16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja örfá orð um þessar brtt., sem hér liggja fyrir. Að vísu var vikið að þeim eða hugmyndinni, sem liggur þeim að baki, við 1. umr. málsins, svo að ég skal ekki orðlengja um þær umr., en ég sé ástæðu til að leggja áherzlu á þá meginstaðreynd, sem ég raunar gerði þá, að frv. það, sem hér er um að ræða til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1969, er miðað við alveg fyrirfram gerðar áætlanir, og þannig hefur alltaf verið með þessi frv. Út af fyrir sig er ekkert ábyrgðarleysi í því í sambandi við þennan tillöguflutning að hækka útgáfu spariskírteinalána. Það getur komið til mála, ef menn vilja skerða ráðstöfunarfé bankanna. Að vísu er það tekið fram í annarri till., að ætlazt sé til, að Seðlabanki Íslands noti ekki heimild sína til að binda hluta af sparifjáraukningu banka, sparisjóða og annarra innlánastofnana. Þetta veit ég, að hv. þm., sem er bankastjóri og þaulkunnugur peningamálum og efnahagsmálum, veit og að það er fjarri því að vera það einfalt mál. að hægt sé að samþykkja slíka brtt., eins og hún liggur fyrir hér, vegna þess að hún grípur með allt öðrum og víðtækari hætti inn í efnahagskerfið, og auk þess hefur Seðlabankinn þegar lagt fram verulegar fjárhæðir til aðstoðar við atvinnuvegina gegnum bankakerfið til þess einmitt að útrýma atvinnuleysi og leysa þann vanda, sem við hefur verið að glíma að því leyti. Að hve miklu leyti Seðlabankinn þarf svo að nota sparifjárbindingu, miðað við það ástand, sem á hverjum tíma er í efnahagsmálum okkar, til þess að forðast algert jafnvægisleysi og gjaldeyrisskort verður að sjálfsögðu að metast af yfirstjórn bankans hverju sinni og tel ég, að það væri mjög varhugavert, ef slíku væri slegið föstu með lögum, að það mætti ekki gerast. Af þeim sökum væri ekki um annað að ræða að minni hyggju, ef menn vildu leggja hér fram þær 35 millj., sem hér er talað um, en að samþykkja þá brtt. við 1. gr., en fella brtt. við 2. gr. Það veit ég. að vakir ekki fyrir hv. þm. eða flm. málsins, þannig að þeir munu tengja þær greinar saman. Ég legg á það áherzlu fullkomlega, til þess að það valdi engum misskilningi, að ég tel það vera stórkostlegt þjóðfélagsvandamál. hvernig á að tryggja atvinnu skólafólks. Ég tel, að það sé eðlilegt, að atvinnumálanefndirnar og Atvinnumálanefnd ríkisins ræði það vandamál eftir því, hvernig þokar með atvinnumálin. Allt er nú í mikilli óvissu vegna vinnudeilna þeirra, sem nú standa yfir, og það er ennþá enginn, sem sér fyrir endann á því, hvaða áhrif lausn þeirrar deilu getur haft, jákvætt eða neikvætt. Áður en það verður séð er auðvitað ekki hægt fyrir nokkurn aðila að segja til um það, hvort atvinnuvandamál ungs fólks leysast með sama hætti og gerzt hefur undanfarin ár eða hvort þarf að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana, hvað þá að séð verði, hversu stórar þær ráðstafanir verða.

Ég tel því, að þó að ég leggist eindregið gegn því, að þessi till. verði samþykkt hér, þá lýsi það ekki á nokkurn minnsta hátt andstöðu gegn þeirri hugmynd, að stjórnvöld kunni að þurfa að gera einhverjar ráðstafanir til þess að auðvelda skólafólki að fá atvinnu, sem er því lífsnauðsyn, heldur eingöngu vegna þess, að við vitum ekkert, hvaða viðfangsefni er hér við að glíma. Við höfum ekki hugmynd um, hvort 35 millj. skipta verulegu máli eða nokkru máli í því efni, og þar af leiðandi að verulegu leyti út í hött að samþykkja slíka till. Ég bendi hv. flm. á það, að vitanlega er það alltaf á valdi stjórnvalda að gera sérstakar ráðstafanir til fjáröflunar, jafnvel þó að ekki sé á þingtíma, eftir að þetta mál hefur verið kannað til hlítar og í rauninni hefði mér fundizt skemmtilegra, ef hv. þm. hefðu ekki haldið til streitu þessari till. sinni, þannig að maður væri neyddur til að greiða atkv. gegn henni, enda þótt það felist ekki í því efnisleg andstaða gegn þeirri hugsun, sem í málinu liggur, heldur eingöngu vegna þess á hvaða stigi málið er og hvers eðlis frv. er, sem fyrir liggur.

Ég held, að okkur greini enga á um mikilvægi málsins og það geti vel þurft að afla fjár til einhverra framkvæmda í þessu skyni, en eins og hv. þm. gat um, hefði mönnum getað dottið ýmislegt í hug í því sambandi, en það er ómögulegt að segja, hvað helzt kemur þar til greina. Það þarf allt að kanna miklu betur. Hvaða fjárþörf verður þar fyrir hendi, vitum við ekkert um, og verði um fjárþörf að ræða og verði talið mögulegt með einhverjum hætti að afla þess fjár, þá er það auðvitað einfalt að gera ráðstafanir í þá átt, enda þótt það yrði ekki gert með samþykkt þessarar brtt. við þetta frv. Mín ósk til hv. flm. hefði því nánast verið sú, að loknum þessum skýringum, hvort þeir vildu taka sínar till. aftur. Ef þeir ekki vilja það, þá verð ég að lýsa því sem minni skoðun, að ég tel ekki með nokkru móti auðið að samþykkja brtt., eins og þær liggja fyrir og miðað við þann undirbúning, sem málið hefur fengið.