16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Enn gefur hún, blessuð ríkisstj., Norðurlandi. Nú segir hæstv. fjmrh., að það beri ekki einungis að telja Vopnafjörð til Norðurlands, heldur alla Strandasýslu líka. Það er galli að fá ekki með þetta góða fólk, sem býr í þessum héruðum, í hóp okkar Norðlendinga, að mínum dómi. Hæstv. ráðh. var eitthvað að andmæla till., sem ég ásamt fleirum hef flutt, um að verja nokkru af þessu fé Norðurlandsáætlunar til að ljúka rafvæðingu þeirra sveita á Norðurlandi, þar sem meðallínulengd milli býla er ekki meiri en svo, að fært þykir að leggja til þeirra rafmagn frá samveitum; og einnig till. okkar tveggja um nokkur framlög til ákveðinna endurbóta á vegum á Norðurlandi. Hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki meiningin, það hafi aldrei verið meiningin að láta óendurkræft fé til þessara hluta. Hver segir, að þetta þurfi að vera óendurkræft. Hvernig var það með Vesturland? Þar fór mikið fé samkvæmt Vesturlandsáætlun til vegagerða, til samgöngumála, er það lán? Hver tekur það lán? Er það Vegasjóður, eða hver? Það er hægt að hafa alveg sama háttinn á við Norðlendinga, alveg sama háttinn á eins og við Vestfirðinga, útvega þetta fé með sömu skilyrðum eins og þar var gert, og um rafmagnið er það að segja, að þetta þarf ekki endilega að vera óendurkræft. Það er hægt að láta þetta sem lán til rafmagnsveitnanna, það er ekkert sem mælir á móti því. Ekkert í till. okkar, sem stríðir á móti því, ef það þætti heppilegt að hafa það þannig.

Þessi sendimaður Efnahagsstofnunarinnar, sem kom á fund fjhn. 23. apríl, og sem ég nefndi í minni fyrri ræðu, hann hafði nú lítið að segja, eins og ég sagði, því þetta var allt í lausu lofti. Ég veit ekki hvað kann að hafa gerzt á þeim 3 vikum, sem síðan eru liðnar, en hann nefndi þó bæði framkvæmdir í raforkumálum og samgöngumálum, sem fyrirhugað væri að ráðast í á Norðurlandi fyrir það fé, sem tekið er að láni vegna Norðurlandsáætlunar. Hann nefndi það hvort~tveggja. Hæstv. ráðh. nefndi þetta eiginlega líka áðan í sinni ræðu. Og ég sé ekki, að okkar till. stríði neitt á móti þessu.

Annars verð ég að segja það, að Alþ. á að hafa æðsta vald í þessum málum. Alþ. er æðra Efnahagsstofnuninni og Atvinnujöfnunarsjóði, þó að þetta séu merkar stofnanir, og alþm. eiga að hafa og hafa meira vald heldur en starfsmenn þessara stofnana, þó að þeir séu sjálfsagt vel lærðir menn. Og hér er verið að fjalla um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að láta ríkissjóð ábyrgjast lán til þessara áætlana. Það er ekkert eðlilegra en Alþ. láti uppi vilja sinn um leið og það afgreiðir slíkt mál, láti uppi vilja sinn um ráðstöfun fjárins að einhverju leyti. Og það er það, sem við erum að leggja til, að verði gert með okkar brtt. Ég get því alls ekki fallizt á það með hæstv. fjmrh., að það sé nokkuð óeðlilegt við það, að Alþ. láti uppi þennan vilja sinn. Það er síður en svo.