17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr. úr hófi fram, enda eru þær satt að segja ekki svo innihaldsríkar af hálfu ræðumanna, að sérstök ástæða sé til þess að lengja þær verulega. En nokkur atriði voru þó í ræðu hv. síðasta þm., sem ég tel mér ómögulegt annað en að leiðrétta. Ég hef fullan skilning á því sjónarmiði stjórnarandstöðu, að aldrei sé nógu fé veitt til nokkurra þarfa og alveg sérstakan skilning hef ég á því, að þeir telji ekki nógu fé veitt til skólamála og annarra menningarmála. Það er ekkert við þetta sjónarmið að athuga í raun og veru. Það eina, sem ég vildi þá gjarnan bæta við eða óska eftir í því sambandi, að ef gerðar eru tillögur eða settar fram hugmyndir um tugmilljóna aukningu til þarfa eins og skólabygginga, þá sé líka bent á það, hvernig afla ætti fé til þess arna. Fyrir því fer nú afskaplega lítið af hálfu þeirra manna, sem sérstakan áhuga hafa á því að auka fé t.d. til skólabygginga. En þetta er í mínum augum alls engin hneykslunarhella. Þetta gerist hér á Alþingi Íslendinga og hefur gerzt í áratugi allar götur síðan Alþ. var endurreist, að þeir, sem eru í stjórnarandstöðu, vilja fá meira fé til allra mögulegra þarfa og ég mundi segja, þeim mun minna óskynsamlegt er talið, sem þeir nefna skynsamlegri þarfir og ég er nú einu sinni á þeirri skoðun, að það sé varla hægt að nefna skynsamlegri þarfir í þessu þjóðfélagi en skólamálin og menningarmálin yfir höfuð að tala, svo að ég hneykslast ekkert á hv. þm. fyrir að halda ræðu um þetta. Ég vildi gjarnan, að hann hjálpaði okkur líka til þess að benda á skynsamlegar fjáröflunarleiðir til að fullnægja því og þá er ég fullkomlega til viðtals um það fyrir mitt leyti.

Ég stend alls ekki upp til þess að svara almennum áróðri um þetta. Hann er aldagamall hér á Íslandi, og hann er uppistaða í málflutningi stjórnarandstöðu í öllum lýðræðisríkjum. Við þetta er ekkert að athuga í sjálfu sér. Ég vek bara athygli á því, að þetta get ég allt saman fúslega fyrirgefið og það er ekki neinn ásteytingarsteinn af minni hálfu. En þegar að því kemur beinlínis að rangflytja mál og afflytja mál, fara með villandi staðhæfingar, jafnvel rangar, það þykir mér aftur á móti verra og því finnst mér ástæða til þess að andmæla. T.d. þegar hv. þm. heldur því fram, að það sé skref aftur á bak, sem nú sé að gerast varðandi byggingu nýrra skóla á næsta ári, þá er þetta röng staðhæfing. Það er stórt spor fram á við. Það getur vel verið, að honum finnist sporið hafa mátt vera enn þá stærra. Það má honum gjarnan sýnast. því skal ég ekki andmæla, og það hneykslar mig ekki nokkurn skapaðan hlut, þó að hann vilji það. En það hneykslar mig, ef hann heldur því fram í hverri ræðunni á fætur annarri og hverri greininni á fætur annarri, að þegar ákveðið hefur verið að hafa fé til nýrra skólabygginga á næsta ári 33.1 millj., þegar það hefur verið 16.7 millj. að meðaltali 3 s.l. ár, sé um spor aftur á bak að ræða. Þetta er það, sem menn almennt kalla ranga staðhæfingu. Og auk þess talar hv. þm. þannig, að það gat skilizt - ég vil ekki segja, að hann hafi farið með svo alvarlega blekkingu - það gat skilizt, að þetta væri allt það fé, sem yfirleitt færi í allar nýjar skólabyggingar, kannske bara skólabyggingar yfir höfuð að tala. Sannleikurinn er sá, að það verður byrjað að byggja skóla á næsta ári fyrir mun meira fé en þetta, því að ýmsir skólar hafa fengið fjárveitingu á undanförnum árum, sem ekki hafa byrjað framkvæmdir, fyrst og fremst af því, að það hefur ekki verið til fé heima fyrir til þess að byggja þá fyrir. Þessir skólar munu líka fara í gang á næsta ári. Ef við tökum fjárveitingar í skóla, sem raunverulega verður byrjað á framkvæmdum við á næsta ári, þá er það mun meira fé, — að ég nú ekki tali um, ef við tökum það fé, sem veitt er í allar skólabyggingar, þá er það margfalt meira. Ég man ekki töluna, en hún er hátt á annað hundrað millj. kr., mjög hátt á annað hundrað millj. kr., sem varið verður til skólabygginga á árinu 1969. Þetta vildi ég bara segja til þess að fyrirbyggja allan misskilning.

