17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. sagði, að þetta frv. væri mjög einfalt í sniðum. Efni þess væri mjög einfalt. Þetta er rétt. En þetta var því miður það eina, bókstaflega það eina, sem rétt var í ræðu hans. Þótt frv. sé einfalt í sniðum, hefur honum samt tekizt að misskilja bókstaflega öll atriði frv. og það held ég, að sé alveg einsdæmi um ræðuflutning hér á hinu háa Alþ., og skal nú sýna fram á það, að þessi staðhæfing, þó að mjög óvenjuleg og undarleg sé, er rétt.

Hv. þm. sagði, að ákvæði frv. hefðu áhrif á fjárveitingar til þeirra skóla, sem byrjað er á. Þetta er alrangt og það kemur greinilega fram í frv., ef hann vill lesa það aftur, að þetta er rétt, sem ég segi. Frv. hefur eingöngu áhrif á greiðsluskyldu ríkissjóðs gagnvart þeim skólum, sem byrjað verður á 1969. Þetta er fyrsta atriðið.

Þá sagði hann, að samkv. frv. mundu framlög eiga að minnka til nýrra skóla frá því, sem ella hefði verið. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 12 millj. kr. fjárveitingu til nýrra skóla. Það er sama upphæð og var í frv. í fyrra. Samkv. brtt. meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir 33.1 millj. kr. fjárveitingu til nýrra skóla. Það liggur við, að það sé þreföldun á því fé, sem gert er ráð fyrir, að gangi til nýrra skóla á árinu 1969, miðað við tölur fjárlagafrv. Þetta hefði þm. átt að geta kynnt sér, ef hann hefði haft nokkurn áhuga á því að segja satt, þegar hann hélt þessa ræðu sína.

Þá sagði hv. þm., að þetta mundi hafa þau áhrif, að færri skólar yrðu byggðir heldur en ella hefði átt sér stað, og þetta var þriðja aðalatriðið í hans ræðu. Þessu er í raun og veru svarað með því, sem ég sagði áðan. En þessu til viðbótar vildi ég geta þess, sem hv. þm. ætti að vera kunnugt, að afgreiðsla fjárlaga eða meðferð þeirra í fjvn. fer þannig fram, að rætt er um það, hvaða heildarfjárveiting skuli ganga til helztu liðanna. Það var um það rætt, hversu miklu væri hægt að ráðstafa af takmörkuðum tekjum ríkissjóðs til nýrra skólabygginga. Hitt er reikningsdæmi, hversu mikið þarf að ganga til gömlu skólabygginganna. Þar stendur ríkið auðvitað við sínar skuldbindingar, greiðir sinn kostnaðarhluta á 5 árum samkv. upphaflegum áætlunum og kostnaðarhækkanir, sem orðið hafa frá því, að þær voru gerðar, á þremur árum. Sá hluti fjárl., að því er skólabyggingarnar varðar, er reikningsdæmi og það reikningsdæmi er áreiðanlega rétt reiknað í því fjárlagafrv. eins og það liggur núna fyrir eftir 2. umr.

Spurningin er um það, hversu miklu á að verja til nýrra skóla. Þegar ríkisstj. samdi fjárlagafrv. í haust, tók hún þá ákvörðun að hafa sömu tölu til nýrra skóla og var í fjárlagafrv. í fyrra, þ.e.a.s. 12 millj. kr., og ætlaði Alþ. að taka ákvörðun um það, hver endanleg tala skyldi verða. Og niðurstaða fjvn. varð sú — og fyrir það er ég henni mjög þakklátur, því að mér finnst n. hafa sýnt mikinn skilning á því, að stóraukið fé er nauðsynlegt til nýrra skólabygginga — n. ákvað, að hún skyldi fallast á, að notaðar yrðu 33.1 millj. kr. í nýjar skólabyggingar á árinu 1969. Ég skal ekki aðeins bera saman við tölu fjárlagafrv. eins og kom frá stjórninni í haust, sem var bara bráðabirgðatala, þinginu var síðan ætlað að fjalla um þetta. Stundum tala menn um það, að þingið hafi engin áhrif og því sé ekki ætlað nokkurt verk. Það er svo fjarri því, að það sé, að því er skólabyggingarnar varðar. Það er einmitt þingið, sem alltaf er látið taka endanlega ákvörðun um það, í hvað skuli lagt af nýjum skólum. Hitt er verkefni menntmrn. og þess starfsmanna að reikna út, hvað þurfi til þess að halda áfram gömlum skólum samkv. gildandi lögum. En þingið hefur alveg síðan ég kom í mitt núverandi starf alltaf ákveðið endanlega þá tölu, sem fara skyldi til nýrra skóla. Og nú er ákvörðun þingsins þessar 33.1 millj. kr. Ef við berum þetta saman við meðaltal þriggja síðustu ára við nýjar skólabyggingar, er það 16.7 millj. kr. Á árunum 1966, 1967 og 1968 voru að meðaltali veittar á hverju ári 16.7 millj. kr. til nýrra skóla og það er hærri tala en meðaltal þriggja eða tíu áranna á undan, að ég nú ekki tali um fjárveitingar til nýrra skóla á tímum stjórnar Hermanns Jónassonar, jafnvel þó að reiknað sé með breytingum á byggingarvísitölu og skal ég gjarnan upplýsa það, ef ég nenni að hrella hv. þm. meira heldur en orðið er með þessu. (SE: Hver var menntmrh. þá?) Hann var sá sami, en fjmrh. var Eysteinn Jónsson og það gerði allan muninn.

