25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

228. mál, fyrirtækjaskrá

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir stofnun og starfrækslu fyrirtækjaskrár, þ.e. skrár yfir öll fyrirtæki í landinu, og verður hún jafnóðum færð til samræmis við á orðnar breytingar eftir því sem unnt er. Skrá þessi á að taka til allra fyrirtækja, einstaklinga og félaga í venjulegum skilningi og auk þess til embætta, stofnana og félagssamtaka enda sé um að ræða starfsemi, sem skattyfirvöld og aðrir stjórnsýsluaðilar þurfa að hafa skrár yfir til skattlagningar eða annarra nota. Í stórum dráttum má segja, að í fyrirtækjaskrá verði teknir allir atvinnurekendur, stofnanir og félagasamtök, sem eiga að koma á skrár skattyfirvalda vegna álagningar tekjuskatts og útsvars, söluskatts og annarra opinberra gjalda. Þó verða dánarbú væntanlega ekki tekin inn í fyrirtækjaskrá nema þau reki atvinnufyrirtæki, t.d. verzlun eða iðnað. Að öðru leyti eru ekki tök á að setja fyrirfram ákveðnar reglur um það, hvar markalínan skuli liggja milli starfsemi sem tekin er á skrá og starfsemi sem er utan við verksvið fyrirtækjaskrár, þar eð hún er óveruleg eða sérstaks eðlis. Reynslan verður að skera úr um það hvað telst hagkvæmt og eðlilegt í þessu efni, þó má t.d. geta þess, að leigusalar á húsnæði munu ekki verða teknir á fyrirtækjaskrá sem slíkir nema um sé að ræða aðalatvinnu hlutaðeigenda eða stöðuga starfsemi í allstórum stíl.

Á sama hátt og einum opinberum aðila, þ.e. þjóðskránni, sem er rekin sem deild í Hagstofunni, var á sínum tíma falin stjórn almannaskráningar í landinu, er nú lagt til, að sama aðila sé fengið það verkefni að sjá um allsherjarskráningu fyrirtækja. Aðalhlutverk þjóðskrár er að sjá stjórnsýsluaðilum fyrir tæmandi og að öðru leyti sem fullkomnustum skrám yfir íbúa landsins, og hliðstætt því verður það eitt aðalhlutverk fyrirtækjaskrár að láta þessum aðilum í té tæmandi skrár yfir fyrirtæki með öllum þeim upplýsingum um þau, sem þörf er á til stjórnsýslu á hverju sviði. Starfræksla fyrirtækjaskrár kemur til með að styðjast við þjóðskrána á margvíslegan hátt og án hennar hefði vegna kostnaðar og annarra vandkvæða varla komið til greina að koma á fót fyrirtækjaskrá eins víðtækri og hér er fyrirhuguð. Við stofnsetningu og rekstur fyrirtækjaskrár verður notuð nútíma skýrsluvélatækni eins og við þjóðskrá.

Hagstofan hefur nú um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi fyrirtækjaskrár og er það verk nú komið á lokastig. Ekki er bein þörf nýrrar lagasetningar til að koma fyrirtækjaskrá á fót, en til þess að geta starfrækt hana framvegis þarf að tryggja öflun upplýsinga til viðhalds hennar, þannig að hún sé á hverjum tíma sem réttust. M.a. þarf helzt að fá jafnóðum upplýsingar um upphaf og lok atvinnurekstrar hvers aðila, um aðsetursbreytingar o.fl. Óhjákvæmilegt er að lögfest sé skylda til þess að tilkynna Hagstofunni slíkar breytingar, en vegna þess að ástæðulaust er að öll atvinnustarfsemi verði tilkynningarskyld og ekki liggur ljóst fyrir, hversu víðtæk þessi skylda þarf að vera, þykir rétt, að fjmrh. fái almenna heimild til að ákveða til hvaða atvinnugreina hún skuli taka. Hér er annars ekki um að ræða nýmæli í íslenzkri löggjöf nema að nokkru leyti, því í 11. gr. gildandi söluskattslaga eru allir söluskattsskyldir aðilar skyldir að tilkynna skattstjóra um upphaf og lok atvinnurekstrar og sitthvað fleira. Þá er og í lögum um verzlunaratvinnu, sem sett voru vorið 1968, ákveðið, að hver sá sem stundar verzlun skuli tilkynna Hagstofunni aðsetur starfseminnar og breytingar á henni. Má því segja, að tilkynningarskylda sú, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., hafi þegar verið lögfest að því er varðar atvinnurekendur í verzlun. Þá þarf og að ákveða með lögum, að fyrirtæki skuli nota auðkennisnúmer sitt samkvæmt fyrirtækjaskrá og þjóðskrá og er þar um að ræða hliðstæð ákvæði og gilda um notkun nafnskírteinis, samkv. lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina.

