02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. minni bl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur nú rakið þetta mál allýtarlega, og get ég að því leyti sparað mér löng ræðuhöld, sem hann hefur rakið þessa sögu nokkuð, en á þskj. 597 höfum við þrír, þ.e. ég og hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 5. þm. Reykn., lagt fram sérstakt nál. um þetta mál. En það er bezt að segja það strax, að við erum sammála þeirri niðurstöðu, sem kom fram hjá meiri hl., um að mælt verði með samþykkt frv. En það voru nokkur atriði, sem okkur þótti rétt að koma á framfæri, þegar þetta allstóra mál er tekið hér til meðferðar. Ég mun nú gera grein fyrir þessu nál. í ekki löngu máli.

Það kemur fram af aths. frv., að byggingarkostnaður við kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn var í árslok 1967 210 millj. kr., eða 4.4 millj. bandaríkjadollara miðað við það gengi, sem var á byggingartíma. Í grein, sem formaður undirbúningsnefndar, Pétur Pétursson framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar meðan á byggingarframkvæmdum stendur við kísilgúrverksmiðjuna, ritar í Fjármálatíðindi 1966, segir hann um byggingarkostnaðinn, að hann ætti að vera í heild 148 millj. kr. Það er mjög nákvæmlega sundurliðað og ég hirði ekki að rekja það atriði lið fyrir lið, en heildarniðurstaðan átti að verða 148 millj. kr. Um þessa áætlun segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú áætlun, sem ég hef hér nefnt, er mjög nákvæm. Hver einasta bygging, hver undirstaða, hvert tæki og uppsetning hvers tækis er áætluð svo að stendur aðeins á tugum dollara. Allur byggingarkostnaður er brotinn niður í smáupphæðir. Þetta þýðir auðvitað að halda verður mjög nákvæmt bókhald um allan kostnað, auk þess þarf að gefa eigendum mánaðarlega mjög nákvæmt yfirlit um kostnaðinn, byggt á áætluninni og samræmt við hana lið fyrir lið. Ég verð að segja það eins og er, að það tók þó nokkurn tíma að fá verkstjóra og starfsmenn til að fallast á að fara eftir þessari nákvæmu sundurliðun, menn voru ekki vanir henni. Auk þess kostar þetta þó nokkuð mikla skrifstofuvinnu. Hins vegar er afar þýðingarmikið að vita nákvæmlega á hverjum tíma sem er, hvernig hver einasti liður stendur, ekki aðeins fyrir þann, sem stjórnar framkvæmdum, heldur einnig og ekki síður fyrir eigendur fyrirtækisins.“

Allt þetta er að sjálfsögðu hægt að skrifa undir. En ég verð að segja það, að það er mikil hörmung, hvað þessi nákvæma áætlun hefur staðizt illa, þar sem byggingarkostnaðurinn hefur orðið 210 millj. kr., en þessi nákvæma byggingaráætlun, sem var svo nákvæm, að það var varla hægt að fá menn til að vinna eftir henni, hún hljóðaði upp á 148 millj. kr. Nú er hér smávegis misræmi í athugasemdum frv., sem má vera að eigi sér og á sjálfsagt sínar eðlilegu skýringar, en það segir hér á einum stað, að byggingarkostnaðurinn hafi í árslok 1967 verið 210 millj., en að bókfært verðmæti fasteigna og véla ásamt undirbúningskostnaði sé 288.6 millj. kí. Ég tók eftir því í ræðu hv. 7. landsk. þm., að hann taldi þetta vera heildarbyggingarkostnaðinn og er hann þá þarná 78 millj. kr. hærri en ég vildi þó vera láta. Það má vera, að það séu framkvæmdir á árinu 1968, sem þarna eigi að bæta við, eða þá að það eru aðrar ástæður, sem valda því, að eignir verksmiðjunnar hafa hækkað í verði. Þetta skiptir ekki verulegu máli, en þó er rétt að hafa það, sem sannara reynist í þessu eins og jafnan. Ég verð því að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að byggingaráætlunin hefur ekki staðizt og ber vissulega að harma það.

Þá hefur það gerzt, að rekstrarafkoman var mun lakari á árinu 1968 heldur en vonir stóðu til og hallinn á því ári varð 33.6 millj. kr. eins og hér hefur verið rakið, og er þó ekki reiknað með neinum arði af hlutafé, sem er 78 millj. kr. og mundi með venjulegum vöxtum nema 7.8 millj. kr., svo að ekki bætir það nú rekstrarafkomuna, ef það er skoðað. Hins vegar er það tekið fram í aths. með frv., að inni í þessari tölu séu afskriftir og gengistap, sem vitanlega bætir dæmið nokkuð.

