16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið vorið 1965, sem var samið um Norðurlandsáætlun fyrst. Sem sagt, það eru 4 ár nú síðan um þetta var samið. Fyrir kosningarnar 1967, ég held, að það hafi verið 4. júní, sagði hæstv. fjmrh., að áætlunin mundi verða tilbúin þá fyrir árslok. Í desember, 4. des. 1968, sagði hæstv. fjmrh. hér á hv. Alþ., að það væri nú farið að sjá fyrir endann á atvinnukaflanum í áætluninni. Þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fram 13. febr. þá hafði hæstv. fjmrh. svipuð orð, að það mundi nú fara að sjá fyrir endann á þessum kafla. Nú eru senn komin þinglok, og ég hefði nú vænzt þess, að það mundi nú heyrast eitthvað um þessi mál fyrir þingslit.

Ég verð nú að segja það, að þó að ég sé fulltrúi fyrir Norðurland, að þá veit ég mjög lítið, hvað áætlað er að gera við þetta fé. Það, sem ég hef heyrt, eru sögusagnir einar. Ég hef heyrt það t.d., sem ég vil spyrja um, að þegar var gengið frá lántökunni; þá hafi verið talað um það, að til samgöngumála færi um 60 millj., eða því sem næst. Nú, ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvernig þessu fé verði þá varið. Það kom fram hér hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. áðan, að það, sem hv. fjhn. hefði fengið frá fulltrúa Efnahagsskrifstofunnar, það væri aðeins tvennt, það væri um hafnargerð á Vopnafirði og til iðnskóla á Akureyri. Náttúrlega vantar þá á Vopnafirði höfn, og ég ætla nú ekki að ræða það mál, því hv. þm. Norðurl. v. ræddi um það, og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér.

En það hefur verið rætt við okkur ýmsa um ýmsar framkvæmdir á Norðurlandi, og ég verð í þessu sambandi að koma með ákveðnar spurningar, því ég er mjög hræddur um, að það verði ekki annars, sem það er rætt fyrir þingslitin. Það eru uppi ákveðnar óskir bæði á Dalvík og Húsavík um hitaveituframkvæmdir. Er ætlað eitthvað af þessu fé til þeirra framkvæmda, og hvað þá?

Við höfum fengið, þm. Norðurl. e., bréf frá oddvitum í N.-Þingeyjarsýslu um virkjun Sandár, sem virðist vera mjög hagkvæm virkjun. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hefur það mál verið athugað í þessu sambandi, og er væntanlegt að það verði hægt í sambandi við Norðurlandsáætlun að fara út í þessa virkjun, sem er ákaflega brýn, eftir þessar tvær gengisfellingar. Það rafmagn, sem þeir hafa þar, er allt saman af dieselstöðvum, sem er nú mjög óhagstætt.

Það hefur verið rætt um að stækka frystihús. Verður fé af þessu til þeirra framkvæmda, t.d. á Húsavík? Og það kemur nú fram núna, þegar mikill afli er á Norðurlandi, að frystihúsin eru of lítil. Ég vil nú mjög mælast til þess, ef þessi atvinnumálakafli er nú tilbúinn, að a.m.k. þm. af Norðurlandi fái þetta í hendur nú þegar.