08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú ekki vera að deila við hv. 6. þm. Reykv., enda ekki tilefni til þess. Þetta mál fer til n. og auðvitað sjálfsagt að veita allar þær upplýsingar, sem hv. n. óskar eftir, og mun ekkert á því standa, að það verði gert. Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess, að framkvæmdastjóri byggingarinnar, sem þá var, Pétur Pétursson, mæti hjá n. ásamt með lögfræðingi verksmiðjunnar og endurskoðanda, ef þess verður óskað, þannig að það sé ekkert, sem fari á milli mála í þeim efnum.

En varðandi það, sem hv. þm. las upp úr grg. og kann að sýnast stangast nokkuð á við það, sem ég sagði, það er hárrétt hjá honum, þá byggist það nú meira á því, að ég hef ekki farið út í einstök atriði eins og ég sagði áðan. Þetta er löng saga allt saman. En það er rétt, að þegar við sömdum við Kaiser, var það samningur um það að hanna 12 þús. tonna verksmiðju. Það er alveg rétt. Það var gengið út frá því, að svo mundi verða. Og meira en það, hluti verksmiðjunnar átti að afkasta 24 þús. tonnum, því að þurrkararnir eru hins vegar aðeins einn þáttur í verksmiðjunni. Verksmiðjan er miklu, miklu meira heldur en tveir þurrkarar, og það liggur alveg ljóst fyrir núna, að öll önnur tæki verksmiðjunnar anna því, sem þeim er ætlað að anna. En aftur á móti er það umdeilt mál, og ég get sagt frá því hér, að við höfum látið okkar lögfræðinga, bæði íslenzka lögfræðinga og lögfræðinga Johns-Manville, kanna það, því að þeir hafa heldur enga löngun til þess, — ég tek alveg undir það með hv. þm., að amerísk fyrirtæki eru engin góðgerðarfyrirtæki — og þau hafa engan áhuga á að tapa peningum, og það hefur verið kannað af lögfræðingum beggja fyrirtækja, bæði Kísiliðjunnar og Johns-Manvilles, hvort grundvöllur mundi vera til þess að lögsækja Kaiser fyrir það, að þessir tveir þurrkarar skiluðu ekki nákvæmlega þessum afköstum. Þetta er talinn það hæpinn grundvöllur, að það hefur a.m.k. ekki enn þá verið í það ráðizt. Hvort það bendir til þess, að við höfum ekki nákvæmlega gengið rétt frá öllum hlutum í þessum efnum, skal ég ekki um segja. Það kann vel að vera, ef mönnum sýnist svo, að það sé rétt að láta einhverja aðra sérfræðinga eða lögfræðinga en við höfum kannað þann þátt og hver hafi átt þar hlut að máli. En það voru margir, sem nærri komu af sérfræðingum, sem gerðu grein fyrir því, hvaða skilyrði þessi verksmiðja þyrfti að uppfylla.

Eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, voru það vissar forsendur, sem var gengið út frá, en reyndust, þegar til vinnslunnar kom, alls ekki koma út eins og við höfðum gert ráð fyrir og eins og hafði verið gefið upp. Þetta er staðreynd í málinu. Út í þá sálma skal ég ekki lengra fara, aðeins vekja athygli hv. þm. líka á því, að það, sem ég útskýrði um hinn tölulega mismun á kostnaðinum upphaflega, 148 millj. og 248 millj., það var ákaflega lítið af þeim mismun, sem stafaði af því, að það væru framkvæmdir, sem undan hefðu verið dregnar. Það var sáralítið. Meginhluti mismunarins var gengishalli.

En varðandi svo það, hvað við séum gjarnir á að leggja út í tilraunir, þá er ég hv. þm. alveg sammála um það, að það er ákaflega óæskilegt, að lítil þjóð þurfi að gera slíka hluti. En ég held nú, að við hljótum að verða sammála um það, að það var ekki um annað að ræða, annaðhvort áttum við að sleppa því að byggja Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn eða þá að við urðum að leggja út í tilraun, af því að svona aðstaða er ekki til annars staðar í heiminum. Við getum deilt um Áburðarverksmiðju og annað, ég vil ekki segja um það. Við höfum kannske gert þetta á ýmsum sviðum, farið út í tilraunir, sem ekki hafi verið þekktar annars staðar. En hér var bara ekki nema um tvennt að velja fyrir okkur að gera, að taka vissa áhættu, sem aldrei var dulin, ég hef aldrei reynt að dylja hana og ég veit ekki til, að neinir sérfræðingar eða talsmenn fyrirtækisins hafi reynt að dylja það, að hér gætu orðið vissir byrjunarörðugleikar. Og ég vil ekki segja, að það, sem gerzt hefur, sé meira en vissir byrjunarörðugleikar, því að við getum ráðið við þessa örðugleika og við teljum okkur hafa náð tökum á þeim. En sem sagt, annaðhvort urðum við að kaupa það þessari áhættu eða sleppa því, því að annars staðar í heiminum er ekki við þessar aðstæður að fást.