Þær upplýsingar, sem við höfum fengið í iðnn., eru eins og hv. 7. landsk. áðan rakti, þess efnis, að meginástæða óhagstæðrar rekstrarafkomu var sú, að framleiðslan á árinu 1968 varð miklu minni en vonir höfðu staðið til, en það var reiknað með því, að á fyrsta ári, samkvæmt þeirri grein, sem ég áðan minntist á eftir Pétur Pétursson, að ársframleiðslan gæti orðið 6 þús. tonn fyrsta árið, en hún varð aðeins 2500 tonn og ýmsir byrjunarörðugleikar við slíkt fyrirtæki geti komið fram, ekki sízt, þegar það er haft í huga, að hér er um algjört brautryðjendastarf að ræða, ekki einungis hér á landi, heldur annars staðar líka, þar sem kísilgúr hefur ekki verið unninn upp úr vatni, en votvinnsla kísilgúrs hefur ekki átt sér stað fyrr en í þessu tilviki. En meginástæðan er samt önnur og segir um það í aths., að afkastageta votvinnslukerfisins hafi reynzt mun minni en aðilar höfðu ætlazt til. Má rekja það til þurrkara verksmiðjunnar, sem eru ekki eins öflugir og við var búizt og einnig hafa jafnan orðið í þeim nokkur efnistöp við útgufun. Virðist hönnun þurrkaranna ekki hafa verið í samræmi við þær forsendur sem áætlanir aðilanna voru byggðar á. Þessa hönnun, sem hefur tekizt svona hörmulega, framkvæmdi Kaiser-fyrirtækið í Kanada. Nú er okkur sagt og það kom fram af máli hv. 7. landsk., að forráðamenn verksmiðjunnar teldu, að ekki væri hægt að sækja þetta fyrirtæki til saka, það væri ekki hægt að fá neinar bætur fyrir þessi mistök. Það er ekki gott, að svo skuli vera, og sérstaklega þykir mér það leitt að heyra, þar sem í áðurnefndri grein er sérstaklega talað um það, hversu heppilegt það sé að hafa fengið þessa snillinga hjá Kaiser til þess að framkvæma hönnunina og hafa eftirlit með verkinu, en um það segir í áðurnefndri grein, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vissu millibili hefur verkfræðingur Kaiser, sem teiknaði verksmiðjuna, komið til landsins. Þá hefur hann litið yfir framkvæmdirnar og alveg sér í lagi farið rækilega í gegnum kostnaðinn samanborið við áætlunina. Hefur það verið mjög gagnlegt. Í marz n. k. kemur verkfræðingur frá Kaiser og verður hann hér, þar til verksmiðjan hefur verið tekin út, enda bera Kaiser-menn ábyrgð á því, að öll verksmiðjan starfi eðlilega.“

Einhvern veginn hefur við þessa samningsgerð ekki tekizt að ganga nægilega tryggilega frá þessu, þannig að nú er okkur sagt, að það sé þýðingarlaust að hafa uppi skaðabótakröfur á hendur þessa fyrirtækis, sem þó, samkvæmt þessari greinargerð og að allra áliti, hygg ég, á þeim tíma ber ábyrgð á því, að öll verksmiðjan starfi eðlilega. En um það tjóar sjálfsagt ekki að sakast og ráðið til þess að koma rekstri fyrirtækisins á réttan kjöl telja stjórnendur þess, eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. vera það að auka votvinnslukerfi verksmiðjunnar, en þurrvinnslukerfið var gert fyrir miklu meiri afköst í upphafi, eins og allir vita. Það, sem þarf að gera þarna, er að leggja nýja hráefnisleiðslu frá Mývatni við hlið þeirrar, sem fyrir er, auka afl dælustöðvar, byggja tvær nýjar hráefnisþrær við verksmiðjuna og nýja skilvindu, sterkari en þá, sem fyrir er. Bætt verður við a.m.k. tveim nýjum þurrkurum, öflugri og sterkari en þeim, sem fyrir eru, auk þess sem vörugeymslur verksmiðjunnar, bæði við Mývatn og eins á Húsavík, verða stækkaðar. Það er áætlað að kostnaðurinn við þessa breytingu nemi 200 millj. kr., en hér er farið fram á 150 millj. kr. framlag frá ríkissjóði og það talið 51% af hlutafé og upplýst, að Johns-Manville Corp. hafi lofað að sínu leyti allt að 49%, því það er ekki gert ráð fyrir, að sveitarfélögin, sem áttu þarna örlítið brot af hlutafénu, telji sig hafa bolmagn til þess að leggja meira fé fram, þannig að hér er sem sagt ráðgert að auka hlutaféð um allt að 300 millj. kr. Þær hundrað millj. kr., sem afgangs verða, þegar framkvæmdum er lokið, og miðað er þá við að kostnaðaráætlunin standist — hún verði ýtarleg og nákvæm ekki síður en sú fyrri og standist, — að þá eru afgangs 100 millj. kr. sem á að nota til þess að mæta rekstrartöpum bæði s.l. árs og þeirra ára, sem líða, þangað til verksmiðjan er komin í þá stærð að skila arði. Þessa fjárhæð áætlaði hv. frsm. hér áðan 80 millj. kr., samkvæmt þeim upplýsingum, sem Pétur Pétursson gaf okkur á fundum iðnn., og er þarna þá ríflega fyrir öllu séð.

