24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

159. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Frv. er eins og fram kemur í grg. þess flutt í samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og sú breyting, sem fram kemur í því á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er aðallega í því fólgin, að uppsagnarfrestur skal vera nokkru skemmri en áður hefur verið ákveðið, og einnig, að ekki skuli uppsögn samninga vera háð úrslitum allsherjaratkvgr., heldur verði viðhöfð sú regla, að ef hvorugur aðila óskar þess, að uppsögn samninga fari í allsherjaratkvgr., sé þess ekki þörf, en ef annar hvor aðili óskar þess, skuli hún fram fara. Eins og ég sagði í upphafi er nefndin sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir.