02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á I. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins hefur verið til athugunar í hv. sjútvn. N. leitaði umsagnar um málið hjá stjórn sjóðsins, en fékk einnig álit frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Báðir þessir aðilar mæla gegn samþykkt frv. og telja, að sjóðurinn megi ekki við þeirri tekjuskerðingu, sem í frv. felst.

Um tekjur aflatryggingasjóðs er það að segja, að allt frá því að aflatryggingasjóður var stofnaður og til ársins 1962 var framlag ríkissjóðs jafnt þeim tekjum, sem útvegurinn greiddi með útflutningsgjöldum, en á árinu 1967 var framlag ríkisins lækkað hins vegar.

Varðandi framlag ríkissjóðs til aflatryggingasjóðs samkv. þessu frv. er um það að ræða að koma á samræmi við það, sem ákveðið var, þegar fjárlög yfirstandandi árs voru samþ. Sjútvn. var það ljóst, að með þeirri tekjuskerðingu, sem hér um ræðir, gæti svo farið, að aflatryggingasjóður yrði ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar eftir sömu reglum og gilt hafa um bótagreiðslur úr sjóðnum á undanförnum árum. Eins og fram kemur í nál., taldi sjútvn. rétt að gera hæstv. fjmrh. grein fyrir þessari skoðun n. Í viðtali, sem nm. áttu við hæstv. fjmrh., gaf hann n. svohljóðandi yfirlýsingu:

Ríkisstj. mun sjá svo um, að ef til þess kemur, að aflatryggingasjóð skorti fé til þess, að greiðslur úr sjóðnum geti farið fram eftir sömu bótareglum og giltu á s.l. ári, þá mun sjóðnum verða séð fyrir því fjármagni, sem af skerðingunni leiðir eða á kann að vanta.“

Um II. kafla frv., sem er um greiðslu á fæðiskostnaði sjómanna, er það að segja, að efni kaflans er í samræmi við samkomulag, sem gert var við sjómenn, þ.e. undirmenn á bátaflotanum, þegar samningar um kjör þeirra tókust 12. febr. s.l. Hér er því verið að fullnægja því samkomulagi. Með hliðsjón af því, að svo kann að fara, að í ljós komi, eins og ég áður sagði, að aflatryggingasjóður þoli ekki til frambúðar þá tekjuskerðingu, sem í þessu frv. felst, telur sjútvn. ekki fært að binda þetta ákvæði l. við lengri tíma en yfirstandandi ár. N. hefur því leyft sér að flytja brtt. við frv., sem bindur þetta ákvæði aðeins við yfirstandandi ár.

Herra forseti. Ég tel að svo mæltu ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur, og því síðan vísað til 3. umr.