Við, sem skipum þennan minni hl., sem ég er að tala fyrir, við teljum, að nú þegar sé rétt að leggja það mikið fjármagn í þessa verksmiðju og að reynsla af framleiðslunni hafi gefið það góða raun, að sjálfsagt sé að halda þessu áfram, því að það er ánægjulegt við þetta fyrirtæki, að sá efnafræðilegi grundvöllur, sem það er reist á, hefur fyllilega staðizt. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem við höfum í nefndinni, bæði frá Pétri Péturssyni margnefndum og annars staðar frá, þá er þessi framleiðsla með því bezta, sem gerist í heiminum og það er náttúrlega mjög ánægjulegt fyrir okkur í þessu sambandi að vita til þess, að hér hefur tekizt að framleiða góða vöru. Og við verðum að trúa því og við trúum því í minni hl., að með þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að leggja út í nú, verði unnt að skapa þessari verksmiðju rekstrargrundvöll, og þess vegna mælum við með því, að þetta frv. verði samþykkt, þó að við getum ekki lokað augunum fyrir þeim mistökum, sem hafa átt sér stað fram að þessu, og þó að það séu nokkur atriði við framkvæmd breytinganna og stækkunarinnar sem við teljum að ekki sé sama hvernig með er farið og mun ég koma örlítið að því nú.

Þau atriði, sem við viljum draga fram í þessu sambandi, eru í fyrsta lagi, að hér er um mjög mikið fjármagn að ræða á íslenzkan mælikvarða, sem látið hefur verið í eitt fyrirtæki. Hlutur ríkissjóðs í þessu fyrirtæki verður, þegar stækkunin og framlagið hefur átt sér stað, 189 millj. kr. og það er verulegt fé á íslenzkan mælikvarða. Og án þess að ég vilji, eins og ég segi, gera neitt lítið úr þessari tilraun, þá getur maður ekki varizt þeirri hugsun, að ýmislegt væri hægt að gera hér á öðrum sviðum og að ýmis önnur fyrirtæki gætu skilað verulegum ágóða í hendur landsmanna, ef eins væri búíð að þeim fjárhagslega og gert hefur verið við þessa kísilgúrverksmiðju, sem við erum hér að ræða um. Og það leiðir aðeins hugann að því, að þó að slíkar nýjungar séu góðra gjalda verðar og það sé auðvitað allra manna kappsmál að renna fleiri stoðum undir íslenzkt atvinnulíf, svo að notað sé margnotað orðalag, þá er rétt að hafa það í huga, að ýmsar eldri atvinnugreinar gætu skilað verulega góðum árangri, ef þær fengju fjármagn til jafns við það, sem hér er um að ræða, bæði í sjávarútvegi og í innlendum iðnaði. Það þori ég að fullyrða.

