16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt skilið hjá hv. 12. þm. Reykv., að við, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, gerðum það til þess að flytja við það nokkrar brtt. Þeim hefur enn ekki verið útbýtt, og ég neyðist þess vegna til þess að flytja þær skriflega og fara fram á afbrigði til þess, að þær megi koma fyrir.

Ég skal reyna að gera grein fyrir þessum till. í örstuttu máli og eins og fyrri ræðumaður vísa þá til þess, sem áður hefur verið sagt við fyrri umr. um þetta mál hér í þessari hv. d. Þær brtt., sem ég flyt ásamt hv. 3. þm. Vestf., Bjarna Guðbjörnssyni, og hv. 4. þm. Norðurl. e., Hjalta Haraldssyni, eru fjórar. Raunar eru þær nú ekki kannske efnislega nema þrjár, en þær eru í 4 liðum vegna formsins. Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að lesa þær upp.

Fyrsta brtt. er við 1. gr., þar sem talað er um innlenda fjáröflun, sölu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina. Fyrir 75 millj. kr. komi 110 millj. kr.

Önnur brtt. er einnig við 1. gr. Hún er þannig, að við gr. bætist: „enda noti Seðlabanki Íslands ekki heimild sína til að binda hluta af sparifjáraukningu banka, sparisjóða og annarra innlánsstofnana á árinu 1969.“

Þriðja brtt. er við 3. gr. Við greinina bætist ný mgr. þannig: „Skuldabréfin og spariskírteinin skulu skráð á nöfn eigenda.“

Fjórða brtt. er við 7. gr., þar sem talað er um ráðstöfun þess fjár, sem þannig á að afla, að á eftir Lögreglustöð í Reykjavík bætist nýr liður, svo hljóðandi: „Til atvinnuaukningar framhaldsskólanema sumarið 1969 35.0 millj.“

Þessar brtt. þurfa nú ekki langrar framsögu við af minni hálfu, með því líka, eins og ég áður sagði, að ég hef við fyrri umr. hér gert þær nokkuð að umtalsefni. Aðalbreytingin er sú, að í stað innlendrar fjáröflunar, 25 millj. kr., gerum við till. um, að aflað verði 110 millj. kr. Það er auðvitað rétt, sem ég sagði við fyrri umr., að þessi fjáröflun, sem fæst með sölu spariskírteina. minnkar ráðstöfunarfé viðskiptabankanna, en 2. till. okkar er einmitt um það, að sparifjárbindingunni verði aflétt og er þar af leiðandi ekki nein mótsögn í þessum tillöguflutningi. Þessar 35 millj. kr., sem þannig er ætlað að afla til viðbótar, viljum við láta nota til þess að gera ráðstafanir til að auka sumaratvinnu framhaldsskólanema. En eins og ég sagði hér við fyrri umr., þá tel ég eitt höfuðvandamálið, sem nú er við að fást, það, að þetta fólk hefur ekki möguleika á því að fá arðbær störf og létta þannig undir með framhaldsnámi sínu, eins og löngum hefur tíðkazt hér hjá efnalitlum ungmennum. sem brotizt hafa áfram námsbrautina.

Það er að vísu alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr. hér, að æskilegra hefði veríð. að um þessi mál hefði unnizt tími til að gera áætlanir og ráðgera það með ákveðnum hætti, hvernig ætti að vinna fyrir þetta fjármagn, þannig að það skapaði aukna atvinnu, sem hér er verið að sækjast eftir. En um það er ekki að fást úr þessu. Þinginu er að ljúka, og ég tel, að við getum ekki farið heim án þess að leggja til eitthvert fjármagn í þessu skyni og verðum að treysta á það, að þær atvinnumálanefndir, sem fyrir eru og kosnar hafa verið. sjái leiðir til þess að ávaxta þetta fjármagn á heppilegasta hátt. En án þess að fjármagn sé lagt til hliðar sérstaklega í þessu skyni er ég hræddur um, að atvinnumálanefndunum takist ekki að greiða fram úr viðfangsefninu og þess vegna er þessi till. flutt. Okkur flm. er það alveg ljóst, að hér er um mjög lága fjárhæð að ræða, aðeins 35 millj. kr. En við vildum ekki spenna bogann allt of hátt og í trausti þess, að 35 millj. séu þó nokkur vísir að því að létta af þessu vandamáli, þá er upphæðin ákveðin þannig, þó að við skiljum það allir áreiðanlega, að til þess að vinna bug á vandamálinu til nokkurrar hlítar þyrfti fjárhæðin að vera sjálfsagt miklu hærri.

