02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þar sem hæstv. iðnmrh. er ekki staddur við þessar umræður og þar sem enn fremur vill nú svo til, að mér hefur verið falinn sá trúnaður að vera stjórnarformaður í Kísiliðjunni h/f, þá þykir mér skylt að segja hér nokkur orð í sambandi við þær umræður, sem fram hafa farið.

Ég vildi þá fyrst láta í ljós þakkir til hv. nefndar fyrir vinsamlegar undirtektir hennar við frv. það, sem hér liggur fyrir. Það er auðvitað ekki við öðru að búast heldur en að ýmsar hugleiðingar komi fram, þegar um er að ræða jafnstórkostleg fjárframlög og hér er um að ræða í sambandi við uppbyggingu þessa fyrirtækis, Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn, og þegar það kemur á daginn, sem fyrir liggur og enginn hefur verið að reyna að leyna, að það hefur ekki skilað þeim árangri, sem vonazt hafði verið til, þ.e. framleiðsla þess á fyrsta stigi, og þess vegna talið óumflýjanlegt að breyta nokkuð áætlunum, sem gerðar voru um verksmiðjuna á sinni tíð, fyrst og fremst á þann hátt að hraða mjög verulega stækkun hennar, þannig að hún komist á reksturshæfan grundvöll. Það er þó einnig mjög óvenjulegt, sem enda hefur komið fram í þessum umræðum, hvernig hugsunin er að byggja þetta fyrirtæki upp, en það er fyrst og fremst með eigin hlutafé, en ekki eins og yfirleitt íslenzk fyrirtæki eru byggð upp, með því að fá að láni meginhlutann af öllu stofnkapítali fyrirtækjanna. Þetta byggist ekki hvað sízt á því, að viðsemjendur okkar og sameigendur, hið ameríska fyrirtæki Johns-Manville, hafa á þessu allt aðra skoðun, sem raunar amerísk og flest erlend fyrirtæki hafa, hvernig eigi að byggja upp fyrirtæki fjárhagslega, heldur en hér hefur gerzt á Íslandi. Við vitum það, og um það hefur margt verið rætt og ritað nú að undanförnu, að það er eitt stærsta vandamál okkar hér heima fyrir, hversu eigið fjármagn fyrirtækja er lítið og hversu flest fyrirtæki hér eru byggð upp með lánsfé og það oftast nær ófullnægjandi lánsfé, sem hefur leitt til þess, að tækin hafa gripið til þess ráðs að stofna til lausaskulda, notað rekstrarfé sitt til þess að velta áfram stofnfjárskuldum og annað þess konar, sem hefur auðvitað orðið til þess að gera alla starfsemi þeirra mjög torvelda. Augu manna fyrir þessu eru mjög að opnast nú á síðustu árum, og ég held að það sé orðið flestum ljóst í dag og fram hafa komið margar raddir í þá átt. Ég hef látið oft í ljós sjálfur þá skoðun, að það væri hin brýnasta nauðsyn, ef við ætlum að byggja hér upp með raunhæfum hætti og jákvæðum rekstur í nokkrum stíl, hvort sem það er iðnrekstur eða annað, að þá yrði að gera ráðstafanir til þess að stuðla að stórauknu eigin fjármagni í þessum fyrirtækjum.

