16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég bið hæstv. forseta afsökunar á þessum seinagangi, en það er ekki gaman, þegar þarf að vera við umræður í mörgum málum í báðum d. samtímis. Ég hef því miður ekki getað hlustað hér á þær umræður, sem fram hafa farið frá nm. í minni hl. hv. iðnn. og bið ég því afsökunar þó ég ekki geri þær að umtalsefni. Það er vegna þess að ég varð að vera við umræður í Ed. en ekki vegna þess að ég ekki vildi hlusta á þá mætu menn.

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er eingöngu út af brtt., sem hv. minni hl. iðnn. flytur á þskj. 720, þar sem segir, að framkvæmdir við stækkunina skuli boðnar út og íslenzkum tilboðum tekið, ef þau eru sambærileg að verði og gæðum. Ég held, að ég hafi tekið það fram í þessari d., eins og í Ed., að það væri stefna stjórnar Kísiliðjunnar h/f að láta íslenzk fyrirtæki og Íslendinga, eftir því sem kostur væri á, sitja fyrir um verkefni varðandi þessa verksmiðju. Hins vegar þá væru mörg verk þess eðlis, bæði af fjárhagslegum ástæðum og ýmsum öðrum, að þessa væri ekki kostur. Ég mundi þess vegna telja það mjög miður farið, að því væri slegið föstu sem stefnuatriði, að þetta væri gert hér. Það skiptir þó ekki öllu máli, en það sem ég held, að sé aðalannmarkinn við þessa till., er það, að það er í rauninni ekki hægt að samþykkja svona ákvæði. Kísiliðjan h/f er ekki ríkisfyrirtæki, það er sjálfstætt hlutafélag með sjálfstæðri stjórn. Að vísu má hugsa sér það, að ríkisvaldið segi, þegar till. koma um það að auka hlutafé í þessu fyrirtæki, að það vilji ekki auka hlutafé, nema að fullnægðum einhverjum tilteknum skilyrðum, þá það, og það er eðlilegt, að þeir, sem eru fulltrúar ríkisins að þeir flytji þá þau boð frá réttum yfirvöldum um það efni. En ég álít, að það sé ekki með neinu móti hægt formlega séð að ákveða það um hlutafélag, eins og hér er gert, að það sé beinlínis skyldað til að haga vinnubrögðum með tilteknum hætti. Það verður að ræðast við hluthafa og ákveðast á hluthafafundi, sem réttilega er til kjörinn. Af þessari ástæðu einni saman, en ekki það að ég sé efnislega andvígur því, að það sé reynt að koma við notkun íslenzks vinnuafls og íslenzkra fyrirtækja, þar sem þess sé kostur, tel ég ógerlegt með öllu að samþykkja ákvæði sem þetta með fyrirmælum til sjálfstæðs hlutafélags, þó að ríkið sé þar aðili að — og jafnvel þótt það sé þar meirihlutaaðili. Samkv. lögum ber vissum aðilum að fara með slíkt vald, og það er þeirra formlega að taka ákvörðun um það, hvernig þeim vinnubrögðum verður háttað.