17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

116. mál, skólakostnaður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það vakti ekki fyrir mér, þegar ég tók til máls áðan, að hefja almennar umr. um skólamál og menntamál. Ég beindi smá-fsp. til hæstv. ráðh. um tiltekið atriði í skólamálum, og það varð honum hins vegar tilefni þess að hefja hér mjög langan fyrirlestur um alla stjórn sína á kennslumálum og menntamálum. Það hefur síðan leitt til þess, að hér eru fjölmargir menn komnir á mælendaskrá. En ég ætla sem sagt ekki að hefja neinar almennar umræður um þetta efni.

Tilefni þessara umræðna er frv. ríkisstj. um að takmarka þau ákvæði, sem samþykkt höfðu verið í skólakostnaðarlögunum. Ég benti á það í ræðu minni áðan, að ég teldi, að það ætti að standa við þau ákvæði og að það ætti að hafa fjárveitingar á fjárlögum það háar, að hægt væri að fullnægja þeim. Hæstv. ráðh. sagðist skilja þetta sjónarmið, og hann sagðist í rauninni virða það, en menn yrðu að gera sér grein fyrir því, að það væri munur á ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Þeir flokkar, sem væru í ríkisstj., yrðu að vera ábyrgir, en við hinir gætum leyfi okkur að flytja ábyrgðarlausar till. En hvað er það eiginlega, sem skilur þarna á milli ábyrgðar hæstv. ráðh. og ábyrgðarleysis míns? Það skilur þarna á milli, að ef ætti að fullnægja skólakostnaðarlögunum, þyrfti upphæðin á fjárlögum að vera 44 millj. í staðinn fyrir 33. Það munar 11 milljónum. Það er allt og sumt, og mér finnst, að það hefði ekki verið ofverk hæstv. ráðh., ef hann vildi standa við það, sem hann sagði um skólakostnaðarlögin og gildi þeirra á sínum tíma - þau voru tvímælalaust spor til framfara. Ef hann hefði viljað standa við þau lög, þurfti hann að leggja áherzlu á það, að framlögin hefðu verið 44 milljónir í staðinn fyrir 33. Þetta er allur munurinn. Og það er ekki hægt að færa nokkur rök að því, að í fjárlagafrv., sem er á áttunda milljarð króna, hefði ekki verið hægt að hnika þannig til liðum, að hægt hefði verið að finna þessa upphæð, án þess að erfiðleikar hefðu af hlotizt. Ég er sannfærður um það, að hæstv. menntmrh. hefði tekizt það, ef hann hefði ýtt á eftir af fullum þrótti. Og ef hæstv. ráðh. hefur hug á því, að á þessu verði breyting og að menn leggi ráðin á um það sameiginlega að hnika til fjárlögunum í þessu skyni, skal ég mjög gjarnan verða til aðstoðar við það að finna tekjuliði á móti þessum 11 milljónum, sem þarna er um að ræða. En munurinn er ekki meiri en þetta. Þetta er allt ábyrgðarleysið.

Ég spurði hæstv. ráðh. um Kennaraskólann áðan, vegna þess að vandamál hans eru mjög stórfelld og alvarleg eins og ég hef bent á, og mér urðu það nokkur vonbrigði, að hæstv. ráðh. kvaðst ekki leggja til neinar fjárveitingar til að fullgera skólann, fyrr en lokið væri tilteknum framkvæmdum við menntaskólana. Það er vissulega rétt, að nú standa yfir miklar og ákaflega mikilvægar framkvæmdir við menntaskólana, og það er full ástæða til að meta það að verðleikum. En ég held, að engin ástæða sé til þess að draga framkvæmdimar við Kennaraskólann, þangað til þar eru orðin vandræði, sem ekki verða leyst með nokkru góðu móti.

Hæstv. ráðh. hefur haft tvo málaflokka á sinni könnu. Hann hefur haft menntamálin, og hann hefur haft viðskiptamálin. Fyrst hæstv. ráðh. er að tala um byggingar, held ég, að þjóðfélag okkar beri það með sér, á hvoru sviðinu hefur verið meira byggt. Verzlunarhallirnar hafa risið upp eins og gorkúlur, og þar hefur ekki þurft að vega eina höllina á móti annarri. Þar hafa risið margar hallir á sama sviði, jafnvel án þess að fyrir þeim væri nokkur skynsamlegur rekstrargrundvöllur. En munurinn er sá, að þarna var svo kallað frelsi. Fjárplógsmenn, sem töldu mikilsvert að koma fjármunum sínum í fasteignir á verðbólgutímum, höfðu fullt frelsi til að byggja slíkar hallir, en til þess að byggja skóla og menningarstofnanir þurfti frumkvæði af hálfu ríkisstj. og sérstaklega af hálfu hæstv. menntmrh., og það frumkvæði hefur ekki verið nægilegt. Ef hæstv. ráðh. ber saman þessa tvo málaflokka sína, hallast ákaflega mikið á.

