14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í apríl 1967 samþykkti Alþ. nýja löggjöf um skólakostnað, þ.e.a.s. um greiðslu kostnaðar við byggingu skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Meðal nýmæla í þeirri löggjöf var það, að framlög ríkisins til nýrra skólamannvirkja skyldu skiptast í tveggja til þriggja ára greiðslutímabil vegna hverrar framkvæmdar, en í eldri lögum voru ákvæði um það, að fjárveitingar ríkisins skyldu greiðast á 5 árum. Var tilætlunin, að þessi nýja skipan tæki gildi um næstu áramót, þ.e.a.s. fjárveitingar til nýrra skólamannvirkja í fjárlögum fyrir árið 1969 skyldu miðaðar við þriggja ára tímabil. Við meðferð fjárlagafrv. í fjvn. og ríkisstj. hefur sú skoðun orðið ofan á, að það væri of skyndileg breyting að lækka greiðslutímabil ríkissjóðs úr 5 árum niður í 3 ár. Þess vegna hefur þetta frv. verið flutt, en í því er gert ráð fyrir því, að á árinu 1969 skuli framlög til skólamannvirkja skiptast á fjögurra ára greiðslutímabil. M.ö.o., það er gert ráð fyrir því, að framkvæmd ákvæða stofnkostnaðarákvæða í nýju skólakostnaðarlögunum að þessu leyti skuli ekki koma til framkvæmda skyndilega á einu ári, heldur skuli vera eins árs millibil, þar sem greiðslutímabilið sé 4 ár. Til fullra framkvæmda að þessu leyti mundu því skólakostnaðarlögin koma 1. janúar 1970. Þetta er efni þess einfalda frv., sem hér er flutt.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.