Auk þess sem fyrirtækjaskrá er ætlað að fullnægja þörf stjórnsýsluaðila fyrir skrár og önnur starfsgögn, er annar aðaltilgangur hennar sá að vera tæki til skýrslugerðar um atvinnuvegi landsmanna og fleira. Þegar starfsemi fyrirtækjaskrár er komin í fastar skorður, verða á hverjum tíma tiltækar úr henni upplýsingar um tölu fyrirtækja í hverri atvinnugrein, í hverju sveitarfélagi og um skiptingu þeirra eftir formi rekstraraðildar o.fl. Með þessu ætti skýrslugerð um þessi atriði að komast í gott og öruggt horf og kostnaður við hana að verða mjög lítill. En þetta er aðeins byrjun, því stefnt er að því að fyrirtækjaskrá verði hagnýtt til að fá til skýrslugerðar margvíslegar upplýsingar úr gögnum skattyfirvalda og annarra opinberra aðila, sem fram að þessu hefur ekki verið unnt að nýta nema að takmörkuðu leyti. Þetta er gert kleift með því að skattyfirvöld koma til með að nota vélspjöld fyrirtækjaskrár og öll vélaúrvinnsla skattgagna hvers fyrirtækis er tengd auðkennisnúmeri þess í fyrirtækjaskrá. Þetta þýðir, að upplýsingar í þessum gögnum verða tiltækar til tölfræðilegrar úrvinnslu með þeirri sundurgreiningu sem grunnspjald fyrirtækjaskrár gerir mögulega. Hér er aðallega um að ræða skiptingu eftir atvinnugreinum og stöðum og eftir formi rekstraraðildar: einstaklingsfyrirtæki, sameignarfélög, hlutafélög, samvinnufélög o.s.frv. Þannig verður mikilvægur efniviður tiltækur til skýrslugerðar í vélum, án þess að það þurfi að kosta skattyfirvöld viðbótarvinnu, sem um munar.

Vegna kostnaðar af ýmsum öðrum ástæðum ber að leggja á það megináherzlu að íslenzk hagskýrslugerð sé skipulögð þannig, að sem mest af henni fáist sjálfkrafa sem nokkurs konar afrakstur af opinberri starfsemi. Þetta á sérstaklega við skýrslugerð um atvinnuvegi landsmanna. Um þá er árlega aflað fjölþættra gagna, bæði til gjaldheimtu og annarra nota, sem rétt á haldið ætti að vera hægt að nota til ítarlegrar, fljótlegrar og kostnaðarlítillar skýrslugerðar um atvinnuvegina.

Þriðja aðalhlutverk fyrirtækjaskrár verður upplýsingaþjónusta. Á sama hátt og þjóðskráin hefur frá upphafi starfað sem almenn upplýsingamiðstöð á sínu sviði, er gert ráð fyrir að úr fyrirtækjaskrá verði hverjum sem er veittar upplýsingar um fyrirtæki, hvar sem er á landinu, þ.e. um heiti og staðsetningu þeirra, um þá starfsemi, sem þau reka, og um sitthvað fleira, en að sjálfsögðu ekki um neitt það, sem Hagstofan hefur fengið vitneskju um sem trúnaðarmál. Með þessu verður bætt úr mjög brýnni þörf fyrir skipulagða upplýsingaþjónustu varðandi fyrirtæki. Þá er og gert ráð fyrir því, að gefnar verði árlega út til sölu ítarlegar skrár um fyrirtæki í landinu.

