13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekkert sérstakt að athuga við það, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði varðandi þetta frv. Það er alveg rétt hjá honum, að það eru allstórar fjárhæðir, sem ganga þar til skuldagreiðslna, sem stafar af því, að á síðasta ári var unnið meira á ýmsum sviðum heldur en fjáröflunaráætlunin þá leyfði, og varð því að fara inn á þá braut að fá bráðabirgðalán, sem verður auðvitað að koma í fast form og er lagt til að gera með þessari áætlun. Það hefði verið fullkomlega æskilegt, ef það hefði verið hægt að hafa þessa áætlun víðtækari en nú er. En með því að ekki þótti, eins og ég áðan sagði, mögulegt né verjandi að fara að leggja til að taka erlend lán til almennra framkvæmda í landinu, eins og ella hefði orðið, ef hefði átt að gera það til þessarar áætlunar hér, og eins hitt, sem hv. þm. reyndar staðfesti, að það væri ekki hægt að ,ganga lengra á hag bankanna, þá var ekki talið mögulegt að taka hér inn fleiri framkvæmdir en raun ber vitni um.

Varðandi það, að eðlilegt sé í þessu sambandi að slaka á bindingu Seðlabankans og losa um innlent fé, sem þar er bundið, þá er það víðtækara mál, sem ég ætla ekki að fara út í hér. Það snertir okkar meginefnahagsvandamál og stjórn peninga- og fjármála. En ég held, að það sé þó engum efa bundið, að það hefur verið slakað óbeinlínis mjög verulega á bindingu Seðlabankans að því leyti, að Seðlabankinn hefur hlaupið undir bagga á ýmsum sviðum, og það allrækilega, með þeim hætti, að ég hygg, að það sé meiri ástæða til þess að óttast það, að Seðlabankinn hafi gengið of langt í þessu efni, þannig að það raski um of jafnvægi varðandi gjaldeyrismálin heldur en hið gagnstæða. Hitt er alveg rétt, að eins og ástatt var, þá varð að teygja sig nokkuð til þess að koma atvinnulífinu í gang aftur, og taka á sig vissa áhættu, eins og hefur óneitanlega verið gert með þessum ráðstöfunum.

Það var aðeins í rauninni eitt atriði, sem hv. þm. kom inn á, og ég vildi minnast á, af því að hann tengdi það við þetta frv., en það var ráðstöfun til þess að útvega skólanemum atvinnu. Ég er honum efnislega sammála um það, að það væri mikið böl. ef skólafólk gæti ekki fengið atvinnu. Það hefur verið einn stærsti kosturinn við okkar skólakerfi, að ungt fólk í skólum hefur getað unnið að sumarlagi og ekki aðeins með því aflað sér fjár til að standa undir sínu námi, heldur einnig aflað sér dýrmætrar reynslu og þekkingar á atvinnuvegum þjóðarinnar, þannig að það væri mikið böl, ef svo þyrfti að fara nú, að fjöldi fólks gengi atvinnulaust. Ég held nú hins vegar, að það sé alveg ljóst mál. að lausnin á því vandamáli sé fyrst og fremst að koma sem mestu lífi og fjöri í atvinnulíf þjóðarinnar almennt og að það velti að verulegu leyti á lausn kjaradeilnanna og með hverjum hætti þær leysast, hvort hér verður um stórt vandamál að ræða eða ekki. En að hinu leytinu til, hvort af opinberri hálfu þarf að gera ráðstafanir í þessu sambandi eða ekki, tel ég að sé mál, sem sé eðlilegt að sé rætt af atvinnumálan., og þá undir forystu Atvinnum. álanefndar ríkisins. Ég veit, að Reykjavíkurborg hefur íhugað þetta mál, og ég hygg, að Atvinnumálanefnd ríkisins hafi einnig rætt þetta vandamál. Höfuðatriði málsins er það, sem ég vildi leggja áherzlu á, hvað sem skoðunum manna líður í þessu, sem ég hygg að fari á engan hátt á misvíxl, allir séu sammála um efni málsins og það sé rétt, sem hv. þm. sagði, að ekki verði komið með till. um þetta efni í sambandi við þetta frv., ekki nema þá, að menn séu reiðubúnir til þess að gera þá sérstaka fjáröflun í því sambandi, og í rauninni tilgangslítið að gera það í sambandi við þetta mál, vegna þess að það yrði þá að fara eftir einhverjum ákveðnum áætlunum, hvernig það mál yrði leyst. Ég held því, að ef ráðizt yrði í sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja atvinnu skólanema, þá verði fjáröflun til þess, ef til kemur, að gerast á grundvelli sérstakrar og ákveðinnar áætlunar, sem þá væri búið að gera um það efni, og sem ég hygg þá að sé eðlilegast að sé að unnið á þeim vettvangi, sem ég áðan sagði, á vegum þeirrar atvinnumálanefndar eða samstarfsnefndar, sem sett hefur verið á laggirnar á milli vinnuveitenda, verkalýðs og ríkisstj., en þess sé enginn kostur að taka það inn í þetta frv. hér, enda ekki sjáanlegt, hvaða fjáröflun út af fyrir sig ætti hér að vera um að ræða til þess að leysa þann vanda, því að ég hygg, að við hv. þm. séum báðir sammála um það, að það að fara að taka hér almenn lán innanlands í þessu skyni sé ákaflega óraunsætt, og eigi að síður óraunsætt að gera það til þess að veita almenna heimild til ráðstafana, sem menn eru alls ekki búnir þá að gera sér grein fyrir, hverjar ættu að vera.