Það var algjört skilyrði hins ameríska aðila, sem með okkur tók þátt í stofnun Kísiliðjunnar við Mývatn á fyrsta stigi, að verulegur hluti fjárins, sem nam þá um helmingi alls stofnkostnaðar, yrði hlutafé, sem aðilar legðu fram. Það var jafnframt þá þegar gerður um það samningur, sem ekki var óeðlilegur, að ef halli yrði á rekstri fyrirtækisins — og ég vil taka það skýrt fram hér, að það var alltaf gert ráð fyrir því, að fyrstu árin yrði allverulegur halli á rekstri Kísiliðjunnar, það var í öllum áætlunum frá því skýrt — þá var tekið fram að aðilar skuldbyndu sig til þess að leggja þennan halla fram í réttu hlutfalli við eign sína í fyrirtækinu. Þegar kom svo til þess að stækka fyrirtækið nú, eftir það sem á undan er gengið og ég skal lítillega víkja að á eftir, þá var það einnig ákveðin tillaga Johns-Manville, að eigendur fyrirtækisins legðu fram 100% kostnaðinn við stækkunina. Það liggur í augum uppi, að hér er nánast um formsatriði að ræða að því leyti til, að báðir aðilar hefðu auðvitað orðið að útvega með einhverjum hætti þetta fé, annaðhvort Kísiliðjan sjálf að afla sér lána, sem vitanlega ríkisstj. og Johns-Manville hefðu þá orðið að hjálpa til að útvega, eða þá þessir aðilar að útvega féð sjálfir með öðrum hætti og leggja það fram sem stofnfé. Það var ákveðin skoðun mín og íslenzku fulltrúanna í stjórn Kísiliðjunnar og á það féllst ríkisstj., að það væri síður en svo andstætt hagsmunum Íslands í þessu efni að verða við þeim tilmælum hinna amerísku aðila, að þetta yrði allt lagt fram sem óendurkræft hlutafé, og úr því að hinir erlendu aðilar buðust til af sinni hálfu að leggja þetta þegar í stað fram á þann hátt, af þessum sökum er frv. í þessu formi sem hér er, að það er gert ráð fyrir að afla lánsfjárheimildar fyrir ríkið, sem ekki hefur þetta fé á reiðum höndum því miður til þess að leggja það fram. Það virðist hins vegar ekki vera nein sérstök fyrirstaða hjá hinum ameríska aðila, að hann leggi fram sinn hluta, og hefur hann þegar boðizt til þess að leggja fram strax mjög verulegan hluta, þó að ríkið geti ekki strax lagt fram sinn hluta, til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir þegar í stað, enda eru framkvæmdir við stækkunina þegar hafnar.

Það hefur vitanlega orðið báðum aðilum til mikillar raunar og vonbrigða, að framleiðsla fyrirtækisins hefur ekki gengið sem skyldi, ekki aðeins að sjálfsögðu okkur, heldur einnig hinum ameríska aðila, því að amerísk stórfyrirtæki eru yfirleitt ekki öðrum fyrirtækjum þekktari að því, nema síður sé, að hafa skilning á því að það eigi að tapa peningum. Það er alls ekki á þeirra dagskrá að tapa fé, þannig að það er óhætt að treysta því, að þessir aðilar munu áreiðanlega leggja sig fram um það að leggja ekki í fyrirtæki, sem þannig er í pottinn búið með.

Ég skal ekki rekja forsögu þessa máls frá byrjun, en öllum hv. þdm. er hún ljós í meginefnum. Það voru íslenzkir aðilar, sem upphaflega stungu upp á því að leggja í þessa vinnslu þarna, og íslenzkur efnaverkfræðingur, Baldur Líndal, sem einna mest allra manna hefur átt þátt í því, að þetta fyrirtæki er komið á laggirnar. Það hefur síður en svo í því efni verið gengið fram hjá íslenzkum sérfræðingum, en sannast sagna eru íslenzkir sérfræðingar ákaflega fáir á þessu sviði, sem hægt hefur verið að leita til varðandi þetta efni, en Baldur Líndal kannaði þetta mjög vel á sinni tíð og þó aðrir hefðu ekki á þessu mikla trú á vissu stigi og jafnvel væri horfið frá því að byggja þessa verksmiðju, þá missti hann aldrei trúna á þetta, og niðurstaðan varð sú, að endanlega virtist sýnilegt, að það ætti að vera hægt með jákvæðum árangri að framleiða þessa vöru, sem þarna var um að ræða. Við þessa sögu hafa komið ótal sérfræðingar og sérfræðifirmu. Auk hinna íslenzku aðila, sem hafa verið aðalráðunautar Kísiliðjunnar, en það er Baldur Líndal og menn, sem hann hefur haft með sér til ráðuneytis, þá hafa komið hér við sögu bæði hollenzk og amerísk fyrirtæki, sem hafa haft mikla reynslu í efnaiðnaði, þannig að ég held að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafa ekki í sambandi við undirbúning íslenzks fyrirtækis verið gerðar jafnvíðtækar athuganir á hinum verkfræðilegu og efnafræðilegu skilyrðum, sem hér voru til staðar, eins og gert var í sambandi við þetta fyrirtæki.

