25.02.1969
Neðri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. vék að því hér áðan, að fólksfækkun héldi áfram á Vestfjörðum þrátt fyrir Vestfjarðaáætlun. Ég hef ekki þessar tölur fyrir framan mig, en skal ekki vefengja það, að einhver fækkun kunni að hafa átt sér stað. En mér fannst einhvern veginn, að þetta ætti að skilja svo, að hún næði ekki tilætluðum árangri, áætlanagerðin um þá uppbyggingu, sem Vestfjarðaáætlunin var í upphafi hugsuð til. Ég held, að þetta sé misskilningur eins og hæstv. fjmrh. drap á hér áðan. Það er ekki hægt að búast við að fækkunin hætti þegar í stað, um leið og verið er að byrja á slíkum framkvæmdum. Við verðum að athuga það, að áætluninni um uppbyggingu vegakerfisins er ekki lokið enn og svo þarf auðvitað að taka margt fleira inn í þessa áætlun eins og menntamálin, heilbrigðismálin og atvinnumálin. Ég held því, að það sé fjarri því að nokkur ástæða sé til að draga þá ályktun af áframhaldandi fólksfækkun á Vestfjörðum, að áætlanir eða réttara sagt uppbygging í atvinnulífi, menningarlífi og samgöngum beri ekki árangur. Það tekur aðeins sinn tíma.

Ég vil nefna dæmi um þetta. Það er orðið langt síðan, ég var þá þm. Barðstrendinga. Ég beitti mér fyrir því, að. brúuð væri á í Selárdal, en Selárdalur er í Arnarfirði, eins og menn vita kannski. Það var Selárdalsá. Ég fékk brúna á ána, en þegar ég komst til Bíldudals, eftir að brúin var nú komin, gerðu menn þar gys að mér og sögðu: Til hvers ertu að láta þá hafa brú á Selárdalsá? Þeir nota hana ekki til nokkurs hlutar annars en að fara eftir henni, er þeir flytjast í burtu. Og hvað skeður? Þeir, sem bjuggu í Selárdal, þegar brúin var byggð, fluttu allir í burtu — yfir brúna, og það varð enginn maður eftir. Þeir nefnilega reyndust sannspáir þarna á Bíldudal. En svo gerist önnur breyting. Hún er sú, að Selárdalur fer að byggjast aftur og það kemur nýr bóndi yfir brúna út í Selárdal. Og hann reisir þar bú af miklum myndarskap og ekki nóg með það. Mér skilst, að einhvern veginn hafi af því sprottið, að annar bóndi er líka kominn í Selárdal. Og hvar endar þetta? Ég hugsa, að Selárdalur fyllist áður en langt um líður, ekki bara af fé, því að það er komið langt á leið með það, heldur af fólki.

Einu sinni var sagt, að ríkasti maður landsins væri bóndinn og presturinn í Selárdal. Ég veit ekkert nema þetta eigi eftir að endurtaka sig. Þess vegna held ég, að of snemmt sé að dæma hér um, því að áætlanir eða uppbygging, sem ekki ber árangur, hvað þetta snertir, undir eins, geti gert það síðar og ég trúi því, að ef uppbygging á samgöngumálum, atvinnumálum og menntamálum á Vestfjörðum heldur áfram og það með ekki allt of mikilli hægð, muni hún bera árangur um Vestfirði í heild, eins og sýnist ætla að verða um Selárdal.