Ég held, að það væri mjög hollt að leiða hugann að því í þessu sambandi eða í framhaldi af því, sem hér hefur verið sagt, að í grein, sem Guðjón Sigurðsson, formaður Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, skrifar í eitt dagblaðanna í gær í tilefni af 1. maí-deginum, þá lýsir hann því, hver þróunin hefur orðið hér í iðnaðinum í Reykjavík. Þar segir hann frá því, að félagsbundið fólk í Iðju, félagi verksmiðjufólks, sé ekki orðið nema 1550 manns og hafi fækkað um mörg hundruð manns á undanförnum árum, allt síðan 1964, þegar það var flest. Ég get ekki á mér setið að minna á í þessu sambandi, að á mörgum undanförnum þingum, víst einum þrem, þá hef ég ásamt fleiri hv. þm. borið fram till. um það, hvort ekki væri rétt að láta fara fram rannsókn á þeim samdrætti, sem ætti sér stað í iðnaði. Á þetta hefur aldrei verið hlustað. Því hefur jafnan verið vísað frá, ef það hafa þá nokkrar umræður fengizt um slíkar till. En nú verður ekki lengur lokað augunum fyrir því, að síðan 1964 hefur átt sér stað verulegur samdráttur í iðnaðinum hér í Reykjavík og fólkinu við hann fækkað. Og alveg sérstaklega bendir Guðjón Sigurðsson, formaður Iðju, á samdráttinn í fataiðnaðinum eða eins og hann kemst að orði, að því er mig minnir, að þessi óhemjulegi innflutningur á alls konar spjörum, sem hefur átt sér stað, hafi lagt í rústir innlendan fataiðnað, sem var orðinn mjög góður og samkeppnisfær við það, sem erlendis gerðist víðast hvar, þó að hann hafi kannske ekki borið af öllu, sem þar er gert.

Ég held, að það sé ekkert að því, að hv. þm. rifji þetta upp og minnist þess arna, um leið og þeir samþykkja með einni handauppréttingu að auka hlutaféð í þessu fyrirtæki, hversu gott eða þarft sem það kann að vera, um 150 millj. króna.

Það er líka alveg rétt, sem hv. 7. landsk. sagði hér áðan, að þessi verksmiðja hefur sáralitla atvinnu í för með sér, nema rétt á meðan á byggingartímanum stendur. Það vinna núna samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn í blaðaviðtali í gær 33 menn við verksmiðjuna. Og við þá 200 millj. kr. stækkun, sem þarna er ráðgerð, bætast við aðeins 12 manns. Ég spurði hv. þm. og útgerðarmann, 5. landsk., hvað það fengju margir vinnu við bátinn hans, mig minnir að hann segði að það væru 14 manns um borð auk alls þess fólks, sem vinnur við að verka aflann í landi. Þessi bátur kostar milli 40 og 50 millj. kr. og þennan samanburð verður Kísilgúrverksmiðjan að þola eins og aðrar framkvæmdir, þegar atvinnuleysi er.

Þegar við hugleiðum það, að það eru 300 millj., sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur á milli handa til þess að útrýma eða vinna að verulegu leyti bug á öllu atvinnuleysi í landinu og þessar 300 millj. munu fara langt til þess með tíð og tíma, eftir ágizkun hv. 4. þm. Norðurl. e., sem er einn af atvinnumálanefndarmönnum, eftir því sem hann lætur fara frá sér í viðtali, þá sér maður það, að þær 150 millj., sem hér er um að tefla og gefa 12 manns atvinnu, að þeim er ekki vel varið, ef maður lítur eingöngu á baráttuna við atvinnuleysið. Það eru sýnilega aðrar ráðstafanir og aðrar aðferðir, sem gefa betri raun þar heldur en þessi framkvæmd.