Hinu er svo ekki að leyna, að þetta hefur að vissu leyti ekki skilað þeim árangri, sem við vonuðum. Það er þó kjarni málsins, að varan, sem framleidd er, skilar fullkomlega þeim gæðum, sem var höfuðnauðsyn að hún skilaði, því að ef þau gæði fengjust ekki, þá var aldrei til neinn grundvöllur undir fyrirtækið, og ég skal játa það, að það, sem við, sem stóðum nærri þessu, vorum lengi kvíðnastir yfir, var að svo kynni að fara, að varan yrði ekki nægilega góð. Í annan stað var það líka alltaf kvíði okkar, að það yrði mjög erfitt um sölu á þessari vöru. Ég skal síðar lítillega víkja að söluþóknuninni, en sannleikurinn er sá, að sala vöru sem þessarar er geysilega erfið og það eru tiltölulega fáir aðilar, sem ráða yfir markaðinum í heiminum, eins og er í rauninni í sambandi við mjög margar greinar efnaiðnaðar.

Það sem snerti byggingu verksmiðjunnar og hönnun hennar, sem hér hefur verið talað um, og talið er að hafi reynzt illa, þá er því ekki að leyna, að hér var við þann vanda að glíma, að það voru hvergi til nein hliðstæð fyrirtæki. Þetta er eina fyrirtækið í heiminum, þar sem kísilgúr er unninn úr vatni, og þess vegna var mjög erfitt um vik, hvernig ætti að útbúa þessa þurrkara, sem hafa verið aðalvandamálið í sambandi við þetta, og raunar nokkur tæki önnur, sem ég skal ekki nánar um tala. Það þótti því eðlilegt, og ég held að það geti varla naumast neinn verið sakaður um það, að leita til fyrirtækis, sem hafði reynslu í því einmitt að skipuleggja og hanna kísilgúrverksmiðjur, og það var verkfræðifyrirtækið Kaiser í Kanada, sem við af viðtali við marga, sem til þekktu, bæði innlenda og erlenda, fengum þá staðfestingu á að væri með færustu fyrirtækjum í sinni grein.

Það hefur hins vegar komið í ljós, að þessir þurrkarar fyrst og fremst hafa ekki skilað þeim afköstum, sem til stendur og til stóð að þeir skiluðu, og þar vantar allverulega á, þó að það hafi tekizt með margvíslegum breytingum á þeim að ná þar fram miklum umbótum, þannig að vonir okkar eru þær, að það takist með viðbótartækjum, sem á að setja upp, að koma framleiðslunni jafnvel upp í 10 þús. tonn í staðinn fyrir þau 12 þús. tonn, sem þau upphaflega voru smíðuð fyrir. Hér hefur komið við sögu mikill fjöldi sérfræðinga, fyrst og fremst frá Johns-Manville verksmiðjunum, sem eru einir af stærstu framleiðendum á þessari vöru í heimi og þekkja þar af leiðandi þau mörgu vandamál, sem hér er við að glíma. Það hafa verið fengnir menn aftur frá Kaiser og fleiri aðilum, sem hafa haft með smíði þessara tækja að gera.

