13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

159. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér tvenns konar breyt. á gildandi lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Önnur breyt. er þess efnis, að það er styttur uppsagnarfrestur kjarasamnings, það er gert ráð fyrir því, eins og lögin eru nú. að hann sé a.m.k. 7 mán., en samkv. frv. er lagt til, að hann verði 4 mán. Þetta byggist á því, að undanfarin ár hefur reyndin orðið sú, að þetta hefur í öllum tilfellum reynzt óframkvæmanlegt og verið með sérstökum lögum veittar heimildir til þess að veita undanþágur frá þessum frestum, vegna þess að kröfugerð opinberra starfsmanna hefur alls ekki getað orðið til það löngu áður en málið skyldi taka enda, svo sem lögin hafa gert ráð fyrir. Og það hefur reynzt ákaflega erfitt yfir hásumarið að standa í þessum samningum, þannig að yfirleitt hefur þeim verið frestað til haustsins og frestir allir þannig styttir. Það sýnist ekki vera nein ástæða til annars en að beygja sig fyrir þessari reynslu, hún hefur á engan hátt skapað vandræði og því rétt að leggjá til, að þetta verði heimilað sem almenn regla.

Í annan stað er lagt til að breyta því ákvæði, sem nú er í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að það er skylda, eins og lögin eru nú, að fram fari almenn atkvæðagreiðsla um það, hvort samningum sé sagt upp eða ekki. Þetta hefur haft í för með sér bæði mikla fyrirhöfn og mikinn kostnað fyrir bandalagið og hefur í rauninni ekki haft mikla raunhæfa þýðingu. Kjarasamningar eiga lögum samkv. að gilda vissan tíma, og það hefur hingað til verið venjan að segja þeim upp, þegar gildistími þeirra hefur verið útrunninn. Vitanlega er það í fljótu bragði óeðlilegt að hverfa til þess að veita stjórn félags rétt til þess að ákveða um uppsögn samninga, vegna þess að ég hygg, að það sé vaxandi skoðun, að það eigi að þrengja uppsagnarrétt kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði, en ég held, að sú till., eins og hún hljóðar hér, geti ekki skapað neitt fordæmi, enda mundi hún vafalaust verða samþykkt á hinum almenna vinnumarkaði af báðum aðilum þar, því að það er gert ráð fyrir því í till., eins og hún er hér í þessu frv. að annars vegar þurfi að koma til allsherjarsamkomulag í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og í hinn staðinn þá geti vinnuveitandinn, í þessu tilfelli fjmrh., krafizt allsherjaratkvæðagreiðslu, ef hann hefur ástæðu til að halda, að stjórn bandalagsins og ákvörðun hennar sé ekki í samræmi við vilja ríkisstarfsmanna almennt. Ég held því, ef þessi regla, sem hér er lagt til, að sé tekin upp, verði almennt tekin upp, þá mundi það koma í veg fyrir allan ágreining um það, hvort væri verið að segja upp samningum án þess að fyrir því væri almennt fylgi.

Frv. er flutt sem samkomulagsmál milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrn., og vil ég því leyfa mér að vonast til, að það geti fengið hér afgreiðslu áður en þingi lýkur, þó stutt sé til þingslita, að þá sjái hv. nefnd sér fært að afgreiða málið. Það er búið að liggja lengi til meðferðar í Nd., en ástæðan til þess, að það var svo lengi þar til meðferðar, var ekki ágreiningur um málið sjálft, heldur hitt, sem er rétt að segja hér frá til að útskýra þann frest, að það voru raddir uppi um það frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, að gerð yrði breyt. á l., sem heimilaði Sambandi ísl. sveitarfélaga samaðild í sambandi við kjarasamningagerð, en nú er svo ástatt, að hver sveitarstjórn út af fyrir sig er gagnaðili starfsmanna sinna í þessum samningum. Það hefur hins vegar ekki tekizt, þrátt fyrir langa bið, að ná saman endum með samkomulag milli Sambands ísl. sveitarfélaga og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, ekki einu sinni sveitarstjórnastarfsmannahluta þessara samtaka, svo ég noti langt orð, og það hefur leitt til þess, að það þótti ekki fært að bíða lengur með þetta mál, vegna þess að frv. eins og það liggur fyrir hér verður að afgreiða, til að ekki skapist algjört vandræðaástand við samningana í haust. Ég hef getið hér möguleika á að bíða eftir frekari hugleiðingum eða frekari könnun á því, hvort samkomulag gæti orðið milli BSRB og Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta atriði, og tel ekki líklegt, að það geti heldur orðið — ég hefði að vísu ekkert á móti því, að það væri athugað í hv. n. þessarar d. — mér þykir það ólíklegt, úr því að það tókst ekki í Nd. eftir langa skoðun málsins, og vildi því leyfa mér að leggja til, að hv. n. reyndi að afgreiða málið frá sér þannig, að það geti fengið afgreiðslu í því formi, sem það er nú, og það verði þá aftur tekið upp síðar, hvort hægt er að ná samkomulagi um þá skipan mála varðandi sveitarfélögin, sem ég gat um, sem ég er persónulega sammála um, að væri æskilegt. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.