Þá er það önnur staðhæfing, sem er algerlega röng líka og ég tel alveg nauðsynlegt að leiðrétta. Hann telur skortinn á skólahúsnæði eða skólaaðstöðu vera mun meiri en hann var fyrir áratug. Þetta er algerlega rangt, og það væri ekki nokkur vandi fyrir mig við annað tækifæri að sýna fram á það, að þetta er rangt. Sem betur fer hefur aðstaðan stórkostlega batnað, þó að ég hefði ekkert við það að athuga, að hann segði, að hún ætti að batna enn þá meira. Það getur hann sagt. En hitt getur hann ekki sagt, að hún hafi ekki batnað, því að það er rangt.

Þá sagði hann enn fremur og það er það þriðja, sem er algerlega rangt hjá honum, að ekkert hafi verið gert undanfarið af því að endurskoða skólakerfið. Ég segi bara, guð almáttugur, hvernig getur maður, sem setið hefur á Alþ. í mörg ár, sagt annað eins og þetta? Því að ég veit ekki betur en hann hafi tekið þátt í því, síðan hann kom á þing, að fjalla um endurskoðun á allri sérskólalöggjöfinni íslenzku, nema menntaskólalöggjöfinni. Það hafa verið sett ný lög um hvern einasta sérskóla á landinu nema menntaskólana. Og það hefur líka verið mín meining að setja löggjöf um menntaskólana. Ég skipaði nefnd fyrir einum þremur árum. Sú nefnd lauk störfum fyrir mánuði og nú liggur til athugunar hjá menntmrn. og hjá ríkisstj. frv. þeirrar nefndar. Það hefur verið mjög ákveðinn vilji minn að leggja þetta frv. fyrir þetta þing. Og ef það tekst að koma því fyrir þetta þing og þingið afgreiðir það, hefur öll sérskólalöggjöf íslenzk verið endurskoðuð á undanförnum árum. Eina löggjöfin, sem hefur ekki verið endurskoðuð, er grundvallarlöggjöfin sjálf um fræðsluskylduna og framkvæmd hennar. Ástæðan til þess er sú, eins og ég hef margsagt frá opinberlega áður, að í stjórn Hermanns Jónassonar skipaði ég nefnd til þess að endurskoða þessa löggjöf eða gera till. um endurskoðun löggjafarinnar. Fulltrúi Framsfl. átti sæti í henni ásamt fulltrúa kennarasamtaka og embættismanna, og nefndin varð á einu máli að einum manni undanskildum, fulltrúa Sambands íslenzkra sveitarfélaga, um það, að ekki væri þörf á grundvallarbreytingum á þessari löggjöf, vegna þess að hún væri rammalöggjöf og hægt væri að gera þær breytingar á framkvæmd skólakerfisins, sem æskilegar væru taldar. Og á undanförnum árum hafa stórfelldar breytingar verið gerðar á framkvæmd skólakerfisins bæði að því er snertir námsefni og að því er snertir kennsluaðferðir og próf. Ef við berum saman námsefni, kennsluaðferðir og próf, t.d. fyrir 10 árum og í dag, þá er um stórkostlegar breytingar á öllum sviðum að ræða. 1961 var gefin út ný námsskrá fyrir allt skyldustigið, og hún hefur smám saman verið að koma til framkvæmda á undanförnum árum, og hvernig í ósköpunum er svo hægt að segja það, með hliðsjón af þessu, að bókstaflega ekkert sé að gerast, ekkert hafi verið gert varðandi framkvæmd skólamálanna? Það er ekki meira en bara nokkrir mánuðir síðan, 3–4 mánuðir síðan að tilkynnt var um tvær stórkostlegar grundvallarbreytingar, sem undirbúnar hefðu verið með margra ára athugun og rannsóknum, þar sem er annars vegar samræming á gagnfræðaprófi, þ.e.a.s. ákvæðum um nýtt gagnfræðapróf, sem ég játa, að málefni þess voru komin í fullkomið óefni. Nú á þessum vetri fer fram kennsla í öllum gagnfræðaskólum landsins undir nýja tegund af gagnfræðaprófi. Gagnfræðaprófið er einn af hyrningarsteinum íslenzka skólakerfisins. Þetta hefur verið hægt að gera og var gert að óbreyttri gömlu rammalöggjöfinni frá 