16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá iðnn., var ég fjarverandi við afgreiðslu þessa máls, enda ætla ég ekki að ræða hér þau efnisatriði, sem mestar deilur hafa staðið um.

Það er ljóst, að mjög miklir erfiðleikar eða mistök, hvaða nöfn sem menn vilja hafa á því, hafa orðið við uppsetningu þessarar verksmiðju. En ég treysti því, að það hafi tekizt nú að yfirstíga þessa erfiðleika og vona, að það megi treysta þeim áætlunum, sem nú hafa verið gerðar. Það má fagna því ef tekizt hefur að finna leið til að nýta fjársjóði á botni Mývatns, en því aðeins getum við fagnað því, að það verði ekki til þess að spilla öðrum fjársjóðum, miklu meiri og langtum dýrmætari, raunar óbætanlegum, ef þeir spilltust, en þar á ég við náttúru Mývatnssveitar í heild, Mývatns, Laxár og Laxárdals. En það er ljóst, að að henni steðja með aukinni byggð og auknum umsvifum margháttaðar hættur.

Ég mun fylgja þessari stækkun í trausti þess, að allar frekari framkvæmdir miðist við öll raunsæ náttúruverndarsjónarmið, og ég læt í ljós þá von mína, að Alþ. taki síðar sérstaklega til meðferðar náttúruverndarmál Mývatnssveitar og þessa svæðis í samráði við íbúa sveitarinnar og sýslunnar. Og ég vil hreyfa þeirri hugmynd, að þá verði leitazt við með lögum að koma því þannig fyrir, að nýting á þessum náttúruauðlindum og öðrum, svo sem jarðhita, jarðgufu í Námaskarði og jarðefnum þar, að nýtingin verði á einhvern hátt skattlögð og það renni í sjóð, sem nefna mætti náttúruverndarsjóð sveitarinnar. Það er augljóst, að þarna kemur margt til greina, margt, sem getur steðjað að, þarf ekki endilega að vera verksmiðjureksturinn. Það má benda t.d. á það, að það mun verða ákaflega erfitt að standa á móti því, eins og ásókn eftir landi er gífurleg og geysilega hátt verð er oft boðið í landskika og heilar jarðir, jafnvel félagssamtök, geysilega sterk, þau sækjast eftir jörðum og þegar fjármagnsaðilar þannig fara að kaupa upp löndin þá er ábyggilegt, að þessi fjársjóður er í hættu. Og það er varla von til þess, að ég vil segja siðferðisstyrkur sveitarbúa verði ætíð svo mikill, að þeir geti staðizt ásókn þessa fjármagns.

Ég vil svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en aðeins geta þess í lokin, að ég tel það, að það sé sjálfsagt að gert sé allt til þess, að framkvæmdirnar verði, þessar mjög miklu og óneitanlega mjög dýru framkvæmdir, til þess að auka atvinnu manna í landinu og alveg sérstaklega héraðsmanna og þeir fái þarna atvinnu fyrir sig og tæki sín.