16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætti nú ekki að vera að lengja umr., en það voru samt örfá orð í ræðu hv. 4. þm: Austf., sem gefa mér tilefni til þess að segja nokkur orð, aðallega í upplýsingaskyni. Honum fannst þessar áætlanir, sem gerðar hafa verið til þessa, hafa borið að með mjög óeðlilegum hætti og ruglingslegum og þess vegna vantaði algjörlega að setja um það einhver ákvæði, hvernig að byggðaáætlunum skyldi unnið. Það sem gerzt hefur í þessum efnum — það er í rauninni rétt, að það hefur gerzt nokkuð tilviljanakennt, og þó ekki tilviljanakennt. Að Vesturlandsáætlun var unnið samkv. ályktun frá Alþ. á sínum tíma. Framkvæmdabankanum var þá falið að framkvæma það verk. Að Norðurlandsáætlun var unnið að segja má tilviljanakennt að því leyti, að það var þáttur í kjarasamningum, að ríkisstj. féllst á að láta gera þessa áætlun.

En þegar þessum tveimur áætlunum sleppir er í rauninni ekki ætlunin að vinna neitt tilviljanakennt að þessari áætlanagerð, vegna þess að um þær gilda núna ákveðin lög. Lög um Atvinnujöfnunarsjóð segja beinlínis, að Atvinnujöfnunarsjóður láti, eftir því sem tilefni gefst til, gera byggðaáætlanir, annaðhvort um almenna þróun byggða eða um einstaka byggðaþætti í byggðaþróun og að Efnahagsstofnunin sé Atvinnujöfnunarsjóði til aðstoðar við þessar áætlanir, þannig að ég tel, að með þessu sé fengin alveg föst regla um þetta efni, hvernig að þessu skuli unnið. Það verður Atvinnujöfnunarsjóður, sem ákveður þetta, en alls ekki ríkisstj. Og Alþ. hefur sjálft ákveðið með þessum lögum, að Atvinnujöfnunarsjóður skuli gera þessar áætlanir, enda er eðlilegast, að sjóðurinn geri það, vegna þess hlutverks, sem honum er fengið í hendur, að stuðla að jafnvægi í byggð landsins á sem flestum sviðum. Því er það einmitt nú, að Atvinnujöfnunarsjóður hefur tekið til meðferðar, hvort gera skuli samgönguáætlun fyrir Austurland, og gert um það samþykkt, að það verði kannað og atvinnuþróunaráætlun fyrir Vestfirði, sem eingöngu er til sem rammaáætlun. Ákvörðun hefur ekki verið tekin hjá Atvinnujöfnunarsjóði um þetta mál enn þá, en það verður gert á næstunni, vegna þess að Norðurlandsáætlun er nú lokið. Hins vegar hefur það verið skoðun Atvinnujöfnunarsjóðs, miðað við allar aðstæður, bæði vegna fjárhagsmöguleika og vegna mannafla, sem til áætlunargerðar er, og skynsamlegra vinnubragða á allan hátt, að þá er ekki æskilegt að hafa margar slíkar áætlanir í gangi.

En hins vegar mun það mjög auðvelda áætlunargerð, þegar Norðurlandsáætlun er tilbúin, vegna þess að hún er fyrsta atvinnuþróunaráætlun, sem gerð hefur verið hér á landi og fyrsta áætlun, sem gerð er af innlendum sérfræðingum. Ég vil taka það skýrt fram, að á þessa Norðurlandsáætlun hef ég alltaf litið sem rammaáætlun og að Atvinnujöfnunarsjóður væri ekki endilega skuldbundinn til að vinna nákvæmlega eftir þessari áætlun, heldur hefði hana til hliðsjónar. Og ég hef aldrei litið svo á, að það væri ætlunin, að hún yrði lögfest.

Að hún sé gerð af embættismönnum einum, er ekki rétt að því leyti til, að það var svo ákveðið í upphafi og hefur verið gert, að um þessa áætlun skyldu höfð samráð við sveitarstjórnir á áætlunarsvæðinu og við stéttarsamtök, þannig að þar hafa komið fram miklu fleiri viðhorf heldur en viðhorf embættismannanna. Þegar ég talaði um, að rafvæðingarmál yrðu í Norðurlandsáætlun, þá er það auðvitað rétt, sem hv. þm. sagði, að með því móti get ég ekkert fullyrt um það, hvað gert verði í þeim efnum. Þetta er áætlun, þetta er planlagning á viðfangsefnum sem þarf að sinna, en ekki lögfesting á því hvað skuli gert. Það sem ég átti við er aðeins það, að það mun verða að koma fram í Norðurlandsáætlun, að vissar framkvæmdir í raforkumálum séu nauðsynlegar til eflingar byggðar á þessu svæði. Þetta er það eina, sem ég átti við.

Varðandi það, að það geti ekkert illt gert að hafa svo og svo margar lántökuheimildir í eitt eða annað, hvort sem það er Austfjarðaáætlun eða annað, þá má það satt vera, hins vegar finnst mér það alltaf ákaflega óviðkunnanlegt, og það hefur verið stefna mín að leita alls ekki eftir lántökuheimildum, nema nokkurn veginn væri örugglega vitað til hvers lánið ætti að taka og væri búið að gera sér alveg grein fyrir því, og jafnframt líkur fyrir því, að lánið fengist. Um bæði þessi lán, sem hér er beðið um, er öruggt, að þau fást og hafa þegar fengizt og í báðum tilfellunum er um formlegar áætlanir að ræða, önnur hefur þegar verið í gangi alllengi og er verið að ljúka henni og hin er nú að hefjast.