05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér komu satt að segja dálítið á óvart þær brtt., sem fluttar voru við þetta frv., ekki vegna þess, að ég viðurkenni ekki fullkomlega, hvað muni vaka helzt fyrir flm. þeirra, heldur vegna hins, að mér finnst næsta hæpið, að þær eigi heima í þessu frv. Frv. það, sem hér er um að ræða, er um almennar reglur varðandi rekstur ríkisins á einkasölu með áfengi, tóbak og lyf. Og í þeim er eingöngu að finna almennar starfsreglur um það, hvernig skuli haga sölu þessara vara, hvaða rétt ríkið eða þessi verzlun skuli hafa til þess að verzla með þessar vörur og hvaða vörur það séu, sem hér undir falla. Aftur á móti er ekki að finna í frv. neinar ráðstafanir til þess eða neina dóma um það, hvort þessar vörur séu heilsubætandi eða heilsuspillandi. Lyfin skulum við að vísu vonast til. að séu heilsubætandi, en um hinar tegundirnar, áfengi og tóbak, held ég, að séu mjög skiptar skoðanir og ég get mjög tekið undir það með báðum þeim hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað, að það er mín skoðun, þó að ríkissjóði sé þetta drjúg mjólkurkýr, þá sé ekki mjög giftusamlegt fyrir þjóðina að neyta mikils af þessari vöru.

Varðandi áfengi hefur það líka verið viðurkennt, að það væri nauðsynlegt að sporna gegn áfengisneyzlu og setja um það efni sérstakar reglur til hömlunar á mörgum sviðum á þann hátt, að við höfum sérstaka löggjöf um áfengismál, þar sem m.a. er bannað að auglýsa áfengi og reglur settar um, hvernig haga megi veitingu áfengra drykkja og margt og margt annað. Hliðstæð lög eru ekki til um tóbak, og það kann þess vegna að valda því, að hv. flm. þessara till. hér hafa ekki fundið annað form fyrir þessar hugleiðingar sínar um það efni en að setja þær inn í þetta frv. Ég hygg hins vegar, að engum mundi detta í hug að fara að setja inn í þetta frv. reglur til þess að hamla gegn áfengisneyzlu, heldur eiga þær reglur tvímælalaust heima í áfengislögum.

Ég skal sjálfur játa það, að ég hef brotið nokkuð það, sem ég er hér að segja varðandi þetta efni, einmitt í sambandi við tóbakið, vegna þess að það vildi svo til, að fyrir nokkrum árum síðan flutti ég hér á Alþ. frv. um

það að banna tóbaksauglýsingar hliðstætt því, að áfengisauglýsingar eru bannaðar. Og þá gerðust nú því miður þau undur, sem ég vil segja, að séu mjög mikið harmsefni og er í rauninni eina tilfellið, sem ég veit hér til í Alþ., að slíkt hafi ráðið úrslitum um mál, að það voru eingöngu fjárhagslegir hagsmunir dagblaðanna í landinu, sem ollu því, að frv. mitt var fellt. Ég fullyrði, að það voru eingöngu þeir hagsmunir, sem þar réðu. Og vitanlega er það alveg hárrétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að það hljómar kannske nokkuð einkennilega að taka auglýsingu um einhverja vöru, hvað sem hún heitir, gegn skilyrði um það að upplýsa hugsanlega viðskiptavini viðkomanda um það, að þessi vara sé stórhættuleg. Ég held, að það væri á margan hátt eðlilegra þá og mér mundi finnast það miklu geðfelldara að banna hreinlega tóbaksauglýsingar. En þá komum við aftur að þessum sama vanda, að blessuð blöðin okkar eru illa haldin og telja sig þurfa á peningum að halda. Ég skal að vísu ekki segja, hvort þau fengju mikla peninga, ef þessi till. yrði samþ. Það er annað mál, ef þau yrðu skylduð til þess að birta yfirlýsingu um, að það væri ekkert að marka þessa auglýsingu og menn skyldu forðast hana. Hljóðvarp og útvarp hafa ekki birt tóbaksauglýsingar samkv. ákvörðun menntmrh. og ég hygg, að samkomulag hafi einnig náðst við kvikmyndahúsin um það, að slíkar auglýsingar yrðu þar ekki birtar. Það er a.m.k. nýlega, ef byrjað er á því aftur, því að það tókst um skeið að fá samkomulag við þau um, að þær auglýsingar yrðu ekki birtar. Það er mér kunnugt um.

