13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Sjútvn. var ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég, sem skipa minni hl., er andvígur í rauninni báðum þeim meginbreytingum, sem í frv. felast. Það má segja, að það séu fyrst og fremst tvær breytingar, sem felast í þessu frv. frá gildandi l. um aflatryggingasjóð.

Fyrra atriðið varðar framlag ríkissjóðs til þessa tryggingasjóðs sjávarútvegsins, en samkvæmt l. um aflatryggingasjóð var gengið út frá því, að ríkið legði sjóðnum til jafnmikið framlag á hverju ári eins og tekjur sjóðsins eru af útflutningsgjaldi. Þegar rétt þótti að hefja nokkurn sparnað hjá ríkinu á s.l. ári, var einna fyrst gripið til þess að lækka þetta framlag ríkisins til þessa tryggingasjóðs, og þá var framlagið fært niður í 1/3 úr 1/2. En nú er hér á ferðinni frv. um það að lækka þetta framlag enn, úr einum þriðja í einn fjórða. Ég er algjörlega mótfallinn þessu, tel, að þetta tryggingakerfi, sem þarna hefur verið byggt upp og það á þann hátt, sem gert var ráð fyrir í l., það eigi rétt á sér, sé mjög nauðsynlegt í mörgum tilfellum og ríkið eigi að standa við þau framlög, sem ráðgerð voru í þessum efnum í upphafi. Það er augljóst að mínum dómi, að með þessu er verið að fikra sig í þá áttina að láta aðeins sjómenn og útvegsmenn standa eina undir þessu tryggingakerfi, að það skuli aðeins afla fjár í tryggingakerfið með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, en ríkið er að reyna að skjóta sér undan þeim skyldum, sem á því hvíla í sambandi við þetta tryggingakerfi. Ég tel, að þessi stefna sé röng og það beri að draga úr útgjöldum ríkissjóðs fyrr á ýmsum öðrum sviðum en þessu.

