16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. fannst það fjarstæð kenning hjá mér, að ég teldi það vera óeðlilegt með öllu að setja slíkt ákvæði, sem flutt var brtt. hér um í sambandi við aðild að Kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn. Ég hverf ekki frá því, sem ég áðan sagði um það atriði. Það haggar ekki hinu, sem er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að ég tel, að það sé allt annars eðlis, ef Alþ. setur almenn lög um það, að fyrirtæki í landinu skuli lúta tilteknum starfsaðferðum sem þessum. Það er allt annað mál. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að slíkar almennar reglur geti ekki gilt, en ég álít, að það sé með öllu óeðlilegt að setja slíkt ákvæði um eitt íslenzkt fyrirtæki, eins og hér er ætlunin að gera, að vinnubrögðum skuli hagað með þessum hætti og það þannig svipt þeim eðlilega rétti, sem önnur fyrirtæki í landinu hafa, að meta það, hvað sé fyrirtækinu hentugast og heppilegast í þessu efni. Ég held, að þar af leiði, að kenning mín um þetta efni þurfi ekkert að rekast á kenningu hv. 6. þm. Reykv., þegar það er skoðað í þessu ljósi.

Hv. þm. fór um það mjög hörðum orðum, að embættismenn hefðu leyft sér, áður en Alþ: tók ákvörðun um, hvernig að þessu máli skyldi unnið, að leita tilboða í verk og jafnvel gera samninga um verk og leita eftir lántöku erlendis í þessu sambandi. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að Kísiliðjan h/f við Mývatn er starfandi fyrirtæki og hefur fullkomna heimild sem slíkt að taka sínar ákvarðanir. Hitt er allt annað mál, að hún verður að sjálfsögðu að leita eftir fé til sinna framkvæmda. Hún lagði til við aðalhluthafa, Johns-Manville og ríkisstj. Íslands í vetur, að hafizt yrði handa nú þegar um stækkun verksmiðjunnar og að það yrði gert með þeim hætti, að hluthafarnir legðu fram aukið hlutafé að fullu til að fjármagna þetta verk, en það yrði ekki gert með lántöku. Ríkisstj. samþykkti fyrir sitt leyti sem aðili málsins, að þetta skyldi gert. Að vísu er það svo, að hún þarf að leita samþykkis Alþ. um það að fá þessa hlutafjáraukningu, en ég held, að jafnreyndur maður og þessi hv. þm. viti það harla vel, að það er margoft, sem gerðar eru ráðstafanir þó ekki sé formlega búið að ganga frá vissum atriðum þá er svo og svo mikið búið að gera til undirbúnings verka. Við skulum segja það, að Alþ. samþykki ekki þessa hlutafjáraukningu, þá þarf það ekkert að útiloka, að það væri hægt að standa við stækkun verksmiðjunnar á þann veg, það er heimild fyrir þeirri stækkun í þeim lögum sem eru í gildi í dag, það vantar aðeins fjármagn til þess. Það er ekkert sem hindraði það út af fyrir sig, að hugsanlegt væri með öðrum úrræðum að fá fjármagn til þess að stækka verksmiðjuna, þannig að hér var ekki um neina fjarstæðu að ræða og það varð að gera pantanir í ýmsar vélar og tæki, ef átti að koma verksmiðjunni upp með þeim hraða, sem allir voru sammála um að þyrfti að gera einmitt til að koma í veg fyrir þann halla, sem þessi hv. þm. og ýmsir aðrir hafa deilt svo harðlega á og ég skal játa, að er síður en svo gleðilegur fyrir forráðamenn verksmiðjunnar að skuli vera og við munum vissulega yfirstíga sem allra skjótast. Ég tel því ekki, að hér hafi verið rangt gert og enga óhæfu unna af neinum embættismönnum. Stjórn fyrirtækisins gerði hér það, sem hún hafði fulla heimild til, og ríkisstj., en ekki Kísiliðjan h/f, leitaði eftir að fá lán hjá Export-Import bankanum, sem við höfum átt margvísleg viðskipti við til þess að fjármagna vissa hluti í sambandi við byggingu verksmiðjunnar. Við höfum ekki aðstöðu til að fjármagna þetta allt hér heima. Ég hef sagt frá því áður, að það er vilji okkar að bjóða út hér húsbyggingarnar og ýmislegt annað, sem við ráðum við að afla fjár til hér heima, sem kostar að við verðum að skerða það fé, sem við ætluðum annars til annarra þarfa, en við töldum óumflýjanlegt að fá verulegt fjármagn erlendis til þessara framkvæmda og þá var það ekki heppilegra með öðru móti en þessu. Samningar við ExportImportbankann hafa ekki verið undirritaðir ennþá og það verður að sjálfsögðu ekki endanlega frá því gengið, fyrr en séð er, hvort Alþ. veitir lagaheimild til þess að taka þetta lán. En allt er þetta rétt. Hvort menn telja þetta svo fordæmanlegt eða ekki, það læt ég menn alveg um. Ég álít, að þetta sé eðlilegt og ekkert við þetta að athuga og eingöngu nauðsynlegt til þess að hraða nauðsynlegu verki, sem mér skilst að allir séu í rauninni sammála um að þurfi að vinna, í stað þess að láta það dragast á langinn mánuðum saman og hindra það svo og svo lengi að hagur fyrirtækisins geti komizt á réttan kjöl.