04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

159. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Um þetta frv. hef ég ekki mörg orð að segja. Mér sýnist, að þær breytingar, sem ráðgerðar eru með þessu frv. á gildandi lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, séu eðlilegar, enda fullt samkomulag á milli aðila um að gera þessar breytingar. Ég fyrir mitt leyti get því fallizt á þær út af fyrir sig. En þar sem frv. þetta fjallar hér um kjaramál opinberra starfsmanna og þau hafa talsvert verið til umr. nú síðustu dagana, þykir mér ástæða til þess að víkja hér nokkrum orðum að þeim á víðari grundvelli.

Eins og kunnugt er hefur hæstv. fjmrh. ákveðið að hafa þann hátt á að greiða ekki opinberum starfsmönnum laun 1. marz samkv. þeim úrskurði, sem í gildi er frá hálfu kjaradóms um launagreiðslur opinberra starfsmanna. Hæstv. ráðh. hefur í reynd neitað að framfylgja þar ótvíræðum lagareglum. Ég hef veitt því athygli, að ráðh. afsakar þessar gerðir sínar með því, að það hafi orðið miklar breytingar á launagreiðslumálum í landinu og þær breytingar gefi tilefni til þess, að þannig sé á málunum haldið, sem hann hefur gert. Og einnig hefur hann orðað það þannig, að grundvöllurinn að úrskurði kjaradóms um launagreiðslur til opinberra starfsmanna sé í rauninni brostinn vegna þessara breytinga, sem orðið hafi almennt séð í launagreiðslumálum í landinu. Ég tel, að þessar afsakanir hæstv. ráðh. fái ekki staðizt með neinu móti.

Það, sem gerzt hefur í þessum málum, er það, eins og kunnugt er, að atvinnurekendur hafa gefið út einhliða yfirlýsingu um það, að þeir hugsi sér ekki að greiða vísitölubætur á laun frá 1. marz á þessu ári í samræmi við þau samningsákvæði, sem áður voru í gildi á milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna í landinu. En þeim samningum hefur nú verið sagt upp eins og kunnugt er. Af hálfu verkalýðssamtakanna í landinu hefur þessu verið mótmælt, og þar er haldið fram öðrum hlut. Og vitað er, að margir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, ganga stíft eftir því, að laun verði greidd í fullu samræmi við þann samning, sem áður hafði verið í gildi á milli vinnuveitenda og launþega. Nú virðist hæstv. fjmrh. ætla að nota þessa einhliða yfirlýsingu atvinnurekenda til réttlætingar á því, að hann hættir að borga laun samkv. skýlausum lagaákvæðum. Ég er anzi hræddur um það, að ef slík vinnubrögð ættu hér að takast upp, gætu margir ráðh. í hans sporum tekið æði oft upp á því að hætta að greiða laun samkv. gildandi lagareglum þar um og borið einhverju slíku við, að nú hafi orðið breytingar á einum eða öðrum stað í launagreiðslukerfinu í landinu, ef einhver hafi tilkynnt það, að nú vilji hann fá breytingar, og þar með ættu þá að skapast að dómi hæstv. fjmrh. réttindi til handa fjmrh. að hlaupa frá skýlausum lagaákvæðum um launagreiðslur. Auðvitað getur ekki slík yfirlýsing af hálfu vinnuveitenda skapað hér neinn grundvöll fyrir því, að ráðh. geti vikið frá settum lagareglum. Og ég vil fyrir mitt leyti mótmæla algerlega og harðlega slíkum vinnubrögðum sem þessum, að ráðh. geti tekið sér slíkt vald sem þetta, og bendi á það, að það er veruleg hætta á því, að slík framkoma geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, því að það er aðeins gömul saga, að þegar annar aðilinn, sem á hlut að gerðum samningum, leyfir sér að brjóta samninginn, brjóta lögin, víkja frá þeim. má fyllilega búast við því, að hinn aðilinn grípi til hliðstæðra ráðstafana. Þá eru í rauninni ekki lengur nein lög eða reglur um þessi mál lengur í gildi. Ég vil líka benda á það, að það, sem hæstv. fjmrh. reynir að færa fyrir sig í þessum efnum, þ.e.a.s. að nú sé orðin breyting á launagreiðslufyrirkomulagi almennt séð í landinu, fær ekki heldur staðizt. Þessar breytingar eru engan veginn komnar í framkvæmd.