Hæstv. ráðh. hældi sér af því, að hann hefði neitað kröfum ráðamanna Kennaraskólans um að takmarka aðgang að skólanum og hann hefði neitað sams konar hugmyndum hjá forstöðumönnum Háskólans. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. að því er þetta sjónarmið varðar. Við verðum að halda skólakerfi okkar opnu. En það verður ekki gert með orðum einum. Það verður ekki gert með því, að hæstv. ráðh. neiti að fallast á slíkar hugmyndir. Það verður einnig að búa þannig að skólunum, að þeir geti tryggt þá menntun, sem þeir eiga að tryggja. Ef húsnæði er lélegt og ef aðbúnaður er lélegur í skólum, gegna þeir ekki hlutverki sínu, jafnvel þótt þeir eigi að heita opnir að nafninu til. Og raunar hygg ég, að raunveruleg lokun eða takmörkun hafi verið í framkvæmd, þrátt fyrir þetta, oftsinnis. Hún er framkvæmd á ýmiss konar hátt. Meðan þrengslin voru hvað mest hér í Menntaskólanum í Reykjavík, virtist það um tíma vera orðið allt að því sport að reyna að fella eins marga nemendur og hægt var í vissum bekkjum í skólanum. Ég hef spurnir af því, að slíkt hið sama sé nú að gerast einmitt í læknadeild Háskólans, sem hæstv. ráðh. minntist á. Mér skilst, að þar sé fallprósenta, sem er óeðlilega há, og ég held, að takmörkun af þessu tagi sé eitthvað það allra háskalegasta, sem við getum gert. Það er betra að loka dyrunum strax en láta menn eyða 1 eða 2 eða mörgum árum í nám, sem þeir fá svo ekki að komast í gegnum, vegna þess að það eru gerðar til þeirra annarlegar kröfur.

Hvað skólakerfið sjálft snertir, er ég sammála hæstv. ráðh. um það og hef verið það lengi, að umræður um ágalla sjálfs kerfisins, sjálfs rammans, séu á miklum misskilningi byggðar. Ég held, að þessi rammi sé þess eðlis, að það þurfi ekki að breyta honum mikið í sjálfu sér. Vandinn er allt annar. Hann kom m.a. fram í viðtali, sem skólastjóri Kennaraskólans átti við Morgunblaðið fyrir skömmu. En þar sagði skólastjórinn svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef mönnum er alvara og þeir hafa einlægan vilja á að leysa vandamálin betur en verið hefur, er það óvíða. sem skólakerfið sjálft hindrar það, enda þótt fjárskortur geri það. Ef ráðamenn vilja sýna vilja sinn í að koma fram bótum, er það fyrst og fremst með auknum fjárframlögum.“

Það er þarna, sem skórinn kreppir að, og einmitt þess vegna finnst mér það vera mjög háskaleg stefna, þegar, hæstv. ráðh. flytur hér eða gengst fyrir því, að hér er flutt frv. um takmörkun á þeim framkvæmdum, sem ákveðnar höfðu verið með löggjöfinni um skólakostnað. Ég held, að það sé ekki nokkur vafi á því, að skólakerfi okkar hefur dregizt aftur úr í samanburði við aðra. Ég held, að það sé ekki nokkur vafi á því, að alls konar nýjungar, sem verið er að framkvæma í skólastarfi, t.d. á Norðurlöndum og annars staðar, eiga langt í land hér. Og þetta er mál, sem er ekki aðeins þröngt kennslumál, þetta er tengt allri framtíðarþróun þjóðfélagsins, einnig atvinnumálunum sjálfum. Við lifum á tímum, þegar þekkingin sker úr og ef við ætlum að iðnvæða Ísland, verðum við að lyfja þjóðinni á mun hærra þekkingarstig og mun nútímalegra þekkingarstig en okkur hefur tekizt til þessa, og þessa held ég, að hæstv. ráðh. verði að minnast. Og ekki sízt verður hann að minnast þess, að Háskóli Íslands er orðinn langt á eftir hliðstæðum háskólum. Þar er m.a. að verða húsnæðisskortur til trafala. Ég fæ ekki betur séð, en það sé algerlega óhjákvæmilegt fyrir hæstv. ráðh., ef hann verður áfram í starfi sínu, að hann verður að fara að gera framkvæmdaáætlun um mjög verulegar byggingar í þágu Háskólans. Það er vissulega margt, sem kallar að, ég veit það. En það er verkefni þessa hæstv. ráðh. að tryggja það, að kennslumálin verði ekki hornreka við þróun hins íslenzka þjóðfélags.