22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér um þetta mál, en með því að mér fannst eins og hann ætlaði mér það, að ég harmaði það, að svona hefði verið gert, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tók að sér dreifingu á öll fyrir fyrirtæki norður í landi, sem gefið hafði sig upp til gjaldþrotaskipta, þá vil ég aðeins leiðrétta þann misskilning. Það er auðvitað alltaf heldur sorglegt, þegar svo fer fyrir, hvort heldur eru einstaklingar eða fyrirtæki, að þau geti ekki lengur staðið við sínar skuldbindingar og verði að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. En þetta fyrirkomulag virðist nú hafa gefizt heldur vel, því að mér skilst, að gjaldþrot þess fyrirtækis hafi verið afturkallað, eftir að það var búið að njóta þessarar fyrirgreiðslu um skeið, svo að það væri kannske athugandi, hvort það ætti ekki að taka þennan kafla upp, að einkasölur ríkisins tækju að sér að aðstoða gjaldþrota fyrirtæki eftir einhverjum tilteknum reglum, þegar þetta tilvik hefur gefið svona ágæta raun.