Ég verð að játa það, að ég tók ekki eftir því, sem hv. 7. landsk. sagði um umboðslaunin og hvað þau gætu orðið há, ég missti af því, en mér fannst eins og að hann teldi að það væri ekki alveg rétt í nál. minni hl., að þau gætu farið upp í 31%. (Gripið fram í.) Já, hann sagði 24% við okkur, en ég ætla þá að minna á það, að það hefur þá orðið þar breyting. Þessi tala, sem ég vitnaði í, er úr þeirri sömu grein, sem ég hef gert hér áður að umtalsefni. Hann talar hér um sölusamninginn, sem er á milli Kísiliðjunnar og Johns-Manville á Íslandi. En það má náttúrlega vel viðurkenna það, að þessi grein er síðan 1966 og það kann vel að vera, og ég vil þá trúa því, að það hafi verið breytt samningnum að þessu leyti. En í greininni er þetta algjörlega skýrt, hvernig umboðslaunin eru. Mér þætti nú vænt um, að þeir, sem vita, upplýstu mig þá um það, svo að ég væri ekki að vaða í villu og reyk um það, hvað umboðslaunin geta verið. En samkvæmt greininni er þetta svona. Hins vegar eru í samningnum ákvæði um það að umboðslaun Johns-Manville á Íslandi skuli hækka eftir því sem magnið vex. Skalinn fer hækkandi þannig: 0–3000 tonn 10%, 0–6000 tonn 12%, 0–9000 tonn 15%, 0–12000 tonn l8%, 0–20000 tonn 21%, 0–24000 tonn 24%, 0–28000 tonn 28%, 0 til yfir 28000 tonn 31%. Mér dettur nú svona í hug, um leið og ég les þetta, að hámarkið 24% sé þá til komið vegna þess, að framleiðslan eigi ekki að verða meiri en 24000 tonn, og getur þetta þá hvort tveggja staðizt. En samningurinn er svona eða hann var svona 1966 að það gat farið upp í 31%. Og í þessari grein er það talið eitt mikilsverðasta og bezta ákvæðið í sölusamningnum, hvað umboðslaunin verða há, því að það er talið að það auki svo áhuga fyrirtækisins fyrir að selja vöruna. Það er eflaust svo. Og ef það er einhlítt að hafa umboðslaunin há, þá er sjálfsagt hægt að selja æðimargt út úr landinu, en hver verður ávinningurinn af því? Og ég er anzi hræddur um það, að ýmsum verzlunarmönnum og íslenzkum umboðssöluaðilum þyki prósentan rífleg, jafnvel þótt hún sé nú ekki nema 24%. Ég veit ekki til þess að íslenzkir umboðssöluaðilar hafi slíka álagningu á þeim vörum, sem þeir verzla með.

Þá kem ég að fjórðu athugasemdinni, sem við í minni hl. leggjum ríka áherzlu á, að við teljum það mikilvægt, að sem stærstur hluti hins fyrirhugaða verks verði unninn hér innanlands. En samkvæmt þeirri áætlun, sem okkur var gefin í nefndinni og ég styðst nú að ég hygg við athugasemdirnar, að einhverju leyti a.m.k., en þá var áætlunin þannig, ef ég man rétt, að það er talið, að beinn kostnaður við efni og vinnu, þ.e. annað en flutningsgjöld, verkfræðikostnaður og tollar, er talinn allt að 1785 þús. dollarar og þar af yrði sem næst 1/3 hluti innlendur kostnaður.

Í þessari áætlun er t.d. gert ráð fyrir því, að þessir stóru og öflugu þurrkarar, sem þarna eiga til að koma, verði að öllu leyti gerðir erlendis, en við teljum í minni hl., að innlend fyrirtæki geti smíðað þessa þurrkara, og við teljum það sjálfsagt og leggjum áherzlu á að það verði gert, að það verk verði boðið út, þannig að íslenzk fyrirtæki eigi kost á þessu verki. Í þessu sambandi má gjarnan minna á það, að t.d. hjá Reykjavíkurborg og sjálfsagt víðar, er það fastákveðið, að innlendir aðilar megi vera allt að 10% hærri í tilboðum sínum en erlendir aðilar við tiltekið verk og skuli þó samt skipta við innlenda aðila. Og dæmi eru um það, að þessi prósenta hafi verið ennþá hærri, íslenzku fyrirtækjunum í óhag og samt hefur verið skipt við þau. Ég vona, að eitthvað svipuð regla verði höfð til hliðsjónar, þegar farið verður að bjóða út þessa stóru þurrkara og smíði þeirra, þannig að íslenzkir aðilar eigi sömu möguleika a.m.k. hjá ríkinu, þegar það lætur framkvæma slík verk, eins og þeir eiga, þegar t.d. Reykjavíkurborg lætur smíða hliðstæða hluti.