En hvað sem þessu líður, þá má segja, að það skipti ekki öllu máli, hvort menn vilja setja inn í þetta frv. þessa klásúlu um skyldu til þess að vara við þessum auglýsingum. Ég vil jafnframt segja, að það má kannske segja það sama varðandi skylduna um að merkja sígarettupakka, sem má þá kannske segja, að sé nær lagi að taka inn í frv., vegna þess að þar er um að ræða reglu um meðhöndlun á þeirri vöru, sem hér er ætlað að selja. Og það er heldur ekki óþekkt, að þetta sé gert. Þetta mun vera gert í Bandaríkjunum. En varðandi þessi atriði bæði um auglýsingarnar, þá vildi ég aðeins skjóta því fram hv. flm. til athugunar, án þess að ég sé að fetta fingur út í þessar till., ef mönnum á annað borð sýnist, að þetta eigi að koma inn í lögin með þessum hætti, að nýlega mun hafa verið lögð fram hér á Alþ. þáltill. frá allmörgum þm., sem mun vera flutt í samráði við ýmsa aðila, sem sérstaklega hafa áhyggjur af áhrifum tóbaksnotkunar, þar sem skorað er á ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vinna gegn tóbaksnotkun og þá m.a. í sambandi við auglýsingar og það, sem hér er að vikið í þessum brtt. Ég vil nú varpa fram þeirri hugmynd eða ábendingu til hv. flm., hvort í rauninni er ekki óeðlilegt að setja þetta inn í frv., ef samtímis væri ætlunin að samþykkja þáltill., sem ég nú að vísu veit ekkert um, hvaða niðurstaða verður um, en þar sem um er að ræða mörg önnur atriði varðandi tóbaksreykingar og misnotkun tóbaks einnig. Kemur það þá ekki dálítið óeðlilega út að setja þessi einstöku atriði úr þessari ályktun inn í þetta frv.? Þessu varpa ég aðeins fram til athugunar.

En 3. till., sem ég hef miklar áhyggjur af og sem hv. 4. þm. Reykn. vék hér að, er fyrri till. á þskj. 589 um álagningarhlutfall á milli sígaretta og smávindla. Hin almenna regla um verðlagningu á vörum Áfengis- og tóbaksverzlunarinnar er sú, að fjmrh. ákveði þessa álagningu, og er það að sjálfsögðu metið hverju sinni, hvað hentugast sé í því efni. Ég vil taka það fram, að það hefur stundum verið fremur greitt fyrir sölu vissra tegunda, einnig áfengistegunda, heldur en annarra og þá jafnframt haft í huga, að boginn væri ekki spenntur svo hátt, að þar væri um óhæfilega verðlagningu að ræða, sem mundi þá mjög örva til smygls. Ég er ákaflega andvígur þessari till. og vil mjög ákveðið beina því til minna góðu vina, sem að þessu standa, að þessi till. verði tekin aftur. Það gleður mig, að hv. 1. flm. kvaðst fús til að taka hana aftur til 3. umr. og sjálfsagt er að kanna hana betur, en ég teldi það mjög miður farið, ef yrði farið að festa í lögum skyldu til þess að hafa ákveðið hlutfall á verði einstakra vörutegunda þessa fyrirtækis. Ég vil m.a. vekja athygli á því, að þetta er mjög erfitt í framkvæmd, vegna þess að það eru ekki allar sígarettutegundir jafndýrar. Af því leiðir, að það gæti orðið harla erfitt að finna hlutfallið hér á milli. Smávindlar eru heldur ekki allir jafndýrir og við hvaða smávindlategundir á að miða, ef á að nota þetta þriðjungahlutfall, sem þarna er um talað, þannig að í framkvæmd er ég ósköp hræddur um, að þetta yrði nánast hrein endaleysa. Ég get hins vegar fúslega lýst því yfir, að svo miklu leyti sem ég hef ráð í þessum málum, að það er sjálfsagt að taka til fullkominnar velviljaðrar athugunar þá ábendingu, sem í þessu felst, og ég er fullkomlega sammála hv. flm., að sjálfsagt er að reyna að hafa hér hlutfall á milli, sem stuðlar að því, að heldur sé þó notað af þessu tókbaki það, sem minna skaðlegt er, en hitt. Það er önnur saga. En ég mundi telja það mjög miður farið og nánast útilokað að fá fyrirmæli um það í lögum, að það skyldi vera tiltekið hlutfall á milli, hvort sem er sígarettutegunda eða áfengistegunda. Það gæti leitt til vandræða, sem ég sé ekki fyrir endann á eins og er. Það eru þess vegna mjög eindregin tilmæli mín, að þessi till. verði tekin aftur á fyrsta stigi. Eins og ég segi, fagna ég því, að hún verði tekin aftur til 3. umr. og skal milli umræðna athuga það við Áfengisverzlunina, hvernig þetta líti út, til að afla um það nánari röksemda. Hinar tvær till., sem fram eru fluttar og ég hef vikið að, læt ég lönd og leið.