Til þess að gera málið ekki of flókið og til þess að koma ekki af stað neinum deilum um það, hvaða ráðstafanir það séu, sem helzt eigi að grípa til í þessu skyni, þá fjallar till. ekki um það. En þar fyrir hafa menn hugleitt ýmsar leiðir í þessu sambandi, og ég get nefnt eina eða tvær leiðir, sem okkur flm. hefur dottið í hug, að mætti fara. Það er t.d. alls konar vinna að landgræðslu, sem full þörf er á, að unnin sé.

Við höfum séð það í skýrslum, að þrátt fyrir talsvert átak, sem gert er í því að auka gróðurlendi landsins, gerum við ekki betur en að halda við, og það er gott, ef ég man ekki eftir því, að Ingvi Þorsteinsson magister, sem mest hefur nú um þessi mál fjallað, sagði frá því í vetur, að heldur hallaði á gróðurinn þrátt fyrir alla gróðurverndina. Það er því vissulega viðfangsefni, sem vert væri að gefa gaum, hvort ekki væri rétt að auka sandgræðslu, skóggræðslu eða yfirleitt hvers konar landgræðslu og hvort það væri ekki einmitt hentugt verkefni fyrir framhaldsskólafólk að fást við.

Annað verkefni, sem borið hefur á góma, eru brúargerðir. Það er verið að fjalla um vegamálin núna þessa dagana, núna á eftir, og ef ég hef skilið vegáætlunina rétt, þá er mjög lítið um nýjar brúargerðir á henni jafnvel næstu fjögur árin, hvað þá heldur í sumar. En mér skilst. að eins og nú hagar til vinnubrögðum við vegagerð, séu einmitt brúargerðir það, sem er fólksfrekast, vinnuaflsfrekast af vegaframkvæmdum, því að flestar aðrar vegaframkvæmdir eru fyrst og fremst unnar með stórvirkum vélum og þurfa ekki mikinn mannskap. En aftur á móti eru brúargerðirnar að verulegu leyti unnar, eins og áður var gert. Það er slegið upp fyrir þeim og þær eru steyptar upp á gamla móðinn, og við þau verkefni er þörf á mörgum vinnandi höndum. Mér hefur skilizt á samtölum, sem meðflm. minn hefur átt við vegamálastjóra, að það væri ekkert því til fyrirstöðu á vegamálaskrifstofunni að hefja margar brúargerðir strax á morgun, ef fjármagn væri fyrir hendi til að vinna þær. Allar teikningar og undirbúningur væri þar tilbúinn, og það stæði svo sannarlega ekki á vegamálaskrifstofunni að hefjast þar handa, ef fjármagnið væri fyrir hendi.

Það er vafalaust margt fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi, og ég skal ekki vera að tefja tímann á því að hugleiða það. En ég bara nefni það aðeins til viðbótar, sem atvinnumálanefnd Reykjavíkur hefur nú einna mest fest hugann við, en það er aukin útgerð, jafnvel útgerð á bátum á Grænlandsmið, sem mannaðir væru að einhverjum hluta framhaldsskólanemendum. Ég hef ekki alveg nýjar upplýsingar um það, á hvaða stigi þetta mál muni vera, en ég veit, að atvinnumálanefnd Reykjavíkur hefur mjög beint sjónum sínum að þessu verkefni nú upp á síðkastið.

Sú eina till., sem ég á eftir að gera þá grein fyrir, er um það, að spariskírteinin skuli skráð á nöfn eigenda. Ég hef svo oft talað fyrir sams konar till., og það er svo ljóst vegna hvers við leggjum til að svo skuli gert, að ég tel ástæðulaust að fara um það fleiri orðum.