17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

116. mál, skólakostnaður

Frsm. mínni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég held, að ég verði að byrja á að þakka hæstv. ráðh. fyrir lesturinn. Hann var alveg sérstakur. Ég veit ekki, vegna hvers hann er svona óskaplega viðkvæmur fyrir þessu máli. Það er eins og þetta sé einhver heilög belja, sem ekki má anda á. Ég átta mig ekki á þessu. Hann hafði sitthvað að segja: Ég hefði ekki hugmynd um, hvað stæði í frv., þekkti ekkert inn á þetta og vissi yfirleitt ekki nokkurn hlut, hvað gerðist í fjvn. Ég skal með ánægju játa það, að ég veit ekkert, hvað er að gerast núna í fjvn., því að það er ekki komin fram ein einasta till. um skólamál frá fjvn. Það er ekki von, að ég viti það.

Hann segir, að þetta sé svoleiðis hreinasti misskilningur, að þetta sé nokkur samdráttur á framlögum ríkisins til skólanna á næsta ári. Það er nú eitthvað annað. Ég held, að hann hafi sagt, að nú ætti að leggja til nýrra skólabygginga 33.1 millj. á móti 12 millj., sem hefði verið að meðaltali á þremur s.l. árum. (Menntmrh.: Nei, 16.7.) Einhvers staðar var hann með 12. (Menntmrh.: 12 var í frv.) Það hefur þá ekki verið burðugt þetta frv. Það getur vel verið, að frv. hafi verið svona úr garði gert, ég skal ekki rengja það. En hver fór með stjórnina á öllu saman undanfarin 3 ár? Ef það hefur verið eitthvað heldur lítið og núna eigi að verða meira, þá má segja, að það séu framfarir, en frá litlu og hann meira að segja vitnaði í ríkisstj. Hermanns Jónassonar, hvað þetta væri margfalt meira núna. Sami menntmrh. í báðum stjórnunum! Ég kann ekki við þetta, að núv. hæstv. menntmrh. sé að lítilsvirða alltaf þennan fyrrv. menntmrh. í ríkisstj. Hermanns Jónassonar. Mér er vel við báða!

Út af þessum 33 millj., sem nú eigi að verja til skólabygginga á næsta ári, sem mér er ekki kunnugt um og ég geti ekki ráð fyrir, að þm. sé neitt kunnugt um, því að það er enginn stafur um það kominn hingað fram eða hingað í d., vil ég spyrja: Til hvers er frv. þá flutt? Til hvers þarf hæstv. ráðh. nú að fara að deila með 4 í staðinn fyrir 3 áður? Er þá ekki frv. gersamlega út í loftið, ef það á að fara að veita svona miklu meira núna? — Hann segir, að það sé verið að ráðgera það í fjvn. að veita svona miklu meira til skóla en hefur verið. Samt þarf hann að fara að deila með 4 í staðinn fyrir 3. Ég verð að segja honum alveg eins og er, þetta skil ég ekki. Ef á að fara að auka fjárveitingarnar eins og hann segir, þá er líklega óhætt að deila með 3 en ekki 4. Það er nefnilega ómögulegt að finna botn í þetta. Ég skal viðurkenna það, að hæstv. ráðh. hefur betri aðstöðu til þess að dæma um þetta hvað deilinguna snertir, þar sem hann hefur allar till. í fjvn. fyrir framan sig og veit, hvað þar á að gerast. En það vitum við ekki, hinir. Og hann segir, að það muni verða samkomulag í fjvn. um þá upphæð, sem veitt verði til skóla. Þetta getur vel verið alveg hárrétt hjá honum. Ég veit ekkert um það. En til hvers frv. er, veit ég ekki, fyrst svona er. Ég hélt í minni einfeldni, að það væri verið að draga úr heildarframlögum ríkissjóðs á næsta ári með því að deila með 4 í staðinn fyrir 3. Ég fæ alltaf út lægri tölu, þegar ég deili með 4 en með 3, hvað sem hæstv. ráðh. fær. Og ef hann er að auka framlögin í heild til skólabygginga í landinu núna eins og hann segir: Ég ætla að tvöfalda þau — eða eitthvað þess háttar, jafnvel þrefalda miðað við þriggja ára meðaltal og margfalda það frá því, þegar hann var ráðh. hér fyrir 10 árum. Hvers vegna er hann þá að deila með 4? Það veit ég ekki.

Það fer að verða flókið málið hvað snertir útskýringar á þessu frv., fyrst svona er.

Ég held, að hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu, eftir því sem mér skildist, að ég væri með þessu og við, sem höfum þessa afstöðu til frv., værum að koma í veg fyrir, að það yrði byrjað á fleiri skólum. Ég held meira að segja, að hann hafi sagt það eitthvað á þann hátt, að þar sem við viljum fá heldur meira framlag á næsta ári en gert er ráð fyrir með þessu frv., þá viljum við koma í veg fyrir, að byrjað verði á fleiri skólum. Nú er það ekki aðalatriðið í skólabyggingum að byrja á mörgum skólum, heldur er það aðalatriðið að koma skólunum upp. Það er ekki ákaflega mikið fengið með því að byrja t.d. á 20 skólum og láta það taka 20 ár. Ég held, að það sé miklu betra að byrja á einum skóla og ljúka honum á árinu.

Þá nefndi hann eitt, sem aldrei var minnzt á í hv. menntmn. og ég veit eiginlega ekki, hvað kemur þessu máli við, þ.e. að núna eigi að taka tillit til þeirrar hækkunar á byggingarkostnaði, sem muni verða 181/2%. Það er merkilegur hlutur. Datt ráðamönnum kannske í hug að taka ekkert tillit til þess eða hvað? Hann sagði, að á undanförnum árum hefði það alls ekki verið gert. Það er hann, sem hefur ráðið ferðinni, en ekkert tekið tillit til þessa á undanförnum árum. Ég hélt, að þetta hefði alltaf verið gert og mér finnst það engar fréttir, þó að það sé gert núna.

En það breytir ekki nokkrum hlut, hvort það á að deila með 3 eða 4. Ég vil ekki vera að teygja þessar umr., en ég vil helzt spyrja hæstv. ráðh., sem alltaf er liðlegur og greiður í svörum, að mér finnst — a.m.k., þegar ég hef spurt hann að einhverju, þá hef ég alltaf fengið svar — spyrja hann að því, hver er meiningin með frv., þar sem á að deila nú með 4 í staðinn fyrir 3? Það er það eina, sem ég þarf að fá að vita núna, það er þetta. Og hann verður að útskýra það ákaflega rækilega, af því að ég er svo lengi að skilja það miðað við ræðuna hans áðan. Ég geri ekki aðrar kröfur en þetta: Yrði þá framlag ríkissjóðs á næsta ári nákvæmlega jafnhátt, þótt það væri deilt með 3? Þetta er ósköp einföld spurning og vona ég, að ég fái svar.