Svo er hitt meginatriðið í þessu frv., en það varðar svonefnda áhafnadeild sjómanna á fiskibátum, en þar er gert ráð fyrir, að sett verði á fót við aflatryggingasjóð sérstök deild, sem gefið hefur verið nafnið áhafnadeild, en hlutverk þessarar d. er það, að það á að greiða úr henni nokkurn hluta af fæðiskostnaði sjómanna. Og til þess að afla fjár í þessu skyni er ákveðið að hækka útflutningsgjöldin á sjávarvörum enn einu sinni um 1%, og voru þó, að ég ætla, flestir orðnir undrandi á því, hvað útflutningsgjöldin væru orðin há hér. Nú þykir sem sagt rétt að fara þá leið að hækka útflutningsgjöldin og afla þannig sennilega tekna í þessa deild, sem nema 70–80 millj. kr. á ári, og síðan á að greiða hluta af fæðiskostnaði sjómanna úr þessari svonefndu áhafnadeild. Þannig á þá að standa að þessu, um leið og allir sjómenn, sem fiskveiðar stunda, eru á þennan hátt skattlagðir í þennan sjóð, því að útflutningsgjaldið á sjávarafurðir þýðir það, að í reyndinni verður fiskverðið á hinum innlenda markaði lækkað sem þessu nemur — þá er þannig staðið að þessu máli; að þó að allir fiskimenn séu með þessu móti skattlagðir í þennan sjóð, eru nokkrir þeirra undanskildir og eiga ekki að geta fengið neinar greiðslur úr þessum sjóði. Þannig eru bótagreiðslur úr sjóðnum upp í fæðiskostnað bundnar við það, að hér sé um svonefnda lögskráningarskylda sjómenn að ræða, þ.e.a.s. þar er aðeins átt við þá sjómenn, sem eru á fiskibátum, sem eru 12 rúmlestir eða stærri. Allir aðrir fiskimenn, sem vinna að því að framleiða fisk hér í landinu, sem starfa á minni bátum, undir 12 rúmlestum, en þeir eru mjög margir allt í kringum landið, verða skattlagðir í þennan fæðiskostnaðarsjóð, sem síðan á aðeins að þjóna hagsmunum hinna stærri báta. Þannig er verið að leggja skatt á alla smábátamenn í landinu til þess að standa undir þessum greiðslum. Þetta tel ég alveg ósæmilegt og hef því flutt brtt. um það, sem er að mínum dómi algert lágmark í þessum efnum, að greiðslur úr þessum sjóði skuli geta runnið jafnt til allra starfandi fiskimanna á bátaflotanum í landinu. Það eru engin vandkvæði að koma því fyrir að færa sönnur á það í þessu tilfelli eins og öðrum hjá aflatryggingasjóði, að sjómennirnir á hinum minni bátum hafi raunverulega stundað fiskveiðar. Minni bátarnir hafa rétt til þess að fá bætur úr aflatryggingasjóði. Þeim er gert að skyldu að leggja fram vottorð frá viðkomandi bæjarfógeta eða sýslumanni um það, að greidd hafi verið tryggingagjöld í sambandi við rekstur bátsins, eins vottorð frá fiskkaupanda um það, að afli hafi verið lagður á land, og þannig er gengið úr skugga um það, hve langan tíma báturinn hefur stundað veiðar, sem sagt nákvæmlega sami háttur hafður á um þessa minni báta og þá, sem eru yfir 12 rúmlestir að stærð. Ég tel því, að það sé nauðsynlegt að breyta frv. á þá lund, að skýrt sé tekið fram, að greiðslur upp í fæðiskostnað geti allir starfandi sjómenn á fiskibátum fengið, hvort sem þeir eru á hinum smærri bátum eða hinum stærri. Það er augljóst, að þeir eru allir skattlagðir í sjóðinn, verða að standa undir tekjum sjóðsins, og þeir eiga allir að hafa sama rétt til greiðslu úr sjóðnum. Varðandi allar útskýringar um það, að þessi fæðiskostnaður sé mjög mismunandi, — auðvitað er hann það, hann er það líka á stóru bátunum, — þá hafa minni bátarnir enga sérstöðu. Í mjög mörgum tilfellum hagar útgerð orðið þannig hjá okkur, að bátar, sem eru undir 12 rúmlestum að stærð, verða að vera fjarri heimahöfn sinni í marga daga í einu, þeir fara í fiskitúra meðfram landinu og verða því að halda uppi sínum fæðiskostnaði þar alveg eins óg stærri bátarnir í ýmsum tilfellum. Sömuleiðis er það, að enn sjávarútvegsins. tíðkast það víða við landið, að hinir stærri bátar róa úr heimahöfn og menn hafa sinn fæðiskostnað þar að verulegu leyti heima, en fara hins vegar með nesti með sér eftir gömlu lagi í hvern einstakan róður, svo að í þessu efni hafa stóru bátarnir enga sérstöðu. Ég legg áherzlu á það, að þessu verði breytt, og ég trúi því varla, fyrr en ég tek á því, að það sé í rauninni full alvara þeirra, sem standa að flutningi þessa frv., að knýja fram þetta óréttlæti, að skattleggja sjómenn á hinum minnstu fiskibátum við landið til þess að standa undir fæðiskostnaði á stærri bátunum. Slíkt er algerlega til vansæmdar.

Þá vil ég einnig segja það í sambandi við þennan fæðiskostnaðarsjóð, að ég er í grundvallaratriðum algerlega ósamþykkur þessu fyrirkomulagi, tel, að hér sé verið að stefna út í mestu ófæru. Ég er hreint ekki á þeirri skoðun, að þeir aðilar, sem gera út fiskibáta í landinu, eigi að borga fæðiskostnað í réttu hlutfalli við það aflamagn, sem þeir draga á land. Ég get ekki séð fyrir mitt leyti nokkra sanngirni í því, að sá mikli aflabátur, sem nú hefur verið í fréttum að undanförnu, frá Vestmannaeyjum, sem dró á land á vertíðinni 1650 rúmlestir, eigi að borga helmingi hærri fæðiskostnað en aðrir bátar yfirleitt í landinu, en það verður hann að gera með þessu fyrirkomulagi. Ég tel, að fæðiskostnaður á bátum eigi að skoðast eins og hver annar útgjaldaliður í rekstrinum. Útgerðarmennirnir verða að glíma við þennan rekstrarlið eins og hvern annan, rétt eins og olíukostnað, beitukostnað, veiðarfærakostnað, og þar verða þeir að njóta þess, sem halda vel á, sem kunna vel með málin að fara, þeir eiga að njóta þess. En hitt, að ætla að steypa svona kostnaðarliðum öllum saman í einn allsherjarsjóð, sem nær yfir allt landið og aðilar geta síðan á eftir gert kröfu til, það er ég viss um að leiðir út í öngþveiti, svipað öngþveiti og það, sem við glímum nú við í sambandi við vátryggingarkostnað bátanna í landinu. Það er enginn vafi á því, að strax á fyrsta ári munu koma upp kröfur frá útgerðarmönnum og sjómönnum um frekari greiðslur í þessum efnum. Sjómennirnir gera að sjálfsögðu áframhaldandi kröfur um það að fá meira greitt upp í fæðiskostnaðinn en samþ. hefur verið á þessu stigi málsins, og útgerðarmennirnir segja þá, a.m.k. ýmsir þeirra: Þá verður bara að auka við tekjur þessa stóra sjóðs, sem á að borga fæðiskostnaðinn. Það verður einhver að leggja meiri peninga í sjóðinn, alveg eins og gert var við vátryggingarsjóðinn. Það verður að hækka útflutningsgjaldið, eða það verður að afla fjár með einhverjum hætti. Og þannig er ég ákaflega hræddur um, að það verði lítil stjórn á fæðiskostnaðinum á flotanum, þegar tímar líða, þegar menn fara að greiða kostnaðinn að verulegu leyti úr sameiginlegum sjóði.

