16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál gat ég þess, að sjútvn. hv. d. hefðu borizt erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, frá Sjómannasambandi Íslands og enn fremur frá Efnahagsstofnuninni, þar sem upplýst var, að í samningum um kaup og kjör á bátum hefði verið gengið út frá því, að greiðsla á fæðiskostnaði næði ekki aðeins til áhafnarmeðlima, sem lögskráðir væru, heldur einnig til hlutaráðinna landmanna á línubátum. Ég boðaði þá við 2. umr., að sjútvn. mundi taka þessar aths. til athugunar milli umr. Ég hef rætt við nokkra einstaka menn úr n., en ekki náð henni allri saman, en þeir nm., sem ég hefi talað við, eru því ekki andvígir, að sú breyting, sem farið er fram á í þessum erindum, verði gerð á frv. Ég leyfi mér þess vegna að flytja skrifl. brtt. við 3. gr. frv. á þá leið, að í 17. gr. l. á eftir orðunum „lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum“ komi: og hlutaráðinna landmanna á línubátum, sem lögskráð er á, sem hér segir, o.s.frv. Þessi brtt. er of seint fram komin og skriflega flutt, og verð ég því að fara fram á við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir henni.