Það kann að líta illa út og sýna, að það hafi verið afglöp, einkum af hálfu stjórnar Kísiliðjunnar, að ekki hafi verið gengið þannig frá, að Kaiser væri skaðabótaskyldur fyrir að skila ekki tækjunum með nægilegum afköstum. Þetta hefur margvíslega verið rætt og kannað og ég held, að það sé mjög hæpið og ekki aðeins hæpið, heldur í rauninni alveg útilokað, að þeir geti orðið skaðabótaskyldir, og raunar ekki heldur hægt að saka einn né neinn um það, að þeir séu það ekki, vegna þess að þetta var allt byggt á forsendum, sem í rauninni allir aðilar voru sammála um að væru fyrir hendi og ættu að vera þess eðlis, að það væri með tiltekinni gerð þurrkara hægt að vinna þetta efni. Það hefur ekki verið umdeilt út af fyrir sig, að þurrkararnir væru af þeirri gerð, en þeir hins vegar skila ekki þeim afköstum, sem gert hafði verið ráð fyrir og menn höfðu vonazt til. Þetta er auðvitað mjög raunalegt. Hv. flm. meiri hl. sagði að það gæti verið erfitt að viðurkenna mistök. Ég tel að það sé ekki neitt erfitt að viðurkenna mistök, og ég tel ekki í rauninni að hér hafi átt sér stað það sem venjulega er hægt að kalla mistök, heldur er hér um það að ræða, að menn hafa ekki getað leyst vanda, sem enginn hafði áður leyst, og þess vegna er hér um algera nýjung að ræða, sem í rauninni enginn gat vitað, fyrr en verksmiðjan var komin í gang, hvort tækist eða ekki, enginn gat vitað það.

Þetta er vissulega raunasaga, en þessi saga veldur því, að það hefur verið talið nauðsynlegt að leggja í stækkun verksmiðjunnar fyrr en áætlað hafði verið. Hins vegar er rétt og nauðsynlegt, að það komi fram til þess að taka af allan vafa, að það var alltaf ætlunin að stækka verksmiðjuna upp í 24 þús. tonn og við það eru samningarnir við Johns-Manville upphaflega miðaðir. Það átti að gera þetta aðeins á lengri tíma, það er það eina sem breyt. hefur orðið á í því efni.

Þá vil ég jafnframt leiðrétta það, sem hv. frsm. minni hl. vék hér að, að það hefði ekki staðizt sú kostnaðaráætlun, sem gerð var og, vitnaði hann í grein Péturs Péturssonar, sem var ráðinn byggingarforstjóri verksmiðjunnar í fyrri áfanga hennar. Þetta er ekki rétt, öll sú byggingaráætlun stóðst nákvæmlega. Það, sem hefur valdið aukakostnaðinum, er, að það hefur þurft að gera margvíslega hluti, sem við ekki reiknuðum með í byrjun að þyrfti að gera. Það þurfti að gera þessar margvíslegu lagfæringar. Það þurfti að gera nýja þró, og það kom á daginn, að það var ekki hægt að ganga frá henni örugglega eins og hafði verið reiknað með, að það væri hægt að útbúa þróna, hún lak. Eins og allir menn vita hérna, er undirlagið þarna hraun, og þar af leiðandi var ekki hægt að gera þróna með jafneinföldum hætti og við höfðum gert ráð fyrir, en allar þær áætlanir um byggingu verksmiðjunnar sjálfrar, sem hér er um að ræða og hv. þm. vitnaði í, það hefur ekkert af þeim brugðizt. Meira að segja er svo, að það varð afgangs nokkurt fé, þegar byggingu verksmiðjunnar var að okkar dómi lokið, eins og upphafleg kostnaðaráætlun var, og gert var ráð fyrir, að ekki þyrfti meira fé, til þess að það væri hægt að byggja þar allmörg hús yfir starfsmenn fyrirtækisins fyrir þetta. En það, sem gerzt hefur á árinu 1968, er í senn það, að það hefur orðið allverulegur halli, sem að vísu kom okkur ekki á óvart að yrði nokkur, en hann varð mun meiri en við gerðum ráð fyrir og jafnframt, og það er kjarni málsins, að það hefur orðið að ráðast í margvíslegar breytingar í sambandi við þurrkunina og uppbyggingu ýmissa tækja þarna, sem við reiknuðum ekki með og hefur valdið því, að þessi kostnaður hefur farið svo mjög verulega fram úr áætlun. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram, til þess að það villi ekki mönnum sýn og þeir haldi að framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi verið með nokkurt yfirlæti um þessi atriði. Það er ekki rétt, það stóð allt, sem þar var sagt í upphafi málsins, eins og von var um, að það liti þá út.

