16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég tel, að þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Nd., skjóti nokkuð skökku við þær hugmyndir, sem menn höfðu um þennan samning áður og töldu sig hafa skriflega fyrirliggjandi. Um það geta ekki snúizt deilur á þessu stigi málsins, því að þær eru sá mismunur, er skjalfestur var upphaflega með frv. Eins það, hvort við álítum, að sjómenn eigi að bera meira úr býtum en þeir, sem eru í landi við bátinn, kemur ekki heldur til þess að ráða úrslitum hér um þetta atriði. Það, sem úrslitum ræður að mínu viti, eru þær umsagnir eða það álit, sem hv. 4. þm. Reykn. las hér áðan, um, að allir hlutaðeigandi aðilar að þessu samkomulagi telja, að eins og frv. var úr garði gert, þó að það væri á grundvelli þessa samnings, þá sé það brot á þessu samkomulagi, og telja, þrátt fyrir það, að það hafi ekki verið réttilega skráð, að þeir séu hlunnfarnir, ef þetta nýja ákvæði, sem í Nd. var bætt inn í, verði ekki fest í frv.

Með hliðsjón af þessu tel ég einsýnt, að við eigum á milli þess að velja að halda okkur við bókstafinn og þar með ganga í berhögg við alla þá aðila, sem að samningaborðinu komu, eða samþykkja það, sem þeir eru sammála um að hafi verið þeirra meining, þó að hún hafi ekki verið skráð eins og um var talað.

Ég tel því, að það fari ekki á milli mála, að við komumst ekki hjá því að staðfesta það samkomulag, sem raunverulega var gert, alveg án tillits til þess, hvað af því var réttilega skráð. Ég, eins og ég sagði í upphafi, ætla ekki að fara út í þá sálma að vega hér og meta launatekjur sjómanna og landmanna. Ég hef áður ekki farið dult með það, að ég tel, að sjómenn eigi að bera þar meira úr býtum vegna sinna fjarvista og þeirra ódrýginda, sem þeir hafa að öðru leyti af þeim sökum. En það álit mitt haggar ekki þeirri staðreynd, að við munum rifta því samkomulagi, ef við höldum okkur við okkar upphaflegu afstöðu, og ég álít þvi, að við eigum að beygja okkur fyrir þeim staðreyndum, sem liggja fyrir. Þarna hafa orðið einhver mistök á við sjálfa skráningu samningsins, að staðfesta samkomulagið. Þess vegna ber okkur að samþykkja frv. eins og það er nú.