1946. Hin breytingin er veruleg breyting á landsprófinu, sem mjög hefur verið umdeild á undanförnum árum og þess vegna hefur verið skoðuð mjög vandlega fram og til baka. Það er líka að verða mjög veruleg breyting á því, og hún kemur til framkvæmda við næsta landspróf á næsta vori. Hitt er svo annað mál. að ég er ekkert ánægður yfir því að liggja undir eilífum ásökunum um það, að hér sé starfað eftir 20 ára gamalli fræðslulöggjöf. Þó að hvert einasta orð, sem um þetta er sagt, sé misskilningur og í raun og veru út í bláinn, stundum sagt viljandi og stundum óviljandi, þá hugsa ég mér ekki að liggja lengi undir því og þess vegna er sú löggjöf líka í endurskoðun. Ég veit ekki, hvort mér tekst að koma henni fyrir þetta þing, en í öllu falli fyrir það næsta eða eftirmaður minn, ef ég verð ekki þá í þessari stöðu. En ég hef undirbúið það. Ég geri ekki ráð fyrir því, að á fyrri löggjöfinni yrðu stórkostlegar breytingar, því að þess er ekki þörf. Löggjöfin er þannig upp byggð, og það var mjög viturlega gert af þeim mönnum, sem sömdu fræðslulöggjöfina frá 1946. Ég tel hana vera einhverja beztu og skynsamlegustu löggjöf, hvað lagateknisk atriði snertir, sem hér hefur verið sett, einmitt vegna þess að höfundar hennar sáu fram á það, að það á ekki að binda í löggjöf um fræðsluskyldu einstök atriði um framkvæmdir. Þetta skildu þeir ágætu menn, sem þá löggjöf sömdu, og þeir höfðu það þannig, að það má gera — ég vil segja svo að segja hvað sem er að því er snertir kennslu, kennsluefni, kennslutilhögun og próf, sem yfirvöldum á hverjum tíma sýnist rétt að gera. Og það vildi ég fullyrða, að einkum á allra síðustu árum, eftir að skólarannsóknadeildin tók til starfa, hefur verið stórmikið gert í þessum efnum eins og hver sá getur kynnt sér, sem nokkurn minnsta áhuga hefur á því að vita hið sanna og rétta í þessu máli. Svo að ég tek ekki við neinum ádeilum um það, að ég sé orðinn gamall og þreyttur í embætti og ennþá síður nokkrum ásökunum um það, að ég telji allt ágætt, sem er. Ég tel mig hafa sýnt það í störfum mínum, í orðum mínum og skrifum um þessi mál undanfarið, að í sjálfu sér er ekkert skólakerfi nokkurn tíma ágætt í þeim skilningi, að það eigi að haldast óbreytt hvert einasta ár, enda hefur ekkert ár liðið undanfarinn áratug, að ekki hafi meiri og minni breytingar verið gerðar í raunverulegri framkvæmd skólamálanna.

Hv. þm. kvartaði yfir tóninum í minni ræðu. Þá held ég, að ég geti nú ekki stillt mig um að svara obbolítið í sömu mynt í allra síðustu orðum mínum. Tveir flokksmenn hans hafa verið menntmrh. áður undanfarið. Eitt aðalafrek fyrri menntmrh. var það að loka menntaskólanum, loka honum, að banna fleiri en 25 unglingum inngöngu í menntaskólann. Það var eitt af aðalafrekum fyrri framsóknarmannsins í stöðu menntmrh. Þegar seinni framsóknarmaðurinn var menntmrh., Eysteinn Jónsson á árunum 1947–49, voru menntaskólabyggingamálin í Reykjavík á döfinni. Ég átti sæti í nefnd þá, ég var þá þm., ég átti sæti í nefnd þá, sem fjallaði um það mál og við gerðum ákveðnar tillögur, en ráðh. gerði ekki neitt. Það var á hans valdatímum, sem byggingamál menntaskólans var einna mest á döfinni. Hann lenti í því, að það voru skiptar skoðanir milli flokksbróður hans, þáv. rektors menntaskólans, og annarra manna hér í þinginu, og hann gafst upp fyrir vandanum og lét engan menntaskóla byggja, Og hans dugnaðarleysi, hans uppgjöf í því máli gerði það að verkum, að ekkert var í því gert fyrr en 1961.