Um kostnað við stofnun og starfrækslu fyrirtækjaskrár er það að segja, að hann hefur verið og verður tiltölulega lítill og er ástæðan fyrir því aðallega sú, að hagnýting þjóðskrárinnar og þeirrar tækni, sem henni fylgir, gerir verk þetta miklu kostnaðarminna og auðveldara en ella væri. Kostnaður við að koma fyrirtækjaskrá á fót hefur hingað til verið greiddur án þess að koma hafi þurft til aukafjárveitingar að því frátöldu, að frá ársbyrjun 1969 var bætt við einum starfsmanni vegna þessara verkefna. Eins og horfir, er ekki gert ráð fyrir frekari aukningu á starfsliði Hagstofunnar vegna fyrirtækjaskrár. Að öðru leyti verður um að ræða einhvern viðbótarkostnað vegna vélvinnslu fyrirtækjaskrár, en á móti sparast kostnaður við sömu verk, sem fram að þessu hafa verið unnin fyrir skattstofurnar. Hér verður þó um að ræða einhver viðbótarútgjöld, en hluti þeirra mun fást greiddur með tekjum fyrir selda þjónustu — þar á meðal fyrir seld rit — sem geta orðið talsverðar.

Það skiptir allmiklu máli að frv. þetta fáist afgreitt á þessu þingi, ef þess er nokkur kostur, þar eð frestun málsins til hausts mundi sennilega leiða af sér hálfs árs drátt á því að fyrirtækjaskrá tæki til starfa. Þá er og önnur ástæða sem mælir með því, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Í áðurnefndum lögum um verzlunaratvinnu er ákveðið, að Hagstofan skuli halda skrá yfir þá aðila, sem á hverjum tíma hafa leyfi til verzlunarrekstrar. Þessi skráning verzlunarleyfa verður einn liður í starfsemi fyrirtækjaskrár, en hún getur ekki hafizt fyrr en lög hafa verið sett um þessa nýju skrá.

Svo sem ég hef hér sagt, þá er lögð á það nokkur áherzla, ef þess er nokkur kostur, að fá þetta frv. afgreitt á þessu þingi. Mér er það fullljóst, að frv. þetta er fullseint á ferðinni, þannig að það er ekki hægt að ásaka hv. nefnd, sem það fær til meðferðar, þó að hún kunni eitthvað að spyrna við fótum í því efni. Hitt held ég að sé óhætt að segja, að hér er fyrst og fremst um tæknilegt frv. að ræða, sem hefur verið undirbúið mjög vandlega undir forystu hagstofustjóra. Hér er engum efa bundið, að hér er um geysilega mikilvægt mál að ræða, að koma fyrirtækjaskrá landsmanna í viðunandi horf. Það er í rauninni engin fyrirtækjaskrá til í landinu í dag, og það er opinbert leyndarmál — og reyndar ekki lengur leyndarmál, skráin er það langt áleiðis komin að það eru alls konar fyrirtæki til í landinu, sem ekki eru skráð og m.a. koma ekki til skattlagningar eða greiðslu gjalda, þannig að hér er allra hluta vegna um mikilvægt mál að ræða.

Ég vil líka taka það fram, að ástæðan til þess að frv. hefur ekki komið fram fyrr, er sú, að það þótti rétt að leita fyrirfram umsagnar um málið hjá öllum þeim helztu aðilum, sem þetta varðar, þannig að það ætti ekki að vera þörf á því að senda það til umsagnar slíkra aðila hér eftir.

Ég vil einnig geta þess hér, að það hefur verið haft samráð um frv. við ríkisskattstjóra og Skattstofuna í Reykjavík, Efnahagsstofnunina, dómsmrn. — sem sérstaklega hefur verið rætt við varðandi viðurlög við brotum á þeim ákvæðum sem í frv. eru — Hagfræðideild Seðlabankans, Verzlunarráð Íslands, Samband íslenzkra samvinnufélaga, Félag íslenzkra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenzkra stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, þannig að það hefur verið haft samband við alla þá aðila, að ég hygg, eða öll þau heildarsamtök, sem þetta mál varðar. Að þessu leyti held ég, að það muni flýta mjög meðferð málsins og vildi leyfa mér að beina því til hv. nefndar að hún a.m.k. áður en hún réðist í að senda frv. annað, þá hefði hún samband fyrst við hagstofustjóra, sem mun geta útskýrt það í einstökum atriðum, og gert þá nánar grein fyrir því hvort nokkrar athugasemdir hafa komið fram við málið.

Þar sem hér er um málefni Hagstofu Íslands að ræða, sem er deild úr fjmrn., þá hygg ég að eðlilegast sé að líta á þetta mál sem fjárhagsmál, og legg ég því til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.