Sem sagt, fjárveitingar til nýrra skóla eru svo að segja nákvæmlega tvöfalt hærri 1969 en þær voru að meðaltali s.l. 3 ár. Og samt getur hv. þm. haldið ræðu í þá átt, að þetta frv., sem hér er um að ræða, þýði það, að það sé verið að draga úr fjárveitingum til nýrra skóla.

Þegar mér var gert kunnugt um þessa niðurstöðu hv. fjvn., sem ég veit ekki betur en hún hafi verið sammála um, ég vona það a.m.k., því að ég get gjarnan unnt stjórnarandstöðunni þess að eiga þátt í þeim heiðri, sem þessi ákvörðun ber vott um. Svo illa er mér ekki við stjórnarandstöðuna, að hún megi ekki gjarnan njóta heiðurs af því að hafa tvöfaldað framlög til nýrra skólabygginga á árinu 1969 miðað við meðaltal þriggja s.l. ára. En þegar ég hafði séð þessa ákvörðun, kom til minna kasta sem embættismanns að hafa hönd í bagga um, hvernig þessu fé skyldi ráðstafað. Og þá komst ég að raun um það og mínir embættismenn og þeir trúnaðarmenn í n., sem sérstaklega um þetta fjalla, að ef þriggja ára reglan yrði látin gilda strax á árinu 1969, yrði byrjað á færri nýjum skólum en nákvæm athugun sýndi, að æskilegt væri. Þess vegna var um tvennt að ræða. Sumir sögðu: Við skulum láta nýju skólakostnaðarlögin gilda. Það er heilbrigður andi í þeim, miðað við það að ljúka byggingunum á skemmri tíma heldur en ella, en þá komast mjög fáir skólar að. Munurinn, þar sem um er að ræða að ráðstafa þessum 33.1 millj. kr. á næsta ári, er ákveðin tala, sem þingið hefur ákveðið af miklu veglyndi, að því er ég tel. Spurningin var eingöngu um það: Á að byggja marga skóla, mjög marga skóla? Á að byggja mjög fáa skóla — eða á að fara milliveg? Og reynslan sýndi, að það var hægt að ná, að ég held, samkomulagi. Mér kemur það alveg á óvart, ef ég stend í rangri trú um það. Það var hægt að ná samkomulagi í fjvn. hjá þeim mönnum, sem eitthvað fjalla um skólabyggingarnar, og hægt var að taka tillit til allra skynsamlegra og rökstuddra óska, ef þessi meðalvegur væri farinn að fara inn á fjögurra ára regluna. Hún þýðir þá það eitt, að það er byrjað á fleiri skólum á næsta ári en ef nýju skólakostnaðarlögin hefðu verið komin til framkvæmda á árinu 1969 strax. Þýðing frv. er m.ö.o. sú — og það er síðasta kórvillan, sem ég varð að leiðrétta hjá hv. þm. — þýðingin er sú, að það er byrjað á fleiri skólum en ella mundi hafa átt sér stað og ég hygg, að ég gæti auðveldlega sýnt fram á, ef ég nennti að standa í frekara stappi við hann, að nýr skólakostnaður mundi bitna á þeim skólaframkvæmdum, sem hann og hans flokksmenn hafa sérstakan áhuga á, þannig að breytingin er gerð til þess að koma í gang skólum úti á landi í dreifbýlinu, sem sérstök áherzla hefur verið lögð á að koma í gagnið. Og samt sem áður verður maður að hlusta á skæting hér frá fulltrúa Framsfl. út af þessu. Haldi hann áfram, getur vel verið, að ég endurskoði afstöðu mína við 3. umr. málsins. Það er gott nok, að fulltrúinn í fjvn. óski eftir því að fá fleiri skóla inn heldur en fjárveitingin annars rúmar, og svo verður maður að hlusta á fulltrúa sama flokks hér vera með skæting út af málinu byggðan á algerum misskilningi og algerri fáfræði á eðli málsins og efni málsins.

Að síðustu vildi ég svo taka það fram eða benda á það, sem hann tók auðvitað ekki eftir, en meiri hl. n. auðvitað veit um, að það ákvæði nýju skólakostnaðarlaganna að taka á tillit til væntanlegrar hækkunar byggingarkostnaðar á næsta ári, sem er áætlaður 185%, það helzt. Og þetta var eitt af merkustu nýmælum nýju skólakostnaðarlaganna. Hingað til hefur það aldrei verið gert. Reglan, sem gilt hefur í áratugi hingað til, er sú, að miðað við upphaflegar kostnaðaráætlanir borga þær þann kostnað á 5 árum. Ef kostnaður hækkar á byggingartímanum, hvort sem hann er 3, 4 eða 5 ár, er viðbótin greidd á þremur árum, þannig að raunverulegur greiðslutími hefur verið 8 ár á hlutdeild ríkisins til skólabygginganna. Þessu var líka breytt með nýju skólakostnaðarlögunum, þannig að nú á árlega að taka tillit til þessarar hækkunar, sem verður á byggingarkostnaði vísitölu, og miða greiðslu ríkissjóðs við það. Þetta ákvæði helzt, þó að greiðslutímanum sé breytt á þessu eina ári úr 3 árum í 4 ár. Þetta munar mjög verulegum fjárhæðum. Sem sagt, það er tekið tillit til væntanlegrar 18.5% hækkunar á byggingarkostnaði nýrra skóla á árinu 1969, sem aldrei hefur verið gert áður. Það svo sem er eftir öðru, að þm. líklega hefur ekki vitað þetta, því að hann hefur kynnt sér málið svo illa, þó að hann eigi sæti í n. Þess vegna er rétt að upplýsa þetta til viðbótar.