16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Vegna undirtekta hv. 5. landsk. hygg ég, að óhjákvæmilegt sé að leiða nokkur vitni í málinu, og vil ég þá, með yðar leyfi, láta þau koma fram hvert af öðru.

Fyrst er hér bréf frá Efnahagsstofnuninni, undirritað af Jónasi H. Haralz, sem segir m.a.: „Í janúar og febrúar s.l. tók ég fyrir hönd ríkisstj. þátt í viðræðum við fulltrúa sjómanna í kjaradeilunni um fyrirkomulag hugsanlegrar greiðslu á hluta af fæðiskostnaði bátasjómanna úr aflatryggingasjóði sjávarútvegsins. Við þessar umr. var það skilningur beggja aðila, að greiðsla hluta fæðiskostnaðar, ef til kæmi, næði til hlutaráðinna landmanna á línubátum auk lögskráningarskyldra sjómanna.“ Þarna talaði vitni hæstv. ríkisstj.

Þá leiði ég sem næsta vitni Landssamband ísl. útvegsmanna og les nokkurn kafla úr bréfi þess: „Í ljós hefur komið, að ákvæði fyrrgreinds frv. er ekki að öllu leyti í samræmi við þann samning, sem sjómenn telja sig hafa gert við hæstv. ríkisstj. um greiðslu fæðiskostnaðar. Hafa þeir gert ráð fyrir, að hlutaráðnir landmenn fái einnig greitt fæði til jafns við sjómenn, þótt þeir væru ekki lögskráningarskyldir. Hefur þetta atriði verið staðfest af fulltrúa Efnahagsstofnunarinnar, sem þátt tók í umr. við sjómannasamtökin um greiðslu fæðiskostnaðar. Með tilliti til þess, að oss er nauðsynlegt að vita nú þegar, vegna hverra starfsmanna útvegsmanna eigi að reikna fæðisstyrk, förum vér þess á leit við hið háa ráðuneyti, að það beiti sér fyrir því við hið háa Alþingi, að breytt verði ákvörðunum væntanlegrar 17. gr. l. um aflatryggingasjóð á þann veg, að auk lögskráningarskyldra sjómanna verði hlutaráðnum landmönnum greiddur hluti af fæðiskostnaði á sama hátt og sjómönnum.“

Þarna var vitnisburður og áskorun L.Í.Ú. Þá er loks þriðja vitnið, Sjómannasamband Íslands, bréf undirritað af Jóni Sigurðssyni. Þar segir meðal annars:

„Í ljós hefur komið, að ákvæði fyrrgreinds frv. er ekki að fullu í samræmi við þann samning, er við gerðum um greiðslu fæðiskostnaðar, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að hlutaráðnir landmenn fái þessa greiðslu. Í 21. gr. kjarasamninganna segir svo í síðustu málsgrein: Hlutaráðnir menn, sem vinna við skipið í landi, skulu njóta allra sömu réttinda sem lögskráðir menn hafa, svo sem varðandi rétt til sjóveðs o.fl.“ Þar lýkur þeirri tilvitnun í greinina. „Tekið skal fram, að þegar áætlaður var af hálfu Efnahagsstofnunarinnar fjöldi úthaldsdaga og hlutarmanna, voru þessir menn teknir með í dæmið.“

Þá lýkur þessum tilvitnunum mínum, og ég vil taka fram, að ég legg sérstaklega mikið upp úr þessari síðustu mgr. í bréfi Sjómannasambandsins. Mér finnst því, að ekki leiki nokkur vafi á því, hver tilætlunin var hjá þeim mönnum, sem að þessari samningagerð stóðu. Þeir höfðu allir ætlað sér að hafa þessa menn með. Hitt er annað mál, að þeir undirskrifuðu samning annars efnis, og þá er það okkar að segja, hvort við viljum hengja okkur í hið undirskrifaða orðalag eða leyfa þeim aðilum, sem að samningsgerðinni stóðu, að eiga, eins og í máltækinu segir, leiðréttingu orða sinna, láta leiðrétta þá villu, sem komizt hefur inn í samkomulagið. Mér fyrir mitt leyti finnst, eins og í pottinn er búið, vera sjálfsagt að verða við þessum tilmælum og ítreka því tilmæli mín til hv. d. um að samþ. frv.