Hv. talsmaður minni hl. fjhn. nefndi nokkur atriði, sem hann teldi ástæðu til þess að hafa í huga í sambandi við það,sem nú yrði gert varðandi þessa verksmiðju, án þess að hann hefði nokkuð á móti því, að út í þessa stækkun yrði farið, enda ætti það að liggja í augum uppi, að það er grundvallaratriðið til þess að koma verksmiðjunni á traustan grundvöll, sem ég tel að sé hægt að gera innan mjög skamms tíma, ef allt gengur hér með eðlilegum hætti. Ég hef áður vikið að þeirri gagnrýni, ef gagnrýni í rauninni skyldi teljast á því, að hér væri lagt fram mikið fé í þetta fyrirtæki, í stað þess að taka fé að láni. Það er í rauninni eini munurinn á þessu, og þetta er vitanlega alveg rétt. Þetta tryggir betur undirstöðu fyrirtækisins, en tryggir og tryggir ekki. Auðvitað verður að ætlast til þess, að fyrirtækið skili hagnaði og arði sem þessu nemur, það skili arði af þessu fé, annars er halli. Það er tvímælalaust halli, meðan fyrirtækið skilar ekki þeim arði, sem eðlilegt er, hvort sem féð er lagt fram sem eigið fé eða sem lánsfé.

Varðandi það atriði, að þetta skili ekki vinnu fyrir margt fólk, þá held ég að allir viti það, sem þekkja til iðnrekstrar og í rauninni hinna fullkomnustu iðnfyrirtækja, að þau hafa mjög fátt fólk í vinnu og sum þeirra eru næstum því sjálfvirk, og þetta fyrirtæki við Mývatn er að mestu leyti sjálfvirkt. Ég verð að segja það, að þó það sé auðvitað alltaf gott, að fólk fái vinnu, þá álít ég a.m.k. rekstrarlega séð, sem berandi ábyrgð á rekstri fyrirtækisins, að það sé mjög gleðilegt, hvað það eru fáir menn þar til þess að framleiða jafnmikla aukningu, sem hér er um að ræða, ef ég lít á hag fyrirtækisins sem slíkan. Það er einkenni stóriðju alls staðar, að það er stefnt að því, að færri og færri menn vinni verkin, og ég veit, að það verður alveg sama sagan í öllum íslenzkum iðnaði. Þar af leiðandi segir það t.d. alls ekki alla sögu um það, að það hafi orðið stórkostlegur samdráttur í íslenzkum iðnaði og verksmiðjuiðnrekstri, þó að það hafi fækkað fólki. Það þarf alls ekki að vera. Það hefur fækkað fólki hér í sjávarútvegi og hefur þar þó orðið stórkostleg framleiðsluaukning, þannig að ég veit, að við getum allir verið sammála um það, að það eitt út af fyrir sig er ekki mælikvarðinn. Það er stefnt að aukinni hagræðingu á hagræðingu ofan, má segja, og sú hagræðing er yfirleitt í því fólgin að geta framleitt meira með færra fólki. Það, sem þarf þess vegna til þess að geta veitt fólkinu atvinnu, eru fleiri fyrirtæki og að þau fyrirtæki skili einmitt sem mestri framleiðni á hvern starfsmann. Það er undirstaða þess að við getum bætt okkar lífskjör almennt. Þess vegna álít ég þetta út af fyrir sig ekki vera ástæðu til gagnrýni í sambandi við Kísiliðjuna við Mývatn.