Ég þykist vita, að þeir, sem að þessu frv. standa, beri því við, að þetta hafi verið hálfgerður nauðungarsamningur í verkfalli, í deilu. Útgerðarmenn hafi ekki fengizt til þess að greiða þennan hluta af fæðiskostnaðinum, sem hér um ræðir, en sjómennirnir hafi hins vegar staðið fast á þessari kröfu og því hafi út úr neyð verið fundin þessi leið til þess að leysa deiluna. En það á ekki að leysa svona deilur með því að taka upp alranga stefnu, sem felur í sér mikla hættu og stóraukin útgjöld, vaxandi erfiðleika í sama máli á komandi árum. Á meðan við stöndum þannig að þessum málum, að hér er um einkarekstrarfyrirkomulag á bátaflotanum og fiskiskipunum að ræða, það eru ákveðin útgerðarfélög og það eru ákveðnir útgerðarmenn, sem eiga bátana, þá verða þessir aðilar vitanlega að koma fram eins og eiginlegir eigendur og standa og falla með sínum rekstri, glíma við sín útgjöld og reyna að sjá um sínar tekjur. En að ætla að koma meira og meira af rekstrarútgjöldunum í einhverja sameiginlega „púlíu“, sem nær yfir allt landið og einhver allt annar aðili á að leggja fé í, og þannig eigi að greiða ýmsa útgjaldaliði úr einhverjum sameiginlegum sjóði, það er alveg forkastanleg aðferð að mínum dómi. Og það ber að snúa við af þessari braut, en fikra sig ekki lengra eftir henni, eins og þetta frv. ber með sér.

Eins og ég hef tekið fram, er ég raunverulega andvígur báðum þessum aðalbreyt., sem í frv. felast. Ég er algjörlega andvígur því að lækka framlag ríkissjóðs til aflatryggingasjóðs. Það getur ekki leitt til neins annars en þess, að í reyndinni verður það svo, að bótagreiðslur sjóðsins verða ekki í hlutfalli við það, sem til var ætlazt. Það fer auðvitað inn á þá braut, þegar sjóðinn skortir fé, að þá verður dregið úr bótagreiðslum, af því að það er alveg opið hjá stjórn sjóðsins, hvernig hún bætir í hverju tilfelli, hvað hún verðleggur bótareglurnar hátt hverju sinni. Ég er alveg á móti því að draga úr þessum bótagreiðslum og á móti því, að ríkið geti skotið sér undan að standa undir þessu tryggingakerfi, sem þarna hefur verið komið upp. Svo hef ég lýst afstöðu minni til þessa fæðiskostnaðarsjóðs, en þar tel ég þó algert lágmark vera, að brtt. mín, sem er á þskj. 689, verði samþ., en með henni yrði þó tryggt, að sjómenn á fiskibátum, sem skattlagðir eru í þennan fæðiskostnaðarsjóð, geti allir átt sams konar rétt á því að fá bætur upp í sinn fæðiskostnað úr þessum sjóði, en það sé ekki staðið þannig að málinu að skattleggja þá, sem sízt skyldi, sjómennina á minnstu bátunum, þá fátækustu og þá, sem búa í flestum greinum við erfiðust kjör, að það sé ekki staðið þannig að málinu að skattleggja þá til þess að standa undir fæðiskostnaði á stærstu og fullkomnustu bátunum. Það er að mínum dómi alveg ósæmilegt. Því vænti ég þess, að þessi brtt. mín verði samþ. við frv. sem algert lágmark.