Þá finnst mér það ekki nógu gott heldur, að hönnun mannvirkjanna og verkfræðilegt eftirlit með byggingum þeirra eigi áfram að vera í höndum erlendra manna. Að vísu eru menn nú uppgefnir á fyrirtækinu Kaiser í Kanada eftir síðustu afrek þeirra í þessum byggingarmálum, en þá eru aðrir teknir, og það er Johns-Manville fyrirtækið sjálft. Ég held, að það væri alveg óhætt fyrir hæstv. ríkisstj. að trúa innlendum aðilum fyrir þessu verki og þessari vinnu. Það er kannske skiljanlegt, að í fyrsta skipti, sem slík tæki eru gerð, ekki bara hérlendis, heldur um allan heim, að þá hafi verið talið, að íslenzkir verkfræðingar byggju ekki yfir þeirri þekkingu, sem gerði þá færa um að smíða þetta tæki og að menn teldu að það væru aðrir menn, sem hefðu lengur unnið við svipaðar framkvæmdir, sem hefðu betri möguleika á að gera þessum verkefnum skil. En það ei bara búið að prófa þetta, og það hefur sýnt sig, að þeir hafa skilað verkinu mjög illa, það hefur mistekizt þeirra verk, og þegar sú reynsla liggur fyrir, þurfum við ekki að vera með neina draumsýn um það, að amerískir verkfræðingar eða erlendir verkfræðingar séu á nokkurn hátt hæfari til þess að vinna þessi verk heldur en okkar eigin menn. Ég vara við því vantrausti, sem er á verkfræðilega menntuðum íslenzkum mönnum. Ég tel að íslenzkir menn í þeim starfsgreinum hafi fyllilega sýnt, að þeir standist samanburð við aðra, og ég minni bara á framkvæmdirnar við Búrfellsvirkjun, ef einhver efast um það. Ég veit ekki betur en að fyrst þegar íslenzkir verkfræðingar tóku stjórnina að sér hafi verkið farið að ganga nokkurn veginn skaplega. Það var búið að prófa marga erlenda sérfræðinga áður en framkvæmdirnar komust á það stig. Þetta held ég að við ættum að hafa í huga, og þetta held ég að hæstv. ríkisstj. ætti að hafa í huga, þegar hún fer að ráða sér menn til þess að stjórna verkum Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn.

Að síðustu leggjum við svo í minni hl. ríka áherzlu á það, að ekki verði unnin spjöll á náttúrulífinu við Mývatn við byggingu umræddrar verksmiðju. Ég hygg nú, að allir, sem þarna hafa átt hlut að máli, hafi lagt sig mjög fram um að valda sem minnstum spjöllum og helzt engum þarna við Mývatn og þess ákvæðis hafi verið gætt sem kostur er, sem í lögunum segir:

„Framleiðslufélagið skal gera allar þær varúðarráðstafanir, sem við verður komið, til þess að koma í veg fyrir að dýralíf og gróður við Mývatn bíði tjón af starfsemi verksmiðjunnar. Einnig skal haga gerð mannvirkja þannig, að þau fari sem bezt í umhverfinu.“

Ég hygg að það hafi nú verið reynt að uppfylla þetta skilyrði laganna eftir beztu getu. Ég hef ekki átt þess kost að koma þarna í Mývatnssveit, síðan þessar framkvæmdir voru gerðar, svo ég get ekkert sagt um það frá eigin brjósti. En ég vona að þess verði gætt þá hér eftir sem hingað til, að þetta geti farið sem bezt og orðið til sem allra minnstra spjalla.

Ég vil svo ljúka þessari stuttu ræðu minni með því að bera fram þá ósk, að þessi stækkun, sem nú er ráðgerð á Kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn, megi verða til þess að koma fyrirtækinu á réttan kjöl og sérstaklega leyfi ég mér að óska þess við hæstv. ríkisstj. og þá hæstv. fjmrh., sem er tvöfaldur í roðinu að þessu leyti, bæði fjmrh. og stjórnarformaður fyrirtækisins eftir því sem mér skilst, að hann taki það til greina, sem ég sagði hér um íslenzkan iðnað í sambandi við þær framkvæmdir, sem þarna eru ráðgerðar. Mér finnst það miklu skipta á þeim atvinnuleysistímum, sem við höfum nú hér átt við að stríða. Það er ekkert spaug að horfa fram á það, að í júlímánuði n.k. verður stórkostlegt lið af byggingarmönnum atvinnulaust, þ.e. þeir sem hafa verið að byggja raforkuverið við Búrfell. Hvert það verkefni, sem hægt er að útvega þeim mönnum eða einhverjum öðrum úr þeim atvinnugreinum, eykur möguleikana á því, að við getum haldið þessum sérfróða vinnukrafti í landinu, en þurfum ekki að sjá á eftir honum til annarra landa, þar sem aðrir geta notið ávaxtanna af því, sem þeir hafa tileinkað sér.