sem voru til ráðstöfunar. Það kom hins vegar í ljós í vetur, þegar áætlanir voru endurskoðaðar, að þetta voru ekki 17 millj., heldur 25 millj. Þá var farið af stað, og lagði ég áherzlu á það við forráðamenn stúdenta, að það væri auðvitað ekki neitt vit í því að fara að byrja á þessari byggingu, nema séð yrði til enda, hvernig hún yrði fjármögnuð, og voru settir fulltrúar frá menntmrn. og fjmrn. með stúdentum að kanna þetta mál. En áður en þeirri skoðun væri lokið og áður en neinu væri slegið föstu um það, hvernig þetta yrði fjármagnað, að öðru leyti en því, — það má segja það hér og er víst ekkert launungarmál, — að háskólaráð taldi mögulegt eða vildi fyrir sitt leyti mæla með 5 millj. í viðbót, ef ríkið legði enn 5 millj. af mörkum. Þá kom það á daginn, að þessi bygging mundi ekki kosta 25 millj., heldur a.m.k. 31 millj., og þá gaf auðvitað auga leið, að það varð að skoða þetta mál allt frá rótum. Og ég vil taka það fram, að ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi til þess að lýsa því yfir, að ríkisstj. ætli að leggja í þessa byggingu 15–16 millj. Það er ég ekki reiðubúinn til að gera, enda þótt ég viðurkenni fullkomlega, að það sé æskilegt að koma upp þessu félagsheimili. Það þarf að fá niðurstöðu í þessu máli, og það var nú fyrir mjög stuttu, í framhaldi af öllum þessum viðræðum, sett á laggirnar sérstök viðtalsnefnd milli þessara tveggja rn., sem ég vék að, og stjórnar Félagsstofnunar stúdenta um það að athuga, hvort hægt væri að reisa þetta hús í áföngum, fyrst og fremst með það í huga að koma mötuneyti stúdenta upp, en meginvandamálið í þessu er að koma mötuneytinu upp. Ef tekst að leysa þann vanda, á þetta að vera hægt án þess að afla sérstaks fjár eftir þeirri leið, sem hér er talað um, vegna þess að fyrir hendi eru nú þegar 10 millj. kr. til þessarar byggingar, ef í hana yrði ráðizt í ár, og ef háskólaráð vill auk þess leggja til viðbótar 5 millj., eru þar um 15 millj. kr. Það er alveg ljóst mál, að meira verður ekki gert á þessu ári, þannig að einnig af þessari ástæðu ber enga nauðsyn til þess að fara að taka þetta inn á framkvæmdaáætlun nú og taka til þess lán. Það er mál, sem kemur til meðferðar, þegar fjárl. koma til meðferðar í haust. Þá á þetta vandamál að liggja fyrir endanlega, hvernig það blasir við, og hv. þm. eiga þá að geta tekið afstöðu til þess, hvað þeir vilja leggja mikið fé af mörkum til þess að reisa Félagsheimili stúdenta.

Ég vona, að enginn misskilji orð mín hér þannig, að ég sé með þessu að lýsa andúð minni á þessu máli. Ég hef frá upphafi verið til viðtals við stúdenta og átt samvinnu við þá um það að kanna leiðir til að leysa þetta mál, en ég hygg, að engan undri það eða þyki það neitt fjarstæð afstaða, þó að maður hiki örlítið við, þegar um það er að ræða, hvort bygging kostar 17 millj. eða 31 millj., en sennilega þó nær 35 millj., og vilji skoða málið svolítið betur. Þess vegna vil ég segja það við flm. þessa máls, að þó að ég telji einnig, að það sé ekki neitt tilefni til þess að taka þetta mál hér upp, felst ekki í þessu andstaða gegn því, þó að sú till. verði felld, og það tel ég nauðsynlegt að komi fram, til þess að það verði ekki skilið sem andstaða gegn málinu og að það sé ekki fullur vilji fyrir því að hjálpa stúdentum til að koma upp nauðsynlegu félagsheimili með einhverjum hætti, heldur vegna þess, að það er ekki fjárskortur í bili, sem er hér þröskuldur í götu, heldur það, að finna heildarlausn á því, hvernig eigi að fjármagna þessa framkvæmd alla saman. Það gagnar engum að koma upp einhverjum áfanga, sem stendur síðan sem hálfkaraður kassi, eins og því miður oft vill verða um byggingar og á ekki að eiga sér stað, og er engin skynsemi í, það þarf að sjá fyrir því til enda, hvernig á að fjármagna þessa framkvæmd.

Af þessum ástæðum tel ég, herra forseti, að það sé ekki miðað við framkvæmdaáætlunina eins og hún er hugsuð, grundvöllur fyrir því að samþ. þessar 2 brtt. og ekki ástæða til þess og sú afstaða feli síður en svo í sér nokkurn fjandskap við þau mál, sem hér er um að ræða.