Annað atriði, sem hv. þm. vék að, voru sölulaunin, og hann taldi þau mjög há. Það var alveg rétt, sem hann sagði, að sölulaunin eru í þessum skölum, sem hann tiltók. Það, sem hv. frsm. meiri hl. átti áreiðanlega við, var það, að sölulaun yrðu 24% miðað við afköst verksmiðjunnar, eins og gert er ráð fyrir að þau verði, þannig að hér fara báðir með rétt mál. Ástæðan til þess að við lögðum áherzlu á það í íslenzku samninganefndinni við Johns-Manville að hafa þennan hátt á, sem kannske kann að virðast furðulegur, að hækka sölulaunin eftir því sem væri selt meira, byggðist hreinlega á því, að þegar þessi samningur var gerður, þá voru mjög miklir erfiðleikar á sölu þessarar vöru, svo miklir erfiðleikar, að allt til þessa hefur Johns-Manville orðið að draga úr sölu sinni frá aðalverksmiðju sinni í Kaliforníu til þess einmitt að geta komið okkar vöru inn á Evrópumarkað. Og það hefur ekki enn þá verið nema að takmörkuðu leyti hægt að selja þessa vöru í okkar eigin umbúðum, vegna þess að viðkvæmni þeirra aðila, sem nota þessa vöru, gagnvart því að breyta um vöru, er svo mikil, að það þykir stórhættulegt. Hér er um að ræða í mörgum greinum mjög dýrmætan efnaiðnað, sem notar þessa vöru sem síunarefni. Það er bæði bjóriðnaðurinn, sem er hér mjög stór notandi, og margvíslegur annar iðnaður, sem aldrei mundi hætta á það að fara að nota nýja vöru, nema vera algjörlega öruggur um, að það væri góð vara. Og ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir og við skulum ekki loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að ef við hefðum komið héðan utan af Íslandi og ætlað að fara að bjóða mönnum þessa vöru og sagt, að hún væri alveg jafngóð eins og það, sem Johns-Manville hefur selt þeim, þá hefði enginn maður tekið það trúanlegt og enginn maður kært sig um að breyta því, vegna þess að það var allt of mikið í áhættu lagt til þess að gera það. Og við hefðum getað sjálfir skapað okkur líka stórkostlegar skaðabætur, ef út af hefði brugðið, að ég hefði ekki talið, að það væri möguleiki fyrir okkur að setja þetta fyrirtæki í gang með þessum hætti. Ég veit heldur ekki, hvort þetta eru svo ofboðsleg sölulaun, þegar þess er gætt, að hér er ekki um venjulega umboðssölu að ræða. Hér er um það að ræða, að Johns-Manville afhendir okkur aðgang að öllu sínu fullkomna sölumannakerfi í Evrópu, sem er geysilega fullkomið. Hér er bæði um heildsölu og smásölu að ræða, og þetta er yfirleitt selt í mjög smáum partíum, ef má nota svo lélegt orð. Það eru engir stórir kaupendur, sem kaupa þúsundir tonna, það er langt því frá. Það kaupir enginn kaupandi meira en nokkur hundruð tonn, þannig að hér er um geysimikla dreifingu að ræða.

Það er eitt í þessu sambandi líka, sem ég vil að komi fram og er alveg sérstaks eðlis og er þess vert, að menn hafi í huga, að því fer svo víðs fjarri, að við töpum þessu fé út úr landinu. Það hefur verið gerður samningur við Johns-Manville, sem ég verð að telja nokkuð einstæðan í sinni röð. Það er að þeir staðsetja sölufélag sitt á Húsavík, og þeir skuldbinda sig til þess að reikna engan kostnað hjásölufélaginu, nema sem svarar ferðalögum þeirra umboðsmanna hér milli landa, en þeir taka allan sölukostnaðinn á fyrirtæki sín úti í Evrópu. Þetta veldur því, að þeir greiða 45% af í rauninni allri umboðsþóknuninni, sem við greiðum þeim, það greiða þeir í skatta á Íslandi, vegna þess að það er sáralítið, sem kemur til frádráttar við skattlagningu fyrirtækisins Johns-Manville á Húsavík, þannig að það er í rauninni ekki nema helmingur af þessari upphæð, sem fer út úr landinu. Og ég held líka, að þegar allt kemur til alls, og ég fullyrði það, að hér höfum við gert mjög góðan samning.

Ég er sammála hv. frsm. beggja hluta n. um, að það sé sjálfsagt, að það verði unnið sem mest af þessu verki hér á Íslandi, og Johns-Manville hefur aldrei haft neitt á móti því, hvað þá heldur við, sem erum fulltrúar íslenzkra aðila í þessu. Það, sem hægt hefur verið, hefur verið smíðað hér. Við getum vafalaust deilt um það, og það getur vel verið, að það væri hægt að smíða þessa þurrkara hér, en ég get ekki fullyrt um það, að það verði gert. Það er nefnilega margt annað, sem hér spilar inn í líka, t.d. það, að við þurfum að fá peninga til þess að leggja í þetta fyrirtæki. Og það er auðvitað eitt vandamál, sem við eigum við að glíma, ekki aðeins á þessu sviði, heldur á mörgum öðrum. Við skulum taka skipasmíðaiðnaðinn o.m.fl., þar sem ný skip hafa beinlínis verið keypt erlendis, vegna þess að þar hefur verið hægt að fá lán. Þetta getur spilað inn í að einhverju leyti eins og svo margt annað, sem hefur verið gert í þessum efnum. Það má hins vegar telja, að það hafi verið tekin ákvörðun um það að bjóða ekki út erlendis stálgrindahúsin og allt það, sem hér er mögulegt að vinna í landinu, þó að það kosti það, að við verðum þá að reyna með einhverjum hætti að útvega fé til þess. Það er önnur saga.

Varðandi svo lokaatriðið, sem hv. frsm. minni hl. sagði hér, hvort við hefðum ekki lært nóg af þessu til þess að fela íslenzkum sérfræðingum að hanna verksmiðjuna. Ég held, að við höfum lært nóg af þessu til þess, að það komi ekki til nokkurra mála og það sé það eina eðlilega og sjálfsagða fyrir okkur að láta Johns-Manville byggja verksmiðjuna og taka að sér allan veg og vanda af því. Þetta ætti í rauninni að liggja í augum uppi vegna þess, sem á undan er gengið. Alla þá reynslu, sem við höfum haft af því, hvort sem við eigum að kalla það mistök eða eitthvað annað, — raunverulega eru það mistök auðvitað, sem orðið hafa, — allar þær geysilega mörgu tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að lagfæra þetta og ótal sérfræðingar frá þessu fyrirtæki hafa unnið að, það er ekki að gera lítið úr íslenzkum sérfræðingum, heldur í rauninni er þetta áframhald af vinnu þessara manna, og þeir verða við þetta riðnir. Það verða íslenzkir verkfræðingar fengnir til þess að annast hér ýmsa hluti í sambandi við þetta, en ég fullyrði, að ég mundi ekki vilja bera ábyrgð á því sem stjórnarformaður í þessu fyrirtæki að semja við aðra aðila, hvorki innlenda né erlenda, en Johns-Manville, úr því þeir á annað borð fást til þess að taka þetta að sér eftir allt sem á undan er gengið. Við erum búnir að afla okkur, eða þessir sérfræðingar þeirra, stórkostlegrar reynslu og það mikillar reynslu, að það ætti að vera nokkurn veginn öruggt, — og það telja þessir sérfræðingar, — að það ætti að vera hægt að forðast og koma í veg fyrir þau mistök, sem orðið hafa, og sjá til þess, að þessi viðbótarstækkun verksmiðjunnar geti skilað þeim árangri, sem að er stefnt, sem er sá, að verksmiðjuafköstin geti aukizt upp í a.m.k. 22 þús. tonn. Og hér er svo mikið í húfi, að ég álít að það komi ekki til mála að fara aðra leið en þessa og hún sé sú eina, sem eðlileg sé.

Við höfum aldrei, eins og ég sagði áðan, gengið fram hjá innlendum sérfræðingum í þessu efni. Það hefur verið samið við íslenzka verktaka og verkfræðifyrirtæki um byggingar á vissum mannvirkjum þar efra. Við höfum haft þann manninn, sem er áreiðanlega færastur allra Íslendinga í efnaverkfræði á þessu sviði, Baldur Líndal, sem okkar sérstaka ráðunaut og trúnaðarmann í sambandi við allar þessar framkvæmdir, og ég held ekki, að við mundum leysa þetta með neinum heppilegri hætti heldur en þeim, sem ég hef hér gert grein fyrir.