Sannleikur málsins er sá um þessa tilkynningu af hálfu atvinnurekenda, að það reynir ekki á það í raun og veru, hvort hún hefur nokkurt gildi annað heldur en sem almenn yfirlýsing. Það reynir ekki á það fyrr en í fyrsta lagi 7. marz. Þá mun sennilega reyna á það í allmörgum tilfellum við launagreiðslur varðandi kaupgreiðslu á einum degi eða svo. En yfirleitt mun ekki reyna á þetta til fullnustu, hvernig fer með þessa framkvæmd, fyrr en í kringum 14. marz, vegna þess að þannig er háttað launagreiðslureglum, að launþegar eiga alltaf inni heila unna viku áður en talið er, að skylt sé að greiða laun fyrir þá viku. En hæstv. ráðh. hefur auðvitað ekki getað beðið eftir því að sjá það, hvernig færi um framkvæmdina á þessari yfirlýsingu frá hálfu atvinnurekenda, vegna þess að ráðh. bar skylda til þess að borga út laun opinberra starfsmanna fyrsta dag marzmánaðar. En af því að atvinnurekendur hafa sent frá sér tilkynningu, sent frá sér bréf, þá þýtur hæstv. ráðh. upp með það að neita að borga út laun samkv. ótvíræðum lagareglum þar um. Þetta tel ég, að sé vítavert og slíkt megi ekki þolast. Auðvitað gat hæstv. ráðh.. ef hann taldi í raun og veru, að það væri komin upp ný afstaða í launagreiðslumálum, farið að settum lögum og skotið málinu fyrir kjaradóm, sem þá átti að taka málið fyrir með eðlilegum hætti, og það átti að reyna á það, hvort hann úrskurðaði hér nýtt launagreiðslufyrirkomulag. En það vannst ekki tími til þess hjá hæstv. ráðh., og þá tekur hann sér bara lögin sjálfur í hendur og ákveður það, að lögin skuli vera svona. Svona vinnubrögð ná auðvitað engri átt.

Þá er það einnig í þessu sambandi alveg vítavert að mínum dómi, að kaupgjaldsvísitalan skuli ekki hafa verið birt opinberlega og á venjulegan hátt að þessu sinni. Allur fyrirsláttur um, að það hafi ekki verið búið að ganga frá tilteknu frv. á Alþingi, dugar vitanlega ekki sem fullnægjandi afsökun í þessum efnum. Það var tvímælalaus skylda að reikna út kaupgjaldsvísitöluna miðað við þær aðstæður, sem fyrir voru, og það átti að birta hana, og ég þekki engin dæmi þess, að þannig hafi verið haldið á þessum málum áður. Það virðist því allt bera hér að einum brunni, að hæstv. ríkisstj. hafi ætlað sér að koma því fram, að hvað svo sem lög og reglur segðu bæði varðandi útreikninga á kaupgjaldsvísitölu og eins um það, hvernig aðilar í landinu skyldu yfirleitt standa að því að borga laun, þá skyldi þetta gert aðeins samkv. hennar tilskipunum, jafnvel þó að þær fengju ekki staðizt samkv. lögum. Mér þykir ástæða til þess, einmitt þegar frv. varðandi launakjör opinberra starfsmanna liggur hér fyrir nú, þó að það fjalli ekki út af fyrir sig um þetta atriði, sem ég hef gert hér aðallega að umtalsefni, að mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega og benda hæstv. ráðh. á það, að það er veruleg hætta á því, að vinnubrögð eins og þessi muni hefna sín verulega, þegar fram í sækir. Það er vitanlega mikilsvert fyrir ríkið að geta haft bæði gott samstarf við sína samstarfsmenn og geta staðið fast á því, að lög og reglur skuli gilda. Í þessum atriðum ekki síður en öðrum eiga þeir samningar, sem gerðir hafa verið, eða sú niðurstaða, sem fengizt hefur samkv. réttum lagareglum, að standa. Einhliða á ekki að vera hægt að hlaupa frá því. Ég er anzi hræddur um það, að ýmsir aðrir aðilar í landinu heldur en ríkisstj. sjálf hefðu fengið að kenna óþyrmilega á því, ef þeir hefðu haldið þannig á þessum málum, aðilar, sem bundnir hafa verið með undirskrift sinni eða þá af almennum lagaúrskurði um það að eiga að standa að greiðslum á tiltekinn hátt, ég er hræddur um, að þeir hefðu fengið að kenna á því, ef þeir hefðu tekið lagaúrskurðinn sér í hendur og ákveði það að hafa það eftir sínu eigin höfði. En það er einmitt það, sem ríkisstj. hefur gert í þessum efnum, og það er vítavert, og ég vil vona það, að hæstv. ríkisstj. sjái það við nánari athugun, að hún hefur farið hér rangt að og hún á að hverfa frá villu síns vegar í þessum efnum og fara eftir settum lögum og reglum.