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið gersamlega ómögulegt að fá botn í það, hvar væri að finna þá galla, sem verið hefðu í undirbúningi þessa verks og ég held, að það verði alltaf ákaflega erfitt að fá botn í það af þeim einföldu ástæðum, að það er ákaflega erfitt að sakfella þá menn, sem að þessum málum hafa unnið og hafa gengið út frá vissum forsendum, sem reyndust svo ekki vera réttar. Ég held, að það sé ekkert algengara í vísindastörfum heldur en að einmitt slíkir hlutir gerist. Það er umdeilt mál milli Kísiliðjunnar h/f og Kaiser, hvort þeir hafi verið ábyrgir og séu ábyrgir fyrir því, að verksmiðjan skili 12 þús. tonna afköstum og það hefur farið fram lögfræðileg athugun á réttarstöðu okkar að því leyti. Það er skoðun þeirra lögfræðinga, sem um það hafa fjallað, bæði hjá okkur og vestanhafs, að það sé hugsanlegt, að um einhverjar slíkar bætur gæti verið að ræða, en þó sé það mjög vafasamt og yrðu mjög kostnaðarsöm og hæpin málaferli. Það byggist einfaldlega á því, að það er ekki hægt að sanna, að þeir hafi ranglega byggt þurrkarana, sem eru aðeins einn hluti af verksmiðjunni — það er ekki deilt um aðrar vélar hennar, sem notaðar hafa verið, — þó að þeir skili ekki þessum afköstum, vegna þess að hinar efnafræðilegu forsendur hafi vantað til þess, að þeir gætu skilað afköstunum.

Ég skýrði frá því hér í ræðu minni um daginn, að hinar efnafræðilegu forsendur hefðu brostið — og ég vil alls ekki saka okkar efnafræðinga, hvorki hérlendis né erlendis um, — en það var reiknað með, að við gætum náð meira vatni úr efninu, áður en það fer inn í þurrkarana og það mætti fara votara út úr þeim heldur en reyndin hefur orðið. Og þetta hefur að sjálfsögðu sín stórfelldu áhrif á afköst þurrkaranna sem slíkra. Það er vitað, að hér er um að ræða vandamál, sem er kannske ennþá meira en við enn í dag vitum. Ég get sagt hv. þm. frá einu atriði, — kannske á að setja sakamálarannsókn á það með sama hætti eftir þessum kenningum, — að það hefur gerzt núna um nokkurra daga skeið, að verksmiðjan skilar alls ekki því hráefni, sem hún á að skila, heldur miklu lakara efni. Það er búið að rannsaka það ítarlega, hvað hér hefur gerzt og þá kemur það upp úr kafinu, — þetta er komið í lag í dag, — þá kemur það upp úr kafinu, sem virðist vera ástæðan, þó það sé ekki efnafræðilega alveg búið að kanna það, það eru efnafræðingar að vinna að því, að efnið í vatninu er ekki alls staðar það sama og að þessi kísilleir myndast ekki alls staðar með sama hætti. Þetta veldur þessum vanda, sem þarna er um að ræða, það er dælt á öðrum stað í vatninu en áður og eftir að búið er að flytja dæluna til annars staðar, fáum við eðlilegt efni. Þetta sýnir okkur allt saman, hvað þetta er flókið og vandasamt og erfitt við að fást. Og ég fullyrði hiklaust, að það megi hver halda uppi sínum kenningum um það, að það eigi að draga einhverja menn til saka eða ábyrgðar fyrir það, sem gerzt hefur í þessu eða ekki, hvort sem það er ég sjálfur eða einhver annar. Ég ætti kannske ekki að fullyrða neitt, því kannske ætti það að vera ég, ég er formaður félagsstjórnarinnar. Þó að ég sé ekki efnasérfræðingur eða verkfræðingur og ætli mér ekki að halda því fram, þá kannske hefði ég átt að sjá þetta allt fyrir og vita betur heldur en allir þeir ráðunautar, sem leitað hefur verið til. Ég efast um, að í sambandi við nokkurt fyrirtæki hér á Íslandi hafi verið leitað aðstoðar jafnmikillar efnafræðilegrar og verkfræðilegrar sérþekkingar og gerðar jafnmiklar rannsóknir og einmitt við undirbúning þessa fyrirtækis.

En menn geta auðvitað í sambandi við það, sem ég sagði hér frá síðast, sagt, — því nú er einn skandalinn enn, sem er sjálfsagt að setja rannsókn á: Hvernig stendur á því, að þessi hluti af vatninu skilar ekki efni af sömu gæðum og annars staðar í vatninu er um að ræða? Nei, ég held, hv. þm., að hér séum við að reyna að gera að einhverju hneykslismáli mál sem er á engan hátt hneykslismál. Það hafa allir lagt sig fram um að gera allt sitt bezta í þessu, nema því aðeins að við gerum þá kröfu til manna; að þeir séu alfullkomnir. Það hefur verið gengið út frá vissum formúlum, sem ekki undir öllum kringumstæðum stóðust. Og það hefur sýnt sig, að þetta efni hefur ekki hagað sér á allan hátt á þann veg, sem efnatilraunir í efnarannsóknastofu gerðu ráð fyrir. Ég held, að það sem við erum að gera í dag þrátt fyrir þessi mistök, sem ég tek fram, að við reiknuðum alltaf með frá fyrstu tíð að gætu komið fyrir og þann fyrirvara er að finna í öllum skýrslum, að það mætti búast við margvíslegum byrjunarörðugleikum, að þrátt fyrir það, þó að þau hefðu orðið meiri heldur en við höfum reiknað með og langvinnari, að þá höfum við fengið það marga plúsa á móti, að það sé engin ástæða til þess að sjá eingöngu svörtu hliðarnar á þessu máli. Við vorum hræddir um alla tíð, að það væri ekki öruggt, að við gætum framleitt fyrsta flokks vöru, en þetta hefur tekizt, þannig að varan er af hinum bezta gæðaflokki, sem nú er framleiddur í heiminum. Við vorum hræddir um og það af fullri alvöru, að við gætum ekki selt nema hluta af þessari framleiðslu, miðað við það hvað heildarnotkun af kísilgúr í veröldinni er sáralítil. Hvort tveggja þetta, sem er grundvallaratriði undir rekstri verksmiðjunnar, hefur tekizt og það er ljóst, að með stækkun verksmiðjunnar eins og við gerum nú ráð fyrir, þá er hægt að koma henni mjög skjótlega á vel reksturshæfan grundvöll, þannig að strax á þessu ári eigi hún að vera þess megnug að standa undir sínum beina reksturskostnaði og árið 1972 á hún að geta skilað fullum afskriftum og eftir það verulegum hagnaði.

Hv. þm. finnst kannske, að þetta sé fyrst og fremst afsökun manns, sem beri ábyrgð á mistökum. Það er ekkert við því að segja. Ég skýt mér ekki undan þeirri ábyrgð. Ég skýt mér heldur ekki undan því, að það verði skoðaðir allir pappírar, reikningar og rannsóknir, sem fram hafi farið, síður en svo. En ég álít ekki, að við fáum út úr því neitt betri niðurstöður heldur en við þegar höfum fengið með aðstoð færustu lögfræðinga, sem þetta hafa kannað, vegna þess að vitanlega er okkur báðum það stórkostlegt áhugaefni, bæði fulltrúum ríkisins og ekki síður hinu ameríska fyrirtæki, sem eins og ég svo oft áður hef sagt hefur sannarlega ekki áhuga á því að borga meira en það þarf að borga, að enginn sleppi, sem hægt væri að draga til ábyrgðar fyrir mistök í þessu efni.