06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þegar haft er í huga niðurlag ræðu hv. síðasta ræðumanns, mætti segja: Fagurt galaði fuglinn sá, — en skelfing leiðast mér þeir menn, sem alltaf hlakkar í, þegar atvinnufyrirtæki eða einhverjir aðilar verða vegna einhverra byrjunarörðugleika eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum fyrir skakkaföllum, og þykjast alltaf eftir á vita allt og hafa frá upphafi séð öllum öðrum betur. Þvílíkan alvitring í þessu máli, eins og hér kom fram áðan, er óvanalegt að hitta fyrir, þegar um slíkt fyrirtæki er að ræða og rekstur þess á byrjunarstigi eins og kísilgúrverksmiðju, sem er mjög sérstæð atvinnugrein, og eins og ég sagði, hvergi í heiminum unnið við þau skilyrði, sem eru hér á landi.

Það hafa engin slys orðið í sambandi við þetta mál vegna afstöðu ríkisstj. eða hæstv. fjmrh., eins og hæstv. síðasti ræðumaður vildi gefa í skyn. Það var við byrjunarerfiðleika að etja, eins og oft vill verða í sambandi við svona framkvæmdir og ekki aðeins við svona einstæðar framkvæmdir eins og hér er um að ræða. Ég þekki dæmi þess, að síldarverksmiðjur, sem hinir ágætu íslenzku verkfræðingar hafa byggt, hafa verið reknar heila vertíð hér á landi, án þess að nokkuð kæmi út úr því, verðmætið flaut mestallt í sjóinn eða fór upp í loftið, og var þó um að ræða verksmiðjur, sem þeir aðilar, sem hlut áttu að máli, voru alvanir að byggja og reisa.

Það er algerlega rangt, að það hafi verið látið liggja að því af hálfu stjórnvalda eða stjórnar Kísilgúrverksmiðjunnar, að það væri allt í lagi, heldur hefur margsinnis verið sagt frá því á opinberum vettvangi, bæði í útvarpi og blöðum, að um mikla byrjunarörðugleika hafi verið að ræða, svo að menn hafa ekki þurft að fara í neinar grafgötur um það.

Varðandi það, hvað stofnkostnaðurinn hefur aukizt, er auðvitað sjálfsagt, að þingið og þessi hv. d. fái nánari grg. um það, en ég tel eðlilegra, að slík grg. verði lögð fram í n. og þar gerð grein fyrir því, og þá sé hægt að gera grein fyrir málinu við síðari umræðu málsins. Við hér, sem ekki höfum aðstöðu til þess, kvörtum um það, hve mikið eða lítið framkvæmdin hefur farið fram úr áætlun, en þegar verulega mikið lánsfé er í einhverri framkvæmd og erlendur gjaldeyrir hækkar á skömmum tíma um 100%, leiðir það af sjálfu sér, að það skiptir ekki höfuðmáli, hvenær framkvæmdinni var lokið, þegar verið er að tala um hækkun á byggingarkostnaði, heldur breytist hann bara sjálfkrafa vegna þeirra breytinga á verðgildi íslenzku krónunnar, sem orðnar eru, enda þótt framkvæmdum sé lokið áður en þær gengisbreytingar, sem síðast hafa farið fram, voru framkvæmdar. En ég hef enga aðstöðu til þess að gera grein fyrir, í hverju þessi aukni byggingarkostnaður í íslenzkum kr. er fólginn, en tel sjálfsagt og skal hlutast til um það, að n. verði gerð grein fyrir því, þegar hún fær málið til meðferðar. Það er auðvitað sjálfsagt, að það verði líka betur kannað, — og þá miklu fremur í n. en í karpi hér í ræðustólnum, — hvort eitthvað hafi verið bogið við samningsgerðina af hálfu fyrirtækisins við erlenda verktakafyrirtækið Kaiser. það hlýtur að sjálfsögðu að vera nokkurt álitamál, en stjórn fyrirtækisins á auðvitað að gera þn. og þingi fulla grein fyrir því.

Hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Reykv., þóttist nokkuð góður núna að geta bent á, að það hefði ekki allt gengið vel í upphafi hjá Kísilgúrverksmiðjunni varðandi vinnsluna þar, og gaf í skyn, að þetta hefði hann og aðrir bent á, þegar málið var hér til meðferðar, og menn þyrftu svo sem ekkert að undrast, þó að hann og hans flokksmenn hefðu verið á móti málinu, þegar það var samþykkt hér á sínum tíma, 1966. En ég vil bara gera hér þá eina leiðréttingu, að ekkert af því, sem hv. þm. taldi nú þessu máli til vansa, ekkert af því var þá tíundað eða hreyft sem ástæðu gegn málinu, engu einasta atriði. Í sjálfu sér var það vitað, að Framsfl. var með þessu máli og það var einn þm. flokksins, Karl Kristjánsson, sem fylgdi málinu óhindrað. Ég man ekki um afstöðu annarra, það getur verið, að einhverjir hafi verið hlutlausir og norðanmenn einhverjir með. (Gripið fram í.) Jú, það er rétt, en hins vegar var það alveg ljóst, að það var ekki efniságreiningur. hjá hinum þm. flokksins, heldur var þá farið fram á það við mig sem iðnmrh., að ég gæfi yfirlýsingu um það, að aldrei skyldi verða skotið til gerðardóms, sem erlendir aðilar ættu sæti í, ágreiningi, sem kynni að rísa upp á milli Johns-Manville og íslenzka ríkisins. En í samningunum var gerð grein fyrir, að sé um ágreiningsmál að ræða, af hvaða tagi sem er, milli aðilanna, verða þau tekin fyrir íslenzka dómstóla eða íslenzkan gerðardóm, nema samkomulag sé um aðra meðferð. Það var þessi þröngsýni í Framsfl., sem olli því, að þeir snerust á móti málinu. Ég sem iðnmrh. gat auðvitað ekki talað fyrir hönd annarra iðnmrh. í framtíðinni eða ríkisstj. en hér átti hlut að máli og neitaði því að gefa slíka yfirlýsingu, sem var algerlega ástæðulaust að fara fram á og ég hafði ekki aðstöðu til þess að gefa. En það sat í mönnum annað mál, sem þeir gátu ekki á þeim tíma losað sig við glýjuna af, en tala nú öðruvísi um núna, en þetta sýnir auðvitað ekki mikinn þroska hjá heilum stjórnmálaflokki eða þingflokki, að snúast af slíkum ástæðum gegn slíku máli.

Hv. 4. þm. Reykv. talar um það, að það sé búið að setja mikið fé í þetta og mikið hefði mátt gera fyrir iðnaðinn, ef hann hefði fengið á einu bretti 200 millj. kr., eins og væri búið að setja í þessa Kísiliðju. Sannleikurinn er sá, að á þeim tíma frá því að samið var um Kísiliðjuna og til þessa tíma hefur iðnaðurinn fengið fyrir tilstuðlan ríkisstj. álíka mikið fé, bæði í beinum framlögum og því lánsfé, sem ríkisstj. hefur útvegað Iðnlánasjóði.

Hv. 4. þm. Reykv. vék einnig að ákvæðunum um sölulaun og vildi gera það mjög tortryggilegt, að sölulaunin eru minni við minni sölu og meiri við meiri sölu. Frá öllu þessu var skýrt undir meðferð málsins, þegar lögin um Kísilgúrverksmiðjuna voru afgreidd 1966, og menn höfðu þá ekkert sérstaklega við þetta að athuga. Mönnum var það ljóst og menn höfðu gert sér grein fyrir því, að þetta er ákaflega vandmeðfarin framleiðsla og tiltölulega erfið í sölu, og það er einmitt út frá því sjónarmiði, sem sölulaunin voru þannig byggð upp. Að sjálfsögðu er mér ljóst, að um slíkt má alltaf deila og getur verið álitamál, en eins og ég segi er það aðalatriðið, að þinginu var gerð grein fyrir þessu þá, þegar lögin voru samþykkt, hvað mundi felast í þeirri samningagerð, sem þá var heimilað að ganga frá. Og menn féllust á þetta sem höfuðsjónarmið og ég a.m.k. man ekki eftir ágreiningi um þessi ákvæði hins væntanlega samnings. Menn leiðrétta mig, ef ég fer hér með rangt mál.

Hv. 4. þm. Reykv. gagnrýndi einnig, að hér sé búið að ákveða svo og svo marga hluti í sambandi við framkvæmdina, áður en þetta mál komi til Alþ. Í því sambandi vil ég aðeins vekja athygli á því, að Alþ. kýs meiri hl. stjórnar framleiðslufélagsins, og þannig er það á fjölmörgum sviðum öðrum um ríkisfyrirtæki, eins og síldarverksmiðjurnar og önnur ríkisfyrirtæki, sementsverksmiðjuna og því um líkt. Þessi fyrirtæki leggja ekki venjulega fyrir Alþ. með hverjum hætti framkvæmdum eigi að raða eða haga, ekki nema þau þurfi að sækja til Alþ. um fjárveitingar og heimild til lántöku og að verja fé úr ríkissjóði o.s.frv. Hjá því verður ekki komizt, ef grundvallarhugsunin með því að Alþ. kjósi menn í stjórn þessara fyrirtækja er sú, að Alþ. hafi þar með íhlutunarrétt og sé tryggt að fylgjast með framgangi málanna. Þetta er ekkert sérstakt um þetta fyrirtæki fram yfir önnur þau, sem hér eiga hlut að máli.

Ég skal ekki efna til neinna frekari deilna af minni hálfu um þetta mál. Mér finnst sjálfsagt að það verði gerð miklu fullkomnari grein fyrir því, — sem ég get ekki gert hér á þessu stigi málsins, svo það verður þá að gerast í þeirri n.; sem fær málið til meðferðar, iðnn.,— í hverju liggur umframkostnaður við bygginguna fram yfir það sem áætlað var og enn fremur í hverju eru fólgin þau skakkaföll — ítarlégar en ég nú hef greint — sem urðu við byrjun rekstursins og að hve miklu leyti litlu eða engu leyti er hægt að áfellast einhvern fyrir það, að ekki er talið vera, að því er mér skilst, fært að koma ábyrgð fram á hendur verktaka í kanadíska fyrirtækinu Kaiser. Þetta er sjálfsagt, og mun ég hlutast til um það við formann n., að hann fái aðgang að öllum gögnum um þetta. Eins og ég segi, það er ekki á mínu færi að svara fyrir þetta, þó að hv. þm. telji sig geta gagnrýnt það á alla enda og kanta, en þá held ég að það sé rétt hins vegar að það komi fram nánari grg. frá hlutaðeigandi um þessi atriði á þeim vettvangi, þar sem hægt er að